24.01.1980
Neðri deild: 24. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í B-deild Alþingistíðinda. (593)

68. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Sjútvn. þessarar hv. d. hefur fjallað um frv. um útflutningsgjald af sjávarafurðum og sömuleiðis og jafnframt um 69. mál, þar sem fjallað er um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins. Þessi mál eru í samhengi og verða varla sundur slitin.

Þess vegna leyfi ég mér að óska þess að mega nefna nú þessi mál bæði.

Það er skemmst frá því að segja, að n. hefur orðið sammála um afgreiðslu málsins og tekið tillit til ýmissa þeirra aths. sem fram komu við 1. umr. málsins. Og til þess að gera langt mál stutt held ég að sé rétt að greina frá þeim breytingum sem n. leggur til að gerðar verði.

Varðandi 68. mál eru þessar breytingar í þrennu lagi: Fyrst að lagt verði af orðið „Aflajöfnunardeild“ og í staðinn tekið orðið: Verðjöfnunardeild, sem breytist þá alls staðar þar sem það kemur fram í frv. Okkur fannst að þetta orð næði betur þeirri merkingu sem leggja ber í það á þessum stað.

Undir sama lið, við 2. gr., er brtt. um að hætt verði við að veita fjármuni í sérstaka úreldingarstyrki sem rn. eigi síðan að útbýta, heldur verði skiptavaldinu forðað frá ráðuneytismönnum og komið í stofnun sem sér um svipað verkefni, þ.e. aldurslagatryggingar. En ég legg áherslu á að fjármunum þeim, sem úr þessum sjóði koma í aldurslagatryggingar, eigi að skipta samkv. reglum sem sjútvrn. setur, en ekki þeim reglum sem gilda um úthlutun aldurslagatrygginganna nú.

Í þriðja lagi varð að gera svipaða breytingu á 6. gr. vegna þess að þar er vísað til úreldingarstyrkjanna einnig.

En að síðustu, — og skiptir kannske mestu máli varðandi þær aths. sem fram komu við frv. hér, þar sem menn lögðu áherslu á að þeir vonuðu að um væri að ræða tímabundið ástand og ekki væri æskilegt að festa verðjöfnun í lögum til frambúðar, — var farin sú leið að setja á gildistíma laganna tímamörk. Um það var nokkuð rætt hversu langur gildistíminn ætti að vera. Sumir vildu styttri tíma, aðrir lengri, en til samkomulags var því komið inn í brtt. að hafa hann tvö ár. Sá tími ætti að nægja til að sjá hvernig lögin kæmu út í raun og veru að þessu leyti, og ætti einnig að verða nægilegur umhugsunarfrestur fyrir menn sem hefðu áhuga á að fjármagna verðjöfnunina með einhverjum öðrum hætti. Það er ekki ólíklegt að útflutningsgjöldin verði endurskoðuð jafnvel miklu fyrr en þetta, í lok ársins 1981, þannig að þetta ákvæði ætti ekki að verða til neinna vandkvæða.

Herra forseti. Þessar eru brtt. n. við 68. mál um útflutningsgjald af sjávarafurðum. N. leggur sem sagt til að málið verði samþykkt með þessum breytingum.

Um 69. mál, sem ég vil leyfa mér að nefna hér einnig, eru gerðar sams konar breytingar, þannig að skipt er um orðið „aflajöfnunardeild“, og sömuleiðis eru í 7. gr. frv. sett sams konar tímamörk. Um þetta varð n. sammála og með þeim breytingum leggur n. til að málið verði samþykkt.