10.12.1980
Efri deild: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1270 í B-deild Alþingistíðinda. (1221)

171. mál, jöfnunargjald

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Tvö gjöld hafa verið lögð á innfluttar iðnaðarvörur á undanförnum árum. Bæði þessi gjöld hafa að hluta til runnið til stuðnings innlendum iðnaði. Hér er annars vegar um að ræða jöfnunargjald, sem numið hefur 3 prósentustigum á ýmsa flokka innlends innflutnings, og í öðru lagi aðlögunargjald, sem hefur verið lagt á sömu vöruflokka, einnig 3%. Bæði þessi gjöld hafa verið tímabundin og háð framlengingin frá ári til árs. Þau falla því bæði úr gildi um n.k. áramót að öllu óbreyttu.

Það er af aðlögunargjaldinu að frétta, að ljóst virðist að það verður ekki framlengt nú um áramótin, enda hefði þá þurft að liggja fyrir nú þegar samningur eða samkomulag við EFTA um það mál, en sá samningur liggur ekki fyrir. Eins og kunnugt er hafa verið skiptar skoðanir um hvort eðlilegt væri að leita eftir framlengingu þessa gjalds. Við höfum margir0 verið þeirrar skoðunar, að rétt væri að leita eftir því. Þannig hefur iðnrh. gert um það tillögu að svo verði gert, og nokkrar áþreifingar munu nú hafa farið fram. En niðurstaðan er sú, að aðlögunargjaldið verður ekki framlengt, a.m.k. ekki að sinni, og fellur því niður. Aftur á móti eru full rök fyrir því og ekkert haft við það að athuga, að hitt gjaldið, jöfnunargjaldið, verði framlengt.

Jöfnunargjaldið er rökstutt með því, að söluskattur leggist á ýmis aðföng innlends iðnaðar. Þegar jöfnunargjaldið var fyrst ákveðið var reiknað með því, að um yrði að ræða tímabundna ráðstöfun og gjaldið félli niður jafnhliða því sem virðisaukaskattur yrði tekinn upp í staðinn fyrir söluskatt, en með upptöku virðisaukaskatts yrði eytt þeim svokölluðu uppsöfnunaráhrifum sem talin eru fólgin í núgildandi söluskattskerfi.

Hins vegar er ljóst, að enn verður einhver dráttur á því, að upp verði tekinn virðisaukaskattur hér á landi í stað núgildandi söluskattskerfis. Ýmsar ástæður eru þess valdandi, að ekki verður um sinn af upptöku virðisaukaskatts. Ljóst er að sá skattur hefur í för með sér verulega skriffinnsku umfram það sem er um álagningu söluskatts. Einnig yrði að fækka þeim mörgu undantekningum sem gilda nú um álagningu söluskatts. Hann legðist þá af fullum þunga á landbúnaðarvörur og hefði í för með sér verulegan kostnaðarauka fyrir heimilin í landinu og þar með verulega hækkun á verðbótavísitölu með þeim afleiðingum fyrir verðþróunina í landinu sem það hlyti að hafa. Auk þess er rétt að minna á að um fangsmiklar breytingar hafa verið gerðar á innheimtu tekju- og eignarskatts á þessu ári, sem óhjákvæmilega hafa lagt þungar byrðar á starfslið skattkerfisins.

Gert er ráð fyrir að staðgreiðslukerfi skatta verði tekið upp innan tíðar. Væntanlega verður lagt fram frv. um það mál síðar í vetur og er þar gert ráð fyrir að staðgreiðslukerfi skatta gæti komið til framkvæmda tveimur árum eftir að Alþ. hefur samþ. ákvörðun þess efnis. Talið er heldur óráðlegt að ráðast í umfangsmiklar breytingar á söluskattskerfi á sama tíma og verið er að vinna að þessu gífurlega mikla verkefni sem staðgreiðslukerfið og upptaka þess er, og einnig er ljóst að undirbúningur undir setningu laga um virðisaukaskatt og framkvæmd hans krefst nánari athugunar. Með hliðsjón af þeirri óvissu, sem er um það, hvenær upptaka virðisaukaskatts gæti komið til framkvæmda, er lagt til með þessu frv. að gildistími innheimtu jöfnunargjalds verði framlengdur ótímabundið.

Ég sé ekki ástæðu til að gera frekari grein fyrir þessu gjaldi vegna þess að það er eins í öllum aðalatriðum og verið hefur og leggst á sömu skattstofna eða sömu innfluttu vörurnar. Hins vegar eru nokkrar breytingar gerðar á núgildandi lögum, sem fyrst og fremst eru ýmiss konar formbreytingar til hægðarauka og til skýringar, og er gerð grein fyrir þeim í aths. við einstakar greinar frv.

Í þessu sambandi, þegar rætt hefur verið um jöfnunargjald og aðlögunargjald, hafa menn spurt að því, hvort tekjuhlið fjárlaga væri ekki ofáætluð, þar sem þar væri gert ráð fyrir innheimtu aðlögunargjalds upp á 2.8 milljarða og nú væri ljóst að sá gjaldstofn félli niður. Ég vil upplýsa í því sambandi að væntanlega verður lagt fram í dag eða á morgun frv. hér í þinginu um hækkun á svonefndu tollvörugjaldi, sem er gjald sem lagt hefur verið á sælgæti og gosdrykki og gilt hefur um mjög langt skeið. Þetta gjald er orðið um það bil 10 ára gamalt og það hefur staðið kyrrt, það hefur verið eins að krónutölu til um mjög langt skeið, þannig að það hefur farið rýrnandi með hverju árinu sem liðið hefur. Sérstaklega hefur það rýrnað mjög verulega á seinustu árum þegar hinn mikla verðbólga hefur geisað sem allir hv. alþm. þekkja. Hér er því fyrst og fremst um það að ræða að verið er að samræma gjaldið þeirri verðþróun sem átt hefur sér stað á nokkrum undanförnum árum. Álagning þessa gjalds kemur ekki aðlögunargjaldinu við á einn eða neinn hátt í raun og veru. Það er aðeins þáttur í tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs.

Hins vegar hlýtur það að koma til álita, hvað verði sérstaklega gert fyrir iðnaðinn. Það er mál sem ekki er með öllu útkljáð því að ljóst er að áframhaldandi álagning jöfnunargjalds er ein sér ekki nægileg stuðningsaðgerð í þágu iðnaðar. Hlýtur því að koma til greina að eitthvert gjald sé sérstaklega lagt á til þess bæði að veita iðnaðinum aukinn aðlögunarfrest að tollalækkunum, sem átt hafa sér stað á undanförnum árum, og aukinn aðlögunarfrest til samkeppni við innfluttar iðnaðarvörur. Eins er hitt, að iðnaðurinn þarf á auknum stuðningi að halda með beinum framlögum, eins og átt hefur sér stað í kjölfar álagningar aðlögunargjalds. Því gjaldi hefur verið varið til að styrkja nýjar iðngreinar, m.a. er ráðgert að á næsta ári, þegar lokauppgjör innheimts aðlögunargjalds frá árinu 1980 fer fram, verði því fjármagni að verulegum hluta varið til Iðnrekstrarsjóðs. Það er enginn vafi á að við þurfum á töluvert miklu fjármagni að halda til að tryggja eflingu iðnaðar í landinu í takt við fólksfjölgun og til að tryggja aukið framleiðsluverðmæti þjóðarbúskaparins. Í þessu sambandi gæti komið til álita að hækka jöfnunargjaldið úr 3% í t.d. 3.5% eða 4% eða jafnvel 5%.

Það mál hefur verið til umræðu í ríkisstj. Það hefur komið til álita að hækka jöfnunargjaldið eitthvað á sama tíma og aðlögunargjaldið er fellt niður, til að ganga til móts við óskir iðnaðarins í þessum efnum. Um það hafa engar ákvarðanir verið teknar og þess vegna er þetta frv. flutt með óbreyttri skattprósentu frá því sem áður var. En það má segja að full rök séu fyrir því, að þetta gjald gæti verið heldur hærra en það er nú vegna þess að það er miðað við uppsöfnunaráhrif söluskatts og söluskattur var allmiklu lægri, þegar þetta gjald var fyrst ákveðið, en hann er nú. Það gætu því verið full rök fyrir því að hækka þetta gjald, t.d. úr 3 í 4%. Þetta mun vafalaust koma til athugunar í fjh.- og viðskn., þegar hún fær málið til meðferðar, og verður þá tækifæri til að gera þessa breytingu á frv., ef mönnum þykir sérstök ástæða til. Því viðbótarfjármagni, sem með því fengist, yrði þá varið í þágu iðnaðarins. En þar sem málið þarf einnig nánari skoðunar við hjá Fríverslunarbandalaginu og í viðskrn. voru ekki efni til þess að ríkisstj. tæki neinar ákvarðanir um þetta áður en frv. væri lagt fram. Er því gert ráð fyrir því, eins og ég sagði áðan, að málið verði tekið til nánari athugunar í fjh.- og viðskn. deildarinnar.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál, en legg til að málinu verði að lokinni umr. vísað til hv. fjh.- og viðskn.