13.02.1980
Efri deild: 35. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í B-deild Alþingistíðinda. (830)

3. mál, lántaka vegna framkvæmda á sviði orkumála

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið skrifaði ég undir nál. með fyrirvara, en í mínum huga náði fyrirvari minn nokkru lengra en kom fram í máli hv. 3. þm. Norðurl. e. Það er varðandi fyrstu fjórar greinar frv., sem fjalla um fjármögnun til orkumála. Ég er ekki að hafa á móti því sem frv. þetta gerir ráð fyrir, að aflað sé þess fjár til orkumála sem þar er greint, heldur vildi ég vekja athygli á því, hversu allt of skammt er gengið í þeim efnum í þessu frv. Það er vegna þess að sú ríkisstj., sem sat að völdum s.l. sumar, gekk allt of skammt, að mínu viti, í aðgerðum sínum til þess að hraða nauðsynlegum verkefnum í orkumálunum.

Ég vil aðeins minna á í þessu sambandi, að í mars s.l. lagði ég ásamt fleiri þm. Sjálfstfl. fram á Alþ. þáltill. um auknar framkvæmdir í orkumálum á árinu 1979. Hæstv. iðnrh., sem nú er og var þá, tók mjög undir þau sjónarmið sem fram komu í framsöguræðu minni fyrir þessari till., og engin andstaða kom fram við þessa till., þó hún raunar fengi ekki afgreiðslu. Samkv. þessari till. var gert ráð fyrir að fjármagn til tiltekinna framkvæmda í orkumálum yrði aukið um tæpa 3 milljarða kr. Þessar framkvæmdir voru styrking dreifikerfis í sveitum, hitaveitur og fjarvarmaveitur, jarðhitaleit og sveitarafvæðing. Ástæðan fyrir þessari till. var sú, að hin mikla olíuverðshækkun, sem skall yfir um áramótin 1978–79, gerði knýjandi nauðsyn að gera stórt átak í þessum efnum og á þann veg að auka fjármagn það sem búið var að ákveða til þessara framkvæmda í fjárlögum og lánsfjáráætlun fyrir árið 1979.

Það frv., sem hér liggur frammi, er til staðfestingar á brbl. frá 16. okt. Samkvæmt upplýsingum, sem við fengum í fjh.- og viðskn., fjallaði ríkisstj. ekki um þessi mál fyrr en í júní- eða júlímánuði og sá ekki ástæðu til þess að ganga lengra í þessu efni en frv. ber með sér. Og samkv. þeim upplýsingum, sem við nm. fengum þá, var gert ráð fyrir að fjármagn til styrkingar dreifikerfis í sveitum yrði aukið um 295 millj. kr., til hitaveitna og fjarvarmaveitna um 705 millj. kr. og til jarðhitaleitar um 250 millj. kr. Þetta fjármagn hefur verið afgreitt og komið að notum, nema 250 millj., sem gert var ráð fyrir til að auka fjármagn til jarðhitaleitar, hafa enn þá ekki verið afgreiddar, með þeim afleiðingum, að hvergi nærri hefur verið hægt að fullnægja óskum sem borist hafa Orkuráði um lán til jarðhitaleitar með borunum. Þó er það viðurkennt og augljóst, að ekkert er þýðingarmeira en einmitt að láta ekki standa á rannsóknum og jarðhitaleit.

Ég vildi lýsa yfir miklum vonbrigðum með þetta og láta það koma fram hér við umræðu þessa máls, að fyrirvari minn var síður en svo að telja eftir það sem gert hefur verið í þessu efni. Hann var fyrst og fremst um að leggja áherslu á að það hefði verið allt of lítið og allt of seint að gert.