09.12.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1230 í B-deild Alþingistíðinda. (1148)

367. mál, Vestfjarðalæknishérað

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Með lögum nr. 56/1973 var sett á stofn Vestfjarðahérað, eins og hv. þm. er kunnugt, sem tók yfir svæðið frá Kollafirði að Geirólfsnúpi á Ströndum, og átti aðsetur héraðslæknis að vera á Ísafirði. Í ákvæðum til bráðabirgða í lögunum frá 1973 var hins vegar gert ráð fyrir að sá kafli laganna sem fjallaði um læknishéruð, tæki ekki gildi fyrr en Alþingi tæki um það sérstaka ákvörðun. Tók sá kafli laganna aldrei gildi og voru héraðslæknar aldrei skipaðir í héruð samkvæmt lögunum frá 1973.

Með nýjum lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 57 frá 1978, var gert ráð fyrir breyttu fyrirkomulagi í þeim kafla laganna sem fjallaði um læknishéruð og heilbrigðismálaráð, og var þá einnig gert ráð fyrir að stofnað yrði Vestfjarðalæknishérað sem tæki yfir Austur- og Vestur-Barðastrandarsýslur, Vestur-Ísafjarðarsýslu, Ísafjarðarkaupstað, Bolungarvíkurkaupstað, Norður-Ísafjarðarsýslu og Strandasýslu. Fljótlega eftir að lögin tóku gildi vorið 1978 var sett reglugerð um starfshætti heilbrigðismálaráða svo og erindisbréf fyrir héraðslækna, svo sem 7. og 8. gr. laganna gera ráð fyrir. Héraðslæknar voru skipaðir í öll héruð nema Vestfjarðahérað. Ástæða þess, að ekki var skipaður sérstakur læknir í Vestfjarðahérað, var sú, að enginn heilsugæslulæknir var þá skipaður í það hérað. Allir starfandi læknar voru þar settir læknar og ekki þótti tiltækilegt að skipa sem héraðslækni mann sem ekki yrði í héraðinu til frambúðar, þar sem verkefni heilbrigðismálaráða eru þess eðlis, að nauðsynlegt er að um nokkuð samfellt starf þess manns, sem tekur að sér forstöðu ráðsins, sé að ræða.

Það var enn þannig í ársbyrjun 1980, að enginn læknir var skipaður heilsugæslulæknir í Vestfjarðaumdæmi, og svo er enn. Mér er ljóst að það getur haft og hefur sjálfsagt haft neikvæð áhrif á þróun heilbrigðismála í Vestfjarðahéraði að þar skuli ekki hafa verið heilbrigðismálaráð og héraðslæknir. En rn. væntir þess, að sú breyting verði að læknaskipti verði ekki svo ör á þessu svæði sem verið hefur þannig að unnt reynist að skipa einn af heilsugæslulæknum héraðslækni á þessu landssvæði eins og á öðrum stöðum í landinu.

Ég vænti þess, að í svari mínu hafi komið fram skýringar á því, hvernig á því stendur að ekki hefur verið skipaður héraðslæknir í Vestfjarðaumdæmi samkv. lögunum frá 1978. Það er einfaldlega vegna þess að það hefur ekki verið skipaður heilsugæslulæknir neins staðar í umdæminu. Það hafa aðeins verið settir læknar til skemmri tíma við heilsugæslustörf.

Ég held að það sé nokkur misskilningur, sem fram kom í inngangsorðum hv. þm., að heilbrigðismálaráðum sé fyrst og fremst ætlað að hafa aðhald að stjórnvöldum. Ég held að tilgangurinn með heilbrigðisráðunum sé fyrst og fremst að skipuleggja og gera tillögur um skipulagningu heilbrigðisþjónustu og sjúkrahúsamála í hverju héraði fyrir sig.

Það kann vel að vera að skortur á skipun héraðslæknis í Vestfjarðaumdæmi hafi háð að nokkru þróun mála þar undanfarin ár. Þó minni ég á það í þessu sambandi, að við höfum búið á undanförnum misserum við býsna sérkennilegar pólitískar kringumstæður. Vorið 1978 voru lögin um heilbrigðisþjónustu sett. Haustið 1978 tekur til starfa í landinu ný ríkisstjórn og setur sín fyrstu fjárlög haustið 1978. Árið 1979 er stjórnarfar hér í landinu allt með losaralegum brag, án þess að ég fari ítarlega út í af hverju það stafaði, og þess vegna m.a. verður ekki tekið á þessum málum eins heildstætt og vera ætti í fjárlögum ársins 1980. í frv. til fjárlaga fyrir árið 1980, sem lagt var fram í febrúar það ár af hæstv. fyrrv. fjmrh. Sighvati Björgvinssyni, var gert ráð fyrir 2000 millj. kr. til sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva í landinu öllu. Í meðferð Alþingis var þessi upphæð hækkuð í liðlega 3000 millj. kr. Í fjárlagafrv. þessa árs er gert ráð fyrir 4300 millj. kr. til sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva. Það er ljóst að sú upphæð dugir ekki. Fjvn. mun nú á næstunni gera grein fyrir sínum niðurstöðum í. þessum efnum og vil ég ekki fara nánar út í þá sálma hér.

En ég held að þrátt fyrir það, sem hér hefur komið fram varðandi skipan héraðslæknis á Vestfjörðum, sé meginvandinn í heilbrigðismálum Vestfjarðahéraðs ekki sá skipulagsvandi sem hér er ræddur. Ég held að meginvandinn sé af öðrum toga, m.a. hafi ekki verið til nægir fjármunir til skiptanna til að verja í þær framkvæmdir sem unnið er að í héraðinu.