20.02.1980
Neðri deild: 39. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 870 í B-deild Alþingistíðinda. (971)

109. mál, tollskrá

Flm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég þakka þær undirtektir sem málið hefur fengið, sem raunar undirstrika það sem við vissum, að hv. alþm. hafa mikinn áhuga á þessum málum, enda væri annað óeðlilegt þegar lítið er til þess sem á undan er gengið í sambandi við þessi mál. Allir stjórnmálaflokkar hér á landi hafa gefið skýr og ákveðin svör um áhuga sinn á því að sinna málefnum fatlaðra og annarra aðila í þjóðfélagi okkar sem minna mega sín og full þörf er á að leiða til betri meðferðar en hefur verið til þessa.

Ég minni á það hér, að í upphafi þessa þings flutti ég þáltill. í sambandi við málefni hreyfihamlaðra, sem er mjög mikilvægt mál, þar sem um er að ræða að opinberir aðilar taki höndum saman til að leysa það sem margoft hefur verið yfirlýst að væri skylt að gera og raunar komið í byggingarlöggjöf, að gera átak í því að auðvelda hreyfihömluðu fólki að komast leiðar sinnar bæði til að geta sinnt ýmsum störfum í þjóðfélaginu og notið þeirra venjulegu mannréttinda sem öllum finnst eðlilegt að fólk hafi. Þetta mál er því miður búið að vera nokkuð lengi í meðförum þingsins. Ég reiknaði satt að segja með að hv. alþm. mundu greiða götu þess þanrúg að málið væri þegar komið til meðferðar hjá stjórnvöldum. Ég vona að ekki verði löng bið á því.

Hér hefur komið fram ýmislegt um brtt. þá sem hv. 10. landsk. þm. hefur lagt fram. Ég vil upplýsa að ég er fyllilega sammála um að þess fyrirkomulags sé þörf, enda greindi ég frá því áðan og ræði í grg. með frv. um slíkt ákvæði. Þegar við flm. vorum að undirbúa þetta frv. skoðuðum við einmitt nokkuð það atriði með tilliti til þess sem kom fram á 100. löggjafarþingi þegar slík breyting var gerð síðast á tollskránni. Þá mætti þetta atriði mótspyrnu í þn. á hv. Alþ. og einnig hjá embættismannakerfinu, sérstaklega í fjmrn. Var talið að það væri varhugavert og þyrfti að skoða nánar, og í meðferð Alþingis á 100. löggjafarþinginu þótti ekki ástæða til að tefja framgang málsins með því að eyða miklum tíma í þetta atriði. Ef hægt er frá lagalegu sjónarmiði, þá finnst mér þessi meðferð í sambandi við þetta mál mjög eðlileg og fylgi henni. En slíkt þarf auðvitað að athuga vel. Ég vænti þess, að hv. þn., sem fær málið til meðferðar, athugi það mjög gaumgæfilega, eins og ég raunar lagði til í framsöguræðu fyrr.

Ég get líka tekið undir að það þarf að athuga úthlutunarreglurnar. Þeim var breytt með síðustu breytingu á lögunum og úthlutunarnefndin er öðruvísi samsett nú. En að sjálfsögðu þarf að athuga það mál. Umsóknafjöldi, sem fram kemur í sambandi við þessa eftirgjöf, er mjög mikill. Á síðasta ári, 1979, sóttu raunar enn þá fleiri um niðurfellingu gjalda en þegar hefur komið fram. En eins og ég sagði áðan, þegar umsóknartíminn var liðinn í byrjun þessa mánaðar voru komnar um 790 fullgildar umsóknir.

Það, sem kom fram hjá hv. 6. þm. Norðurl. e., er alveg rétt, að mörgum fleiri hjálpartæk um fyrir fatlað fólk þarf að koma undir sömu aðstöðu. Í frv., sem samþ. var á 100. löggjafarþinginu, var einmitt gerð sú breyting, að önnur hjálpartæki, sem fatlað fólk þarf á að halda, njóti sömu réttinda. Það eitt hefur komið fram, sem fulltrúar í fjmrn. segja að sé erfitt ákvæði í lögunum og ég vil taka fram hér að væri e.t.v. ástæða fyrir þd. að skoða í samráði við fulltrúa frá tolladeild fjmrn., að sett var inn ákvæði um að það þyrfti læknisvottorð í sambandi við niðurfellingu tolla af öðrum hjálpartækjum fyrir fatlað fólk. Fulltrúar í fjmrn. segja mér að þetta valdi erfiðleikum og sé eiginlega óþarft ákvæði í lögum, það sé ástæðulaust að fatlað fólk og ekki síst mikið fatlað fólk, sem getur vart komist leiðar sinnar, þurfi endilega að vera að sækja til lækna til að fá vottorð sem það þarf að greiða fyrir kannske frá 2–5 þús. kr., fyrir utan allan aukakostnað við að fá það vottorð, það raunverulega tefji fyrir framkvæmd laganna. Þetta er atriði sem ég vildi nefna hér að væri rétt að kæmi til skoðunar í hv. þn. sem fær málið til afgreiðstu. En það var gert ráð fyrir því í síðustu breytingu laganna, að fatlað fólk fengi tollaeftirgjöf á öllum hjálpartækjum, sem það þarf á að halda, en bætt við að það skyldi vera „samkv. læknisvottorði“. Það kemur því til skoðunar að fella það ákvæði niður í samráði við fulltrúa ráðuneytisins.

Ég vil svo að lokum endurtaka þakkir fyrir þann áhuga, sem hér kemur fram, og taka undir það með hæstv. félmrh., að hér er um mál að ræða sem Alþ. þarf að taka til heildarskoðunar. Er slíkt raunar í samræmi við þá yfirlýsingu sem allir stjórnmálaflokkar, sem fulltrúa eiga á hv. Alþ., hafa fyrir fram gefið yfirlýsingu um. Og það er vel í samræmi við ár fatlaðra 1981 að hv. alþm. og stjórnvöld taki höndum saman um að gera stórt átak, ekki aðeins í að samræma löggjöf fyrir fatlað fólk, heldur einnig að koma til framkvæmda ýmsum velferðarmálum fyrir fatlaða.