12.02.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í B-deild Alþingistíðinda. (801)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég hygg að þessari fsp. sé best svarað með því að rekja nokkuð aðdraganda þeirrar ákvörðunar, sem nú hefur verið tekin og ég lít reyndar svo á að hafi verið tekin þegar í síðustu viku.

Ég vek í fyrsta lagi athygli á því, að eftir sameiginlegan leiðangur og rannsóknir norskra og íslenskra fiskifræðinga í nóv. í fyrra mæltu þeir sameiginlega með því, að óhætt væri að taka 600 þús. tonn af loðnu á vetrarvertíðinni 1979–80. Þetta var síðan aukið í 650 þús tonn og þá var jafnframt ákveðið að geyma 280 þús. þar til eftir áramótin. Ég hygg að það hafi verið í lok jan. að þessi ákvörðun er mörkuð þannig, að rætt er um að taka 180 þús. lestir í bræðslu og 100 þús. lestir í hrognatöku og frystingu. Í síðustu viku er svo jafnframt ákveðið að auka það, sem í bræðslu fari, í 250 þús. lestir, en geyma 50 þús. lestir til frystingar og hrognatöku. Ég vil þó lesa bréf sem Hafrannsóknastofnun hefur borist og dagsett er 1. febr., með leyfi forseta:

„Á fundi norskra og íslenskra fiskifræðinga, sem haldinn var í Reykjavík dagana 29–30. okt. 1979, voru gerðar tillögur um að leyfilegur hámarksafli úr íslenska loðnustofninum yrði 650 þús. tonn á tímabilinu 1. júlí 1979 til loka vetrarvertíðar 1980. Þessar tillögur voru byggðar á niðurstöðum stofnstærðarmælingar sem norskir og íslenskir fiskifræðingar höfðu gert um mánaðamótin sept.– okt. 1979. Eins og rn. er kunnugt, fengust hins vegar hærri gildi í leiðangri sem farinn var skömmu seinna á Bjarna Sæmundssyni, dagana 14.–24. okt. 1979. Hafrannsóknastofnunin taldi þó ekki rétt að gera nýjar tillögur um hámarksafla fyrr en stofnstærðarmælingar hefðu verið endurteknar í ársbyrjun 1980. Þessum mælingum er nú lokið og ber niðurstöðum í öllum aðalatriðum saman við þau gildi sem fengust í leiðangri Bjarna Sæmundssonar í okt. s.l. Samkvæmt niðurstöðum bergmálsmælinga var núverandi hrygningarstofn um mánaðamótin jan.–febr. um 6/10 þess sem hann mældist á sama tíma í fyrra. Sé tekið tillit til þeirra veiða og náttúrlegs dauða, sem átti sér stað eftir að mæling fór fram, kemur í ljós að rúm 600 þús. tonn af loðnu hrygndu vorið 1979. Það ár benda rannsóknir á fjölda og útbreiðslu loðnuseiða til að klak hafi tekist vel. Aðaltilgangurinn með stjórnun veiðanna er að tryggja nægilega stóran hrygningarstofn. Þetta tókst árið 1979. Enda þótt nauðsynleg lágmarksstærð hrygningarstofns íslensku loðnunnar sé ekki þekkt með vissu er ljóst, að viðkoman hefur stundum verið skert, t.d. vorið 1978. Ef miðað er við að hrygningarstofninn 1980 verði a.m.k. 2/3 þess sem hrygndi 1979 má leyfilegur afli mestur verða 300 þús. tonn á tímabilinu 1. jan. til vertíðarloka. Frekari skerðingu hrygningarstofnsins verður að telja utan skynsamlegra marka.“

Undir þetta rita Hjálmar Vilhjálmsson og Jón Jónsson.

Þannig stóðu þessi mál þegar ég tók við embætti sjútvrh. Aflamagnið var um 250 þús. lestir í gær. Því er náð sem fyrrv. sjútvrh. hafði talið eðlilegt magn til bræðslu. Jafnframt hefur bátaflotanum verið lofað, að ákvörðun um stöðvun veiða yrði tekin þannig, að flotinn hefði a.m.k. tvo sólarhringa til stefnu. Því var raunar ekki um annað að ræða en taka þessa ákvörðun þá þegar, ef ætlunin var að standa við þá ákvörðun sem áður hafði verið tekin um heildarmagn. Ég sá mér ekki fært að breyta út af þeirri ákvörðun, enda tel ég satt að segja ákaflega vafasamt að vera með slíkar breytingar á síðustu stundu. Þessi ákvörðun fyrrv. sjútvrh. hefur legið fyrir lengi, og er öllum vel kunnugt hvernig afli hefur þróast og hver hann er orðinn, og hafa menn því sannarlega mátt vita að það hlaut að koma að svona ákvörðun, ef menn vilja á annað borð marka fiskveiðistefnu og standa við hana. Ég segi því, að þessi ákvörðun var raunar tekin og ég sá mér ekki fært annað en að framfylgja henni. Að öllum líkindum verður aflamagnið, þegar veiði hættir, orðið mjög nálægt 300 þús. lestum. Ég sagði áðan að afli væri þegar orðinn um 250 þús. lestir. Gera má ráð fyrir að á þessum sólarhring geti hann vel nálgast 260–265 þús. lestir jafnvel, og með þeirri ákvörðun, sem ég hef tekið, að leyfa flotanaum að fylla skipin í einni ferð eftir hádegi á morgun má gera ráð fyrir að um 35 þús. lestir bætist við og er þá náð u.þ.b. 300 þús. lestum.

Þessa ákvörðun, að leyfa flotanum að fylla skip sín, tók ég með tilliti til þess, að þá má gera ráð fyrir að nokkurt loðnumagn berist á heimastöðvar skipanna. Þar er ég m.a. með í huga þá staði sem hafa verið nefndir í þessu sambandi og hafa átt við erfiðleika að stríða.

Ég ætla síðan að ræða örfá grundvallaratriði sem mér sýnist að þurfi að athuga. Það er í fyrsta lagi að sjálfsögðu stærð fiskstofna. Ég efast ekki um hyggjuvit margra, m.a. 1. þm. Vestf., í þessu sambandi. En ég vil segja það alveg eins og er, að ég treysti mér ekki til að hafa það að leiðarljósi. Ég vil alls ekki segja að fiskifræðingar eigi að ráða því, hve mikið er veitt. Vitanlega ekki. Þeir eru ráðgjafar í þessu sambandi og á þá ber að hlusta og taka síðan tillit til annarra aðstæðna, eins og t.d. áhrifa á atvinnu í hinum ýmsu byggðarlögum og sannarlega til þess sem reyndir sjómenn telja vera rétt í slíku sambandi. Þetta þarf allt að meta. Þetta þarf fyrst og fremst að meta þegar mörkuð er í upphafi sú stefna sem ráða á í veiðum á ákveðnum stofni á árinu. Ég vona og hygg að það hafi verið gert.

Um stærð loðnustofnsins get ég engu bætt við það sem hér hefur verið sagt og það sem ég hef lesið eftir fiskifræðingum. Ég vil þó upplýsa það, að ég ræddi við Jakob Jakobsson og Jón Jónsson í morgun um þessi mál, og staðfestu þeir að engin breyting væri á þeirri niðurstöðu sem lýst var í því bréfi frá Hafrannsóknastofnun sem ég las upp áðan. Ég innti þá jafnframt eftir því, hverju sætti það sem maður heyrir frá reyndum sjómönnum að meira magn sé af loðnu í sjónum en oftast fyrr, eins og sumir hafa látið orð um falla. Skoðun þeirra er að þetta sé misskilningur, og til þess bendi m.a. sú staðreynd, að loðnan er nú samanþjappaðri á minna svæði en oft áður, hefur ekki dreift sér svo langt austur og vestur sem iðulega hefur verið. Telja þeir það sönnun á þeirri niðurstöðu, að loðnustofninn sé ekki eins stór og hann hefur stundum verið. En um þetta má vitanlega endalaust deila. Og ég vil gjarnan spyrja hv. 1. þm. Vestf.: Hve mikið vill hann láta veiða? Hvað er óhætt að veiða? Ég vildi gjarnan heyra þá tölu.

Ég lýsti því áðan, að sú ákvörðun hefði verið tekin að geyma nokkurt magn af loðnu til frystingar og hrognatöku. Hrogn er að sjálfsögðu ekki unnt að taka fyrr en um það bil eftir mánuð. En í þessu hvoru tveggja, í frystingu og hrognatöku, eru vissulega nokkur hættumerki. Verð á hrognum hefur fallið mjög á Japansmarkaði, var í fyrra, hygg ég, 2400 dollarar tonnið, en nú bjóða þeir 800 dollara fyrir tonnið, þannig að þar er vá fyrir dyrum, getum við sagt. Hins vegar fara nú fram viðræður við Norðmenn um verðlagningu á hrognum. Í raun og veru má svipað segja um frysta loðnu, þótt sannarlega sé markaðurinn þar góður. En því miður fullnægir sú loðna, sem nú hefur veiðst, ekki nema að mjög litlu leyti þeim kröfum sem eru gerðar um stærð. Kröfur eru gerðar um það, að 55 stykki séu í kg, en mælingar hafa almennt sýnt að um 70 eru í hverju kg þannig að það kann að þurfa að veiða töluvert magn til að ná því sem æskilegt er. Hygg ég að þetta hafi ráðið töluverðu um þá ákvörðun fyrrv. sjútvrh. að auka það magn, sem færi til bræðslu, en draga úr hinu, sem geymt yrði til frystingar og hrognatöku. Ég vil þó ekki gefa upp alla von um að nokkur loðna verði tekin til frystingar og hrognatöku. Þess vegna er það von mín, að eitthvað verði þarna upp á að hlaupa og veiðar geti hafist að nýju þegar rétt er að taka loðnu til hrognatöku. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því, að þá muni — ef talið verður yfirleitt fært að veiða loðnu í þessu skyni — verða farið nokkuð yfir það mark sem fiskifræðingar hafa lagt til.

Mér er hins vegar ljóst að mælingar sem þessar eru háðar mjög miklum skekkjum og aldrei hægt að taka þær bókstaflega, og ég tel enga hættu í því fólgna, þótt heildarmagn loðnunnar fari eitthvað yfir 300 þús., í 330 þús. lestir, svo að ég nefni einhverja tölu. Hins vegar ef veiðum hefði verið haldið áfram núna — m.a. farið að ræða þetta í þingflokkum og víðar — þá er alveg ljóst að við hefðum óðum nálgast það magn sem ekki leyfði neinar frekari loðnuveiðar til frystingar og hrognatöku. Þennan mikla flota tekur ekki nema örfáa daga að veiða 100 þús. tonn.

Menn hafa rætt hér mikið um erfiðleika byggðarlaga suðaustanlands og sunnanlands, í Vestmannaeyjum, og ég tek undir það. Það eru mjög alvarlegir erfiðleikar þar á ferðinni. T.d. voru í Vestmannaeyjum í fyrra framleiddar loðnuafurðir fyrir um 4 milljarða og á verðlagi nú í jan. hefðu vinnulaun numið um 900 millj. kr. Þetta er því gífurlegt áfall fyrir slíkt byggðarlag og einnig fyrir Höfn í Hornafirði og marga aðra staði sem ég þarf ekki að telja hér upp. En spurningin er: Hefðu vandamál þessara staða verið leyst með fullri ferð á loðnuveiðinni áfram í nokkra daga? Halda menn að loðna hefði þá borist að ráði til Vestmannaeyja? Ég held ekki, ekki á meðan loðnan er aðallega veidd við Grímsey og þar austur af. Ég hygg því að fyrir t.d. Vestmannaeyjar séu þó meiri líkindi til þess að nokkur atvinna fáist við vinnslu á loðnu með því að geyma eitthvað til frystingar og hrognatöku í marsmánuði, þegar ætla má að loðnan verði komin nær þeim stað. Það er því einnig með þarfir slíkra byggðarlaga í huga að ég tók þá ákvörðun að stöðva veiðarnar nú og freista þess að nokkurt magn gæti orðið til veiða í marsmánuði.

Ég ætla ekki að fjalla hér um það atriði sem um var spurt í síðustu viku og fyrrv. sjútvrh. mun hafa svarað. Ég hef rætt þetta við starfsmenn sjútvrn. og fengið þar ítrekað, að þeir telja ekki vera heimild til þess að beina flotanum á fjarlæga staði þegar rými er í höfnum sem nær liggja. Þetta er hins vegar atriði, viðurkenni ég, sem þarf að athuga betur og hefði vitanlega, ef menn vildu fara þá leið, þurft að kanna langtum fyrr á þessari loðnuvertíð.

Mér er einnig fyllilega ljóst, að þessi stöðvun er mikið áfall fyrir loðnuflotann, og vitanlega hefði verið bót fyrir flotann að geta haldið áfram þótt ekki væri nema 3–4–5 daga eða kannske viku. Hins vegar hygg ég að mönnum hefði samt þótt of skammt gengið. Ég hygg að það sé venjan.

Áðan var spurt hvort samningar við Norðmenn hafi haft áhrif á þessa ákvörðun mína. Ég get svarað því neitandi. Við eigum vitanlega að ákveða sjálfir, eftir því sem við best þekkjum, hvaða magn af hvaða fiskstofni sem er rétt er að veiða. Ég tek undir það: það á að vera okkar ákvörðun. Og sú ákvörðun á að byggjast á tillögum fiskifræðinga og mati þeirra sem gerst þekkja. Hitt er svo annað mál, að það bætir vitanlega ekki okkar samningsaðstöðu að stofna til kapphlaups um loðnuveiðar við Norðmenn. Við gagnrýndum Norðmenn töluvert fyrir að fara fram úr því magni sem talið var eðlilegt við Jan Mayen á sínum tíma, og ég held að menn verði að gera sér grein fyrir því, að það er engin bót að ganga til viðræðna á næstu dögum með slíkt kapphlaup í uppsiglingu. Þó að þeir samningar hafi ekki haft áhrif á þessa ákvörðun, þá hygg ég þó að menn megi ekki algerlega loka augunum fyrir þeirri staðreynd.

Við höfum fyrr séð okkur hag í því að nota rök fiskifræðinga. Ég hygg að hv. 1. þm. Vestf. hafi gert það töluvert. T.d. meðan á viðræðum við Breta stóð töldum við mikinn feng í því að hafa rök þeirra fyrir því, hvað mætti veiða, og við höfum sagt Norðmönnum að okkur sé nauðsynlegt að hafa vald á þessum loðnustofni. Hann er íslenskur stofn og við segjum að við verðum að hafa vald til þess að geta takmarkað veiðarnar þannig að viðgangur stofnsins sé tryggður. En við getum varla talað eitt í austur og annað í vestur, ef ég má orða það svo. Við verðum að vera sjálfum okkur samkvæmir þegar við göngum til slíkra viðræðna.

Ég vil taka undir það sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, að samráð þarf að hafa við þingflokka og t.d. formenn sjútvn. Það er sjálfsagt og nauðsynlegt, og ég mun leggja ríka áherslu á það. Hitt er svo annað mál, að ég tel höfuðatriði að hafa slíkt samráð og samband þegar ákvörðun um fiskveiðistefnuna er tekin. Þá á að hafa slíkt samband og slíka fundi. En menn verða síðan að treysta framkvæmdavaldinu til þess að standa við þá ákvörðun sem þá er tekin. Eða eigum við að leggja fyrir slíka fundi ákvörðun um rækjuveiði í Axarfirði, hvenær eigi að stöðva hana, eða í Húnaflóa, svo að ég nefni frægt dæmi frá fyrri árum? Það er nauðsynlegt að marka fiskveiðistefnu til langs tíma og í fullu samráði bæði við hagsmunaaðila og stjórnmálaflokka, marka hana þannig að menn viti að hverju þeir ganga og enginn hringlandaháttur sé í því. Þá þarf að hafa slíkt samráð fyrst og fremst, og ég mun gæta þess vandlega að svo verði.

Hv. fyrirspyrjandi spurði um framleiðni og hvort það væri framleiðniaukning að stöðva veiðarnar nú. Framleiðni er ekki eins árs málefni. Framleiðni er að sjálfsögðu málefni margra ára. Við erum að tala um það að byggja íslenskan þjóðarbúskap á traustum grundvelli og þar þarf að líta til langs tíma.

Ég veit að þessi ákvörðun er erfið og hún var mér ekki létt. Mér var hins vegar ljóst, að annaðhvort varð ég að taka hana strax, ef standa átti við þá ákvörðun um heildarmagn sem áður hafði verið tekin, eða veiðarnar hlytu að fara mjög mikið fram úr því marki, jafnvel upp í 400 þús. tonn, áður en stöðvað yrði. Mér var jafnframt ljóst, að ef ég tæki hana ekki strax yrði ekki unnt að leyfa veiðar til hrognatöku og frystingar síðar. Ég ákvað því að gera slíkt án tafar. Þetta ber nokkuð óvænt að að þessu leyti, og ég vona að svo þurfi ekki að verða í framtíðinni. En þetta eru meginástæðurnar fyrir því, að ég tók þá ákvörðun sem ég hef nú lýst.