08.12.1980
Neðri deild: 25. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1200 í B-deild Alþingistíðinda. (1106)

95. mál, sparisjóðir

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég tel það frv., sem hér er flutt, allrar athygli vert. Ég vildi bara láta það koma fram hér, að að undanförnu hefur Húsnæðisstofnun ríkisins staðið í viðræðum við lánastofnanir um þessi mál sem leiðir af samþykkt hinna nýju laga, þar sem gert er ráð fyrir að fleiri en ein stofnun geti haft með þessa þjónustu að gera. Áður var það, eins og menn vita, veðdeild Landsbankans ein, en nú er gert ráð fyrir að það geti verið fleiri stofnanir, enda takist um það samningar. Ég kem hér með því sjónarmiði mínu á framfæri, að það sé nauðsynlegt að hv. n., sem um málið fjallar, kynni sér hið gersta á hvaða stigi þessi mál eru hjá Húsnæðisstofnuninni um leið og málið verður afgreitt í nefnd.