03.12.1980
Efri deild: 19. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1082 í B-deild Alþingistíðinda. (1007)

119. mál, Lífeyrissjóður bænda

Frsm. (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Fjh.og viðskn. Ed. hefur einnig tekið þetta frv. til l. um breyt. á lögum nr. 101 28. des. 1970, um Lífeyrissjóð bænda, sbr. lög nr. 35/1972, lög nr. 67/1974, lög nr. 3/1977, lög nr. 64/1977 og lög nr. 25/1980 um breyt. á þeim lögum, til skoðunar.

Hér er um að ræða samræmingu á lífeyrisréttindum bænda og er frv. flutt samkv. tillögu stjórnar lífeyrissjóðsins. Eins og fram kemur í athugasemdum við frv. er ætlunin að „með breytingu þessari yrði dregið úr misræmi er orðið getur milli lífeyrisréttinda manna, sem fæddir eru árið 1914 eða fyrr og öðlast rétt samkv. II. kafla laganna, og réttinda manna sem fæddir eru árið 1915 eða síðar og ávinna sér rétt einvörðungu í samræmi við iðgjaldagreiðslur samkv. I. kafla laganna.“

Nefndin varð sammála um að mæla með að þetta frv. verði samþykkt. Það er svo með þetta eins og hin tvö fyrri málin sem við höfum fjallað hér um og fjh.- og viðskn. tók fyrir á þessum fundi, að fjarverandi við afgreiðsluna voru hæstv. forsrh. Gunnar Thoroddsen og hv. þm. Kjartan Jóhannsson og þeir hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson og Lárus Jónsson undirrituðu með fyrirvara.