09.12.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1220 í B-deild Alþingistíðinda. (1133)

356. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Egill Jónsson:

Herra forseti. Ég vil ekki alveg sleppa hæstv. viðskrh. út um bakdyrnar í þessu máli þó hann kunni kannske að óska þess. Ég ítreka fsp. mína, sem ég bar fram áðan, um það, hvernig fjárreiðum þessara mála er háttað. Það hefur grundvallarþýðingu í þessum efnum hvaða fjármagn á að kalla inn til þessa, reyndar liggur það nú fyrir, en hvort því verði dreift áfram til þessara verkefna eða einhverra annarra. Og mér er alls ekki ljós þörf á endurskoðun á löggjöfinni nema það sé tryggt að fyrir hendi sé fjármagn til þessara verkefna, en það verður að ákvarðast þessa dagana, einmitt núna þegar fjárlög eru afgreidd.

Ég vil svo að endingu benda á að það er nokkuð annar tónn í hæstv. viðskrh. núna, og reyndar hefur það komið fram hjá fleiri hæstv. ráðh., í sambandi við húshitunarkostnað og þá erfiðleika, sem fólk hefur orðið að taka á sig vegna slíks kostnaðar, en var á s.l. ári. Þá voru menn gjarnan að bera saman mismuninn á milli fólksins í þessu landi, — mismuninn á því, hvað það væri miklu kostnaðarsamara að búa við þennan orkugjafa til upphitunar en ýmsan annan — og þá var m.a. verið að segja frá því, hvaða áhrif þetta gæti haft á byggðina í landinu. Nú virðist svo, eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðh. áðan og hefur komið fram í umr. hér fyrr á Alþingi, að menn hafi mestar áhyggjur af samkeppninni við rafmagnið, sem er mörgum sinnum kostnaðarsamara en hitaveiturnar. Það er sem sagt komin upp ný staða og helst verður maður að álykta að það sé komin upp ný stefna í þessum málum hjá hæstv. ríkisstj.