31.01.1980
Sameinað þing: 19. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í B-deild Alþingistíðinda. (713)

Umræður utan dagskrár

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans og alllanga og ítarlega ræðu, sem sannfærir mig um það eitt, að hæstv. ráðh. hefur ekki í öllu góða samvisku í þessu efni. Rök þau, sem hann flutti áðan, sannfæra mig heldur í engu, vegna þess að ég tel að áfengislögin séu ótvíræð í þessu efni og það séu þau heildarlög varðandi meðferð og sölu áfengra drykkja sem við eigum fyrst og fremst að fara eftir, þau aðallög sem eftir beri að fara, og það hef ég margítrekað á Alþ. Ég hef ekki verið einn af þeim mönnum sem hafa lokað augunum fyrir því ófremdarástandi sem hér ríkir varðandi smygl og annað því um líkt. Ég hef þvert á móti bent á það ærið oft. Ég hef t.d. bent sérstaklega á hvað hér væri allt of vægt á tekið. Ég benti einnig fyrstur manna á þá hættu sem augljóslega stafaði af því, þegar mönnum var leyft að fara að græða á því hér að flytja inn ölgerðarefni og ölgerðartæki, til hvers það mundi leiða og það mundi síðar verða notað sem ein allsherjarafsökun fyrir því, að af því að ástandið væri nú orðið svona slæmt til viðbótar við smyglið væri ekki eftir nema stíga þetta eina nauðsynlega skref til að heimila sölu og bruggun áfengs bjórs hér á landi.

Hæstv. ráðh. kom einmitt inn á eina röksemdina enn. Hann talaði fagurlega um að eitt skyldi yfir alla ganga. Mismunurinn er nefnilega áfram, nú aðeins milli þeirra sem ferðast eða ekki ferðast, og þar af leiðandi hlýtur næsta röksemd hæstv. ráðh. og fleiri slíkra, sem þannig tala, að vera sú, að nú verði allir að sitja við sama borð og nú hljóti allir að verða að njóta þess sama og þeir sem ferðast til útlanda. Þannig er verið að reyna með öllum mögulegum hætti að renna stoðum undir það, að sú alda skapist nægilega sterk að áfengur bjór verði hér seldur og bjórauðvaldið nái tökum á okkur Íslendingum eins og öðrum.

Ég hef allan skilning og samúð með kjörum farmanna svo og annarra atvinnustétta af því tagi. Ég vil þeim sem best, ekki síður en hæstv. ráðh. En það hlýtur að vera hægt að tryggja kjör þeirra með öðrum og geðfelldari hætti en með því að auðvelda þeim að eitra fyrir sjálfa sig og aðra. Lífskjör þeirra hlýtur að vera hægt að tryggja öðruvísi og betur.

Ég skal lofa því að hefja ekki almennar umr. um þetta mál utan dagskrár, því að það hefur um of viðgengist að menn spretti úr spori í þeim efnum og tali allt of lengi. En með leyfi forseta vil ég, einnig út af því sem kom fram í máli hæstv. ráðh., taka fram eftirfarandi varðandi afstöðu áfengisvarnaráðs. Það er ósköp auðskilið að hvorki hæstv. fjmrh. né aðrir fjmrh. fari í smiðju til þess ráðs og brjóti þannig það samráð, sem þeir eiga að hafa, þegar þeir eru að fara að með þeim hætti sem hann var að lýsa áðan, þegar hann taldi að hann væri svo sem ekki verri en aðrir hvað það snerti. En með leyfi forseta segir áfengisvarnaráð svo:

„Áfengisvarnaráð hefur jafnan litið svo á, að allur innflutningur áfengs öls væri ólöglegur svo og tollfrjáls innflutningur annars áfengis.

Í raun snýst málið um það, hvort áfengislög eða einhver lög önnur eiga að segja fyrir um meðferð áfengis í landinu. Rýmkun reglugerðar, sem grundvallast á öðrum lögum en áfengislögum, um innflutning áfengs öls er í algeru ósamræmi við þá áfengismálastefnu sem nú er uppi með menningarþjóðum.

Heilbrigðistofnun Sameinuðu þjóðanna beindi þeim tilmælum til aðildarþjóða á s.l. ári að reyna að minnka áfengisneyslu með auknum hömlum. Sérstaklega er varað við 1) að bæta við nýjum áfengistegundum, 2) að fjölga áfengisdreifingarstöðum, 3) að selja áfengi vægu verði (tollfríðindi).

Ef menn eru þess sinnis að álíta það forréttindi og af hinu góða að fá að kaupa áfengt öl, þá er misrétti þegnanna enn aukið með þessari reglugerð. Þeir, sem fara landa á milli, fá nú bæði ódýrt vín, sterka drykki og öl. Hinir, sem heima sitja, kaupa á „réttu“ verði.

Fjmrh. hefur ekki haft samband við áfengisvarnaráð um þessi mál, enda ekki kleift að setja þessa reglugerð eftir áfengislögum. Ljóst virðist að þarna er gengið erinda þeirra afla sem vilja allt til vinna að koma áfengu öli inn í landið. Þau öfl standa annaðhvort að slíku fyrir vanvisku sakir eða vegna eigin hagsmuna og áfengisauðvaldsins í heiminum. Nú er reynt að læðast bakdyramegin á vafasömum lagagrundvelli, svo að ekki sé meira sagt.“

Ég læt þetta nægja frá þessum aðila, sem ég veit að fylgist gleggst og best með þessu í landinu.