08.12.1980
Efri deild: 21. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1179 í B-deild Alþingistíðinda. (1088)

150. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum nr. 83/1974, um verðjöfnunargjald af raforku, sbr. lög nr. 99/1979, um breytingu á þeim. Í gildandi lögum um verðjöfnunargjald af raforku er ákveðið að lögin gildi til ársloka 1980. Með frv. þessu er lagt til að lögin verði framlengd um eitt ár og gildi til ársloka 1981. Þá verði tekin upp heimild til að lækka gjaldið um mitt ár 1981 í allt að 16%.

Verðjöfnunargjald af raforku er innheimt af allri raforkusölu í smásölu annarri en til húshitunar og nemur gjaldið 19 prósentustigum sem lögð eru á sama stofn og söluskattur er lagður á. Gjaldinu er varið til að styrkja fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins til verðjöfnunar, en Rafmagnsveiturnar fá 80% og Orkubú Vestfjarða 20%. Með hliðsjón af að álagning gjaldsins hefur verið til nokkurrar endurskoðunar þykir rétt að rifja upp nokkur atriði varðandi verðjöfnunargjaldið.

Frá 1970 til 1974 voru í gildi lög nr. 17/1970 um ráðstafanir til að bæta fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins.

Samkv. ákvæðum þeirra laga var kveðið á um að þeir „aðilar, sem selja raforku í heildsölu til dreifiveitu eða beint til notenda frá aðalorkuveitu, skulu greiða í Orkusjóð verðjöfnunargjald sem verja skal til ráðstafana til bóta á fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins samkv. nánari ákvörðun stjórnar sjóðsins,“ eins og sagði í þeim lögum. Verðjöfnunargjaldið miðaðist við það magn afls og orku, sem hlutaðeigandi aðili hafði til sölumeðferðar, og við afl og orku mælda hjá kaupanda. Gjaldið var ákveðið sem visst aflgjald fyrir hvert kw. og síðan orkugjald miðað við kwst. Fyrirkomulag þetta var mjög flókið og þótti þungt í vöfum.

Með lögum nr. 83/1974, um verðjöfnunargjald af raforku, var tekið upp núverandi fyrirkomulag á innheimtu verðjöfnunargjalds af raforku. Verðjöfnunargjaldið var hækkað verulega til að ráða bót á miklum fjárhagsvanda Rafmagnsveitna ríkisins. Ákveðið var að greiða skyldi 13% verðjöfnunargjald í Orkusjóð af seldri raforku á síðasta stigi viðskipta, þ.e. lagt á sama stofn og söluskattur. Gjaldinu skyldi varið til að bæta fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins. Með stofnun Orkubús Vestfjarða var ákveðið að hluti gjaldsins skyldi renna til þess. Ákveðið var að gjaldið legðist á samhliða söluskatti og að raforkusala til hitunar skyldi undanþegin á sama hátt og hún er undanþegin söluskatti. Lög þessi voru sett til eins árs í senn, en hafa verið framlengd nánast óbreytt síðan að efni til.

Við framlengingu laganna fyrir árið 1979 var ákveðið að hækka gjaldið úr 13% í 19% og verja þeim viðbótartekjum, sem þannig fengjust, sérstaklega til að minnka þann mikla mun sem var á verði raforku hjá Rafmagnsveitum ríkisins og rafveitum sveitarfélaganna. Í aths. með frv. þessu er sýnt hvernig mismunur á verði raforku til heimilisnota milli Rafmagnsveitna ríkisins og Rafmagnsveitu Reykjavíkur hefur minnkað úr 82.2% niður í 27.8% frá ágúst 1978 til nóv. 1980, eins og fram kemur í töflu í lok fylgiskjalsins. Er í þeim samanburði reiknað með að notendur Rafmagnsveitna ríkisins á heimilistaxta séu með 4500 kwst. notkun á ári og sex gjaldeiningar.

Það hefur oft verið gagnrýnt, að verðjöfnunargjald af raforku og söluskattur verki ekki verðjafnandi, þau leggist hlutfallslega ofan á grunnverð rafveitna og því hærra sem grunnverðið er því hærra sé gjaldið. Vegna þessa hefur verið í athugun hvort rétt sé að breyta verðjöfnunargjaldinu í fast gjald á orkueiningu. Í ljós hefur komið að verulegir erfiðleikar eru taldir á að leggja fast gjald á kwst., þar sem innbyrðis verðmismunur eftir notendum og nýtingartíma hjá hverri rafveitu sé jafnvel meiri en mismunur milli samsvarandi notkunar hjá mismunandi rafveitum. Fast gjald á kwst. mundi breyta þessu hlutföllum verulega og þyrfti að tengjast umfangsmikilli endurskoðun á gjaldskrám, sem raunar eru nýlega um garð gengin hjá Rafmagnsveitum ríkisins og Rafmagnsveitu Reykjavíkur.

Með minnkandi verðmun á sambærilegum töxtum er einnig síður ástæða til slíkrar breytingar. Í frv. þessu er því gert ráð fyrir óbreyttu fyrirkomulagi á verðjöfnunargjaldi, a.m.k. á næsta ári. Verðjöfnunargjald af raforku var á sínum tíma lagt á til að bregðast við verulegum fjárhagsvanda Rafmagnsveitna ríkisins, eins og ég gat um áðan. Oft hafa verið gerðar athuganir á ástæðum fyrir þeim vanda og hafa meginniðurstöður jafnan verið þær, að Rafmagnsveitunum væri ætlað að sinna félagslegum framkvæmdum og orkusölu á ýmsum stöðum þar sem markaður stendur engan veginn undir tilkostnaði. Enn fremur hafa lánskjör verið óhagstæð og fyrirtækinu var ekki séð fyrir neinu eiginfé um árabil. Orkuöflun Rafmagnsveitnanna var lengst af mjög kostnaðarsöm og þurfti víða um land að framleiða raforku með dísilvélum. Með hækkandi olíuverði keyrði um þverbak í þeim efnum. Þessar erfiðu aðstæður bitnuðu mjög á viðskiptavinum Rafmagnsveitnanna þannig að raforkuverð til þeirra var um skeið orðið næstum tvöfalt miðað við verð hjá rafveitum sveitarfélaga, og hið sama gilti um Orkubú Vestfjarða við stofnun þess.

Við vanda Rafmagnsveitnanna og Orkubús Vestfjarða hefur verið brugðist með markvissum aðgerðum. Í stjórnarsáttmála ríkisstj. er kveðið á um að unnið skuli að verðjöfnun á orku. M.a. beri ríkissjóður kostnað af félagslegum framkvæmdum Rafmagnsveitna ríkisins og framkvæmdum, sem þeim er falið að annast, og með hliðsjón af því verði einnig tekið tillit til stöðu Orkubús Vestfjarða. Með aðgerðum í raforkumálum hefur á undanförnum árum náðst verulegur árangur í að draga úr mismun á raforkukostnaði víðs vegar um landið og má í því sambandi minna á eftirtalið:

1. Tilkostnaður Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða við orkuöflun hefur lækkað verulega með lagningu orkuflutningslína og minnkandi raforkuframleiðslu með dísilvélum í kjölfarið.

2. Það sjónarmið hefur nú verið viðurkennt, að ríkissjóður leggi Rafmagnsveitum ríkisins til fé vegna framkvæmda sem nauðsynlegt reynist að ráðast í, en ekki eru fjárhagslega arðbærar frá sjónarmiði fyrirtækisins.

3. Gerð hefur verið leiðrétting á heildsölugjaldskrá Rafmagnsveitna ríkisins þannig að hún er nú í meira samræmi við kostnað við að spenna raforkuna niður fyrir rafveitur sveitarfélaga og kostnað vegna þess taps sem verður í dreifikerfinu.

Með ofangreindum aðgerðum og fyrir tilstyrk verðjöfnunargjaldsins hefur tekist að minnka verðmun á milli rafveitna sveitarfélaga og Rafmagnsveitna ríkisins svo að munur er nú um 25–30% á heimilistaxta Rafmagnsveitna ríkisins og Rafmagnsveitu Reykjavíkur og raunar minni munur ef litið er til gjaldskráa nokkurra annarra sveitarfélaga. Verðmunur til viðskiptamanna í atvinnurekstri hjá Rafmagnssveitum ríkisins og Rafmagnsveitu Reykjavíkur er mjög mismunandi eftir stærð notenda og nýtingartíma þess afls sem keypt er. Smáir og stórir notendur greiða tiltölulega hærra verð hjá Rafmagnsveitum ríkisins en hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur, en miðlungsstórir notendur með góðan nýtingartíma afls greiða tiltölulega hærra verð hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Marktaxti, sem notaður er í landbúnaði, er tiltölulega hagstæður notendum Rafmagnsveitna ríkisins, en þess má geta, að sá taxti var þó færður nokkuð til, þannig að eitthvað hækkaði hann við endurskoðun sem nýlega er um garð gengin á töxtum Rafmagnsveitnanna.

Af ofangreindu má sjá að mikið hefur áunnist við að ná fram jöfnuði í raforkuverði að undanförnu. Gjaldskrár ofangreindra fyrirtækja eru ekki eins uppbyggðar og verður því ávallt nokkur munur milli einstakra notendahópa. Á næstunni er stefnt að frekari aðgerðum til verðjöfnunar þannig að ekki síðar en á miðju ári 1981 verði verðmunur samkv. heimilistaxta hjá Rafmagnsveitum ríkisins og Rafmagnsveitu Reykjavíkur ekki yfir 20%. Við ákvarðanir þar að lútandi verður þó að sjálfsögðu að taka mið af rekstrarafkomu Rafmagnsveitnanna þegar kemur fram á næsta ár. Lagt er til að tekin verði upp heimild til að gjaldið verði lækkað úr 19% í 16% um mitt næsta ár. Til álita kemur að nota þá heimild ef fjárhagur Rafmagnsveitnanna batnar, svo sem vænst er, en það er m.a. mjög háð þróun verðlagningar á raforku og breytingu á gengi íslensku krónunnar, en mikill hluti lána Rafmagnsveitnanna er í erlendum gjaldeyri.

Ég hef túlkað það viðhorf áður hér á hv. Alþingi, að eðlilegt væri að reyna að lækka þetta gjald þegar búið væri að rétta af stöðu Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða þannig að viðunandi geti talist hvað snertir verðlagningu á orku með hliðsjón af verðlagningu á raforku hjá öðrum rafveitum sveitarfélaga. Enn sem komið er er ekki náð því marki sem viðunandi geti talist, en hugsanlegt er að á komandi ári verði efni til þess að lækka verðjöfnunargjaldið lítillega eða um 3%. Tekin verður afstaða til þess, hvort sú heimild verður notuð, þegar þar að kemur, en heimildin er vísbending af hálfu flytjenda þessa frv. um það, að til þess sé hugsað að lækka gjaldið strax og fært þykir. Ástæðurnar fyrir því, að staðan er slík, eru nokkuð margþættar og koma fram í því, sem ég hef hér greint frá, og þá ekki síst þeirri stefnu, að ríkið sem eigandi Rafmagnsveitnanna hefur lagt þeim til eigið fjármagn nú að undanförnu og svo er ætlunin að verði samkv. fjárlagafrv. sem liggur fyrir þinginu.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. hér í hv. þingdeild og til hv. iðnn.