22.01.1980
Sameinað þing: 14. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í B-deild Alþingistíðinda. (528)

217. mál, kaup og sala á togurum

Páll Pétursson:

Herra forseti. Mér þykir fyrir því ef ég hef myrkvað ljós í hugskoti hv. þm. Stefáns Jónssonar. Það er ekki vanþörf á að þar sé sem bjartast. Hann sagði að hvorki hefði skort dugnað né fyrirhyggju við útgerð togarans Fonts á Þórshöfn. Útgerðin var svo góð og fyrirhyggjan svo mikil að þeir splæstu á hann 11 vélstjórum sama árið. Hann sagði líka að það hefði verið nýuppgert skip þegar það kom til Siglufjarðar. Dálítið þurfi nú að dytta að því samt þegar þangað kom. Svo lét hann í það skína, að þetta skip hefði verið notað í siglingar. Það hefur á s.l. ári farið tvær söluferðir til útlanda. Það er nú allt og sumt sem Siglfirðingur sigldi á árinu 1979.

Hv. þm. Garðar Sigurðsson sagði að það væri erfitt að segja margt af viti. Það vefst nú stundum fyrir honum, en hann verður bara að leggja það erfiði á sig. Hann vildi meina að rollubændur ofan úr afdölum mættu ekki tala um sjávarútvegsmál. Hv. þm. Garðar Sigurðsson lætur síg stundum hafa það að tala hér um landbúnaðarmál og það er líka áreynsla fyrir hann að tala um þau af viti. En ég held að ég taki mér það bessaleyfi að ræða sjávarútvegsmál með a.m.k. jafnmiklum rétti og Garðar Sigurðsson um landbúnaðarmál.