11.02.1980
Sameinað þing: 23. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (793)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í ræðu hv. 1. þm. Reykv. minntist hann á að ekki væri í stjórnarsáttmálanum minnst á Atlantshafsbandalagið. Ég hef áður skýrt í fjölmiðlum hvernig því máli er varið. Það er yfirlýst stefna sjálfstæðismanna og yfirlýst stefna framsóknarmanna að Ísland verði í NATO. Það er yfirlýst stefna Alþb. að Ístandi eigi að fara úr NATO. Þetta liggur svo ljóst fyrir að ekki var ástæða til að taka fram í stjórnarsáttmála um þessa afstöðu. Auk þess er eðli stjórnarsáttmálans að taka það upp í hann sem aðilar eru sammála um að vinna að. Þegar við þetta bætist, að það er yfirlýst stefna Alþfl. að Ísland sé í Norður-Atlantshafsbandalaginu, er svo ljóst sem frekast getur verið að Ísland verður áfram í NATO. Það er ástæðulaust að draga það í efa eða gera það tortryggilegt.

Í öðru lagi minntist hv. 1. þm. Reykv. á að stjórnarsáttmálinn fæli í sér mjög aukin ríkisútgjöld, svo tugum milljarða næmi, og nefndi síðar í máli sínu 25 milljarða á þessu ári og 35 milljarða á næsta ári. Hv. þm. hefur áður sett fram þessar fullyrðingar um hin stórauknu útgjöld samkv. stjórnarsáttmálanum. Ég hef óskað eftir að þær yrðu rökstuddar og útgjöldin sundurliðuð, en engin svör og engan rökstuðning fengið, og slíkt var ekki heldur að finna í máli hv. þm. nú. Ég tel ekki ástæðu til að fara út í þetta frekar fyrr en einhver rök eru færð fyrir þessari fullyrðingu sem ég tel að fái ekki staðist. Þvert á móti er ákveðið í stjórnarsáttmálanum, lögð á það áhersla, enda að áliti okkar grundvallaratriði, að ríkissjóður verði rekinn með greiðsluafgangi, og þá vil ég undirstrika að ekki er átt við það eingöngu að fjárlög verði afgreidd hallalaus, heldur að ríkissjóður verði í reynd hallalaus og með greiðsluafgangi.

Í þriðja lagi minntist hv. þm. á, að víða í stjórnarsáttmálanum væri rætt um áætlanir og áætlanagerð, og taldi það löst á stjórnarsáttmálanum. Ég er á gagnstæðri skoðun. Ég tel að það sé nauðsynlegt að gera sér grein fyrir hvert menn stefna og hvernig þeir vilja koma málum í framkvæmd. Ég tel að það sé nauðsynlegt að gera sér grein fyrir hvert menn stefna og hvernig þeir vilja koma málum í framkvæmd. Ég held að nauðsyn þess að gera áætlanir eigi við bæði um fyrirtæki í einstaklingsrekstri, félagsrekstri og hjá hinu opinbera, það sé ekki aðeins æskilegt, heldur nauðsynlegt. Ég ætla einnig að þær ríkisstjórnir, sem setið hafa á undan þessari hina síðustu áratugi, hafi allar gert sér þetta nokkuð ljóst og þess vegna hver og ein, m.a. sú ríkisstj. sem hv. þm. veitti forstöðu, látið gera margvíslegar áætlanir um ríkisbúskapinn og framkvæmdir á ýmsum sviðum.

Í fjórða lagi taldi hv. þm., að engar vísbendingar væru um það í stjórnarsáttmálanum hvernig ætti að ráðast gegn verðbólgunni. Ég tel þetta misskilning. Getur hver maður séð við lestur stjórnarsáttmálans að allítarlega er þar á það bent, hvernig gegn verðbólgunni skuli unnið. Hitt er svo öllum ljóst, að varðandi það vandasama og flókna mál verður ekki talið upp í öllum einstökum atriðum hvernig að skuli staðið, stefnan hins vegar mótuð í meginatriðum. Í baráttunni gegn verðbólgunni veltur mest á framkvæmdinni, og í sambandi við framkvæmdina veltur á því, hvort sá vilji er fyrir hendi og það hugarfar sem nauðsynlegt er. Ég tel, að hvort tveggja sé fyrir hendi hjá þeim sem standa að þessari ríkisstj., og vænti því fastlega að árangur geti náðst af starfi hennar.