11.02.1980
Sameinað þing: 23. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í B-deild Alþingistíðinda. (790)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Hæstv. forsrh. hefur gert hér ítarlega grein fyrir málefnasamningi hinnar nýju ríkisstj. og mun ég ekki koma nema óbeint inn á hann. Ég ætla hins vegar að fjalla nokkuð um það sem komið hefur fram síðan hjá hv. stjórnarandstæðingum.

Hv. þm. Geir Hallgrímsson lýsti andstöðu þeirra sjálfstæðismanna við núv. ríkisstj. og fór allmörgum orðum um málefnasamninginn. Ég verð að segja eftir þann lestur, að sú spurning vaknar í huga mér hvort sú harða andstaða, sem þegar kemur fram hjá hv. þm., ráðist meira af málefnasamningnum en innri ágreiningi í Sjálfstfl. Ég ætla að gera stuttlega samanburð á nokkrum atriðum þessa málefnasamnings og þeim tillögum sem hv, þm. lagði fram í þeim viðræðum sem hann stjórnaði um myndun ríkisstj., sem að vísu voru ekki við hann kenndar opinberlega, en ég vona að mér verði fyrirgefið þó ég kenni þær við hv. þm. Geir Hallgrímsson.

Hv. þm. segir að í þessum málefnasamningi sé ekkert aðhald, ekkert gert í ríkisfjármálum sem koma eigi í veg fyrir að rekstur ríkissjóðs fari úr böndum.

Í málefnasamningnum er skýrt tekið fram, að stórlega skuli auka aðhald í ríkisfjármálum. Það er einnig greinilega tekið fram, að ríkissjóð skuli reka með greiðsluafgangi, og skýrt tekið fram, að greiða skuli þá skuld sem ríkissjóður stofnaði til við Seðlabanka Íslands á síðasta ári.

Í tillögum hv. þm. Geirs Hallgrímssonar er ekkert orð, ekki eitt einasta orð um aðhald í ríkisfjármálum eða yfirleitt nokkur takmörk sett á umsvif ríkissjóðs. Þvert á móti er gert ráð fyrir því í þeim tillögum, eins og þar er áætlað, að aukin útgjöld ríkissjóðs vegna þeirra ráðstafana, sem grípa á til, nemi 25–30 milljörðum kr. Hins vegar hygg ég að enginn hafi þó getað fengið þá tölu svo litla þegar skoðaðar eru þær aðgerðir, sem þar er lagt til að beita, og vanti þar reyndar á æðistóra upphæð. Í þeim tillögum er ekki heldur á nokkurn markvissan eða trúverðugan hátt lagt til hvernig eigi að brúa þetta bil, enda var niðurstaða Þjóðhagsstofnunar sú, að langt væri frá því að það væri brúað. Þarna er því um að ræða rekstur ríkissjóðs sem ég hygg að enginn hér inni geti tekið undir að eðlilegur sé í því ástandi efnahagsmála sem ríkir í þessu þjóðfélagi.

Í peningamálum segir í málefnasamningi núv. ríkisstj., að vextir hækki ekki 1. mars. Í tillögum hv. þm. Geirs Hallgrímssonar segir: „Vextir hækki ekki í febr.“ Þarna er því ekki mikill munur á.

j tillögum hæstv. ríkisstj., sem nú er tekin við, segir að vextir fari lækkandi með verðbólgu. Í tillögum Geirs Hallgrímssonár segir, að þessir hlutir skuli mætast síðar.

Í málefnasamningnum er tekið fram, að leggja skuli áherslu á sölu skuldabréfa ríkissjóðs í innlánsstofnunum til að brúa þær árstíðabundnu sveiflur sem eru í rekstri ríkissjóðs. Svipað er sagt í þeim tillögum sem Geir Hallgrímsson lagði fram. Þar er talað um að fjármagna skuli slíkar sveiflur utan Seðlabankans. Þar er því nokkuð líkt á komið með þessum tillögum og málefnasamningnum.

Í málefnasamningnum eru sett ákveðin mörk í fjárfestingarmálum. Þar segir, að fjárfesting fari eigi fram úr 1/4 af þjóðartekjum. Í tillögum hv. þm. Geirs Hallgrímssonar er ekkert sagt um þetta, aðeins lauslega sagt að erlendar lántökur skuli vera í hófi. Í málefnasamningnum segir hins vegar, að erlendar lántökur skuli takmarkaðar þannig að greiðslubyrðin af erlendum skuldum fari ekki fram úr u.þ.b. 15% af tekjum af útflutningi.

Í þessum málefnasamningi er ítarlegur kafli um verðlagsmál. Þar er gert ráð fyrir að setja ströng mörk á verðhækkanir, en þó þannig að þeir aðilar, sem þar eiga sérstakra hagsmuna að gæta, viti að hverju þeir ganga. En þar eru einnig ítarleg ákvæði um ný vinnubrögð í verðlagsmálum, m.a. framkvæmd þeirrar verðlagslöggjafar sem hv. þm. stóð að þegar hann var forsrh. Þar er bryddað á ýmsum nýmælum sem ég hygg að muni e.t.v. reynast einna athyglisverðust í framkvæmd þessa málefnasamnings. Í tillögum hv. þm. er ekki eitt einasta orð um verðlagsmál. Jú, að vísu segir, að leiðrétta skuli það sem leiðrétta þurfi eða m.ö.o. leyfa þær hækkanir sem leitað er eftir, að því er mér skilst.

Í málefnasamningi ríkisstj. er ítarlegur kafli um kjaramál. Í honum er skýrt tekið fram í fyrsta lagi, að kjaramál eru vissulega mikilvægur þáttur í baráttunni gegn verðbólgu og í efnahagsmálum almennt. Þar er hins vegar lögð á það sú sjálfsagða áhersla, að að kjaramálum beri að vinna í samvinnu og í samráði við samtök launafólks. Það er alveg ljóst að aldrei vinnst neitt í kjaramálum nema slík samstaða sé tryggð. Hins vegar er tekið fram, að ríkisstj. muni beita sér í slíkri samvinnu fyrir því, að ákveðin verði sú launamálastefna sem samræmist baráttu ríkisstj. gegn verðbólgunni, og þar er tekið fram, að ríkisstj. sé reiðubúin til að leggja verulegt fjármagn í félagslegar aðgerðir til að draga úr peningalaunahækkunum. Í þeim tillögum, sem hv. 1. þm. Reykv. lagði fram, er hins vegar gert ráð fyrir tveimur leiðum í kjaramálum: annars vegar að taka vísitöluna úr sambandi í hálft ár og hins vegar að taka 15 vísitölustig ofan af og greiða að hluta með félagslegum umbótum. Þar kemur ekki fram sú samvinna og það samráð við aðila vinnumarkaðarins, sérstaklega launþega, sem ríkisstj. leggur ríka áherslu á. Þarna er töluverður munur á þessum tveimur tillögum.

Ég vil segja almennt um samþykktir þær, sem koma fram í málefnasamningnum, að þar er tekið á öllum þeim þáttum sem eru viðurkenndir mikilvægir og samtengdir í aðgerðum sérhverrar ríkisstj. í efnahags- og verðbólgumálum. Skýrt er tekið fram og í þeim öllum er leiðarvísir að því, hvernig vinna á. Að þessu leyti er málefnasamningurinn stórum markvissari en nokkur sá málefnasamningur annar sem ég hef séð. Svo má lengi ræða hvort þar eigi að ganga skrefinu lengra, t.d. ákveðna hundraðshluta í einstökum liðum, eins og þeir hv. Alþfl.-menn hafa lagt áherslu á. Ég held að af reynslu þeirri, sem við höfum fengið af slíkum ákvörðunum, hafi mjög greinilega komið fram að slíkar tölur halda sjaldan og mikilvægast sé að vera á verði og gera þær ráðstafanir sem duga á einstökum sviðum ef úrskeiðis ætlar að fara.

Við framsóknarmenn erum ánægðir með þennan málefnasamning og ekki síst efnahagskaflann, þótt ég undirstriki að í atvinnu og samráði við launþega sé æskilegt að marka ákveðnar ýmsa hluti en gert er. En það verður að gerast í samvinnu, annars mun aldrei nást sá árangur sem til er ætlast.

Í atvinnumálum er í þessum málefnasamningi lögð höfuðáhersla á framleiðni og framleiðsluaukningu. Við framsóknarmenn — og ríkisstj. í heild — erum þeirrar skoðunar, að á þessu sviði sé fyrst og fremst að finna þann grundvöll sem geti komið íslensku efnahagslífi í heilbrigt horf til framtíðar. Við verðum að ná verðbólgunni niður sem fyrsta áfanga, fyrsta skrefi, en vinna jafnframt að því að undirbúa og ná árangri á hinum mikilvægu sviðum atvinnumála. Það undrar mig, ef í atvinnumálakafla þessa málefnasamnings er nokkuð sem þm, geta ekki í raun og veru verið sammála um að vinna að.

Stjórnarandstæðingar fullyrða að fyrst og fremst sé um gífurlega aukin útgjöld ríkissjóðs að ræða. Mönnum verður öllum að vera ljóst að þau útgjöld hljóta að verða að rúmast innan þess ramma sem málefnasamningurinn setur ríkisfjármálum, erlendum lántökum og peningamálum. Þessi ríkisstj. ætlar ekki að vinna skipulagslaust að eflingu atvinnuveganna, heldur verður það gert með því að líta fram í tímann, með áætlunum í samvinnu við atvinnuvegina sem verða að rúmast innan þess ramma sem ég hef nú nefnt og er lýst í kaflanum um efnahagsmál. Ég trúi ekki öðru en við getum sameinast um mikilvægar aðgerðir á öllum sviðum og sameinast um að halda þeim innan slíkra marka, og þar á ég ekki aðeins við þá sem styðja þessa ríkisstj., heldur þm. alla.

Sama er raunar að segja um önnur mál. Þar er drepið á mörg mikilvæg mál sem fyrst og fremst gefa til kynna þann forgang sem ríkisstj. setur þeim í þeim verkum sem hún hyggst vinna. Um þann forgang má að vísu ætíð deila og þar kunna að vera mismunandi sjónarmið, sitt sýnist hverjum, en ég hygg að þar sé einnig í öllum tilfellum drepið á mál sem allir þm. hafa einhverju sinni hvatt til að framkvæmd yrðu.

Ég vildi segja almennt um samninginn, að við framsóknarmenn erum ánægðir með hann. Við leggjum áherslu á nokkur meginatriði. Við leggjum áherslu á þau meginatriði sem við ætlum að geti orðið til að ná verðbólgunni niður. Þær leiðir eru þarna raktar. Þær eru leiðarvísir sem felst í samningnum í þessu skyni. Þetta er meginatriði samningsins og svo, eins og ég sagði, í beinu framhaldi að skapa hér traustara efnahagslíf þannig að lífskjör geti batnað eins og gerst hefur víða annars staðar, en ekki eins hér og menn hafa viljað því of mikið hefur tapast í verðbólgubálinu. Þetta tvennt verður að haldast í hendur og eru megineinkenni málefnasamningsins.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það sem kom fram í ræðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar. Hann lýsti reyndar því, að hv. Alþfl.-menn mundu dæma þessa ríkisstj. af verkum sínum. Því kann ég betur en þeirri andstöðu sem kom fram hjá hv. þm. Geir Hallgrímssyni. Við skulum öll gera það. Það hygg ég að sé hið rétta. Og vitanlega verður ríkisstj. að standa sig þannig að hún geti svarað slíku mati og slíkum dómi.

Í ræðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar kom fram, eins og hann orðaði það, að góður vilji gerði enga stoð. Ég er þessu ósammála. Ég held að það sé öfugmæli. Ég held satt að segja að við munum læra það af fyrri ríkisstj., að það er einmitt góður vilji sem gerir mikla og sterka stoð. Staðreyndin er vitanlega sú, að það verður aldrei sett á blað svo nákvæmlega hvað ber að gera í hverju einstöku tilviki, síst af öllu í 50% verðbólgu þar sem margt óvænt mun gerast. Þannig er það fyrst og fremst góður vilji sem gerir góða stoð, að mínu mati. Og ég vil segja í þessu sambandi, að ég harma að þeir hv. Alþfl.-menn hafa í þeim umr., sem fram hafa farið, verið að því er mér virðist meira uppteknir að sanna, að þeir hafi slitið stjórnarsamstarfinu í okt. á einhverjum ágreiningi, heldur en þeir hafi gengið til þeirra viðræðna af góðum vilja að leysa efnahagsmálin, enda hefur það komið fram hvað eftir annað í málflutningi þeirra að þeir hafa sagt: Sjáið þið hvað ágreiningurinn var mikill! Það vinnst ekkert með því að reyna í upphafi að draga fram ágreininginn, heldur að draga fram meginmarkmiðin og undirstrika viljann, ganga til starfsins af fullum vilja.

Ég er sannfærður um að þeir sem nú sitja í ríkisstj., ganga til samstarfsins af slíkum vilja til að vinna þessari þjóð það besta sem við megum, ná verðbólgunni niður og efla atvinnulíf okkar.

Við framsóknarmenn munum starfa í ríkisstj. af fullum heilindum. Við munum taka afstöðu til mála, bæði innan ríkisstj. og utan, á málefnalegum grundvelli, en ekki eftir því, hvort vinsælt kann að vera hverju sinni. Við munum taka afstöðu með tilliti til þess, hvort þeim meginmarkmiðum verði náð sem málefnasamningurinn

greinir frá. Ég er sannfærður um að aðrir í ríkisstj. starfa einnig svo. Því er ég bjartsýnn um góðan árangur af samstarfinu.