12.12.1980
Sameinað þing: 33. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1389 í B-deild Alþingistíðinda. (1363)

1. mál, fjárlög 1981

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það er alveg rétt, sem síðasti ræðumaður sagði, hv. 3. þm. Norðurl. e., að skattlagning hjá ríkisstj. hefði tekist býsna vel. Sérstaklega gildir það um einstaklinga og einstæða foreldra. Það hefur áður komið fram í umr. um skattamál að sú skattlagning hefur ríkisstjórninni tekist alveg einstaklega vel.

Hins vegar virðist svo sem skattlagning á fyrirtæki hafi ekki tekist að sama skapi, og mega menn þá vera minnugir þess, að núv. hæstv. fjmrh. hefur talað um það mörg orð úr þessum ræðustól þvílík hneisa, reginskömm og svívirðing það væri að fyrirtæki hér á landi væru skattlaus. Einhverra hluta vegna er það svo í frv. hæstv. fjmrh. að tekjuskattur á félög hækkar aðeins um 2.5%, úr 10 milljörðum í fyrra í 10 milljarða 250 þús. nú. Tekjuskattur á einstaklinga hækkar hins vegar ríflega 50%, ef ég man rétt. Nú væri fróðlegt að fá skýringar hæstv. fjmrh. á þessu, sem alla tíð þangað til hann settist í ráðherrastól hefur verið sérstakur áhugamaður um að fyrirtækin í þessu landi bæru sinn hluta af byrðinni. Og því spyr ég: Hvers vegna er svo misskipt nú? Væri fróðlegt að fá svör við því.

Hins vegar er víst til næsta lítils að spyrja hæstv. ráðh. hæstv. ríkisstj. um eitt eða neitt vegna þess að frá þeim fást engin svör. Á það hefur rækilega reynt hér dag eftir dag og viku eftir viku. Forsrh. hefur verið inntur eftir því margsinnis hverjar ráðstafanir ríkisstj. hefði í hyggju í efnahagsmálum. Frá honum hafa borist svör sem hafa engin svör verið. Mér er það að vísu engin nýlunda að hæstv. forsrh. svari ekki þegar spurður er. Ég hafði það starf í allmörg ár að spyrja spurninga sem fréttamaður og mér er ákaflega minnisstætt hversu einstaklega háll og sleipur hæstv. forsrh. var í þeim efnum að komast undan og koma sér hjá því að segja nokkurn skapaðan hlut þegar hann var spurður. Heldur hefur honum farið fram í þeirri list, ef eitthvað er, nú síðustu misserin.

Það væri e.t.v. freistandi að fara fáeinum almennum orðum um fjárlagafrv, sem hér er til umr. En það er nú orðið býsna áliðið kvölds og e.t.v. ekki ástæða til að halda mjög langa tölu um þetta dæmalausa frv. þar sem miðað er við að verðlag milli ára hækki hér um 42% þegar sýnt er, að hækkunin er nú þegar í kringum 70%, og það eina, sem ríkisstj. gerir, er að gefa út fréttatilkynningar um að verðbólga fari minnkandi. Það er víst gott svo langt sem það nær.

En í þessu frv. eru líka ákvæði um að 12 milljörðum skuli varið til sérstakra efnahagsaðgerða. Hér hefur dag eftir dag og viku eftir viku verið spurt um hverjar þessar aðgerðir séu. Við því fást engin svör vegna þess að um það hefur engin ákvörðun verið tekin og vegna þess að um það er engin samstaða í ríkisstj. Þegar þm. spyrja fá þeir svör sem eru engin svör og útúrsnúninga eina. Það er eiginlega dæmalaust hvað þingheimur, hvað stjórnarandstaðan hefur haft mikið langlundargeð að láta sér líka svona framkomu, og enn dæmalausara er að hæstv. forsrh. skuli leyfa sér þá framkomu sem hann hefur leyft sér í þessu máli.

En erindi mitt í ræðustól að þessu sinni var að mæla fyrir brtt. við fjárlög sem ég hef leyft mér að flytja ásamt hv. 3. þm. Reykv., Albert Guðmundssyni. Sú till. gerir ráð fyrir að við bætist nýr liður í 4. gr. fjárlaga, að Hjartavernd, sú stofnun, fái 10 millj. kr. fjárveitingu til úrvinnslu og útgáfustarfsemi.

Nú er mér ljóst að fjvn. hefur í till. sínum gert tillögur um allnokkra hækkun á framlagi til rekstrar rannsóknastöðvar Hjartaverndar. Það ber síður en svo að vanmeta. Hins vegar er það ljóst, að sú starfsemi, sem þarna fer fram og hefur farið fram s.l. 12 ár, er mjög mikilvæg. Þarna hafa tugir þúsunda einstaklinga verið rannsakaðir og þarna liggja gífurlega viðamikil gögn sem ekki hefur unnist tími og ekki verið til fjármagn til að vinna úr svo sem skyldi. Þær tekjur, sem stöðin hefur, og það framlag, sem henni hefur verið veitt, nægir ekki til að standa undir þessari starfsemi. Þegar hafa verið gefnar út 12 vísindalegar skýrslur sem reistar eru á þeim plöggum sem þessar rannsóknir hafa leitt af sér. Þær eru einkum og aðallega ætlaðar læknum og vísindamönnum til að byggja á þekkingu á þeim sjúkdómum, sem eru aðalviðfangsefni Hjartaverndar, og til að gefa vísbendingu um hvernig þar megi snúast við.

Ég held að rétt sé að hafa það í huga, þegar talað er um þessi mál, að þeir sjúkdómar, sem fengist er við að rannsaka á vegum Hjartaverndar, eru helmingur allra dánarmeina hér og þær aðgerðir, sem þarna er unnið að, eru fyrst og fremst fyrirbyggjandi. Þess vegna ætti það í rauninni að vera hinu opinbera kappsmál að veita fjármagn til þessarar starfsemi til að koma í veg fyrir aukin útgjöld á síðari stigum og til að bjarga mannslífum, svo talað sé umbúðalaust.

Sú úrvinnsla, sem þarna er í gangi og þarf að hjálpa á legg, miðar að því að vinna úr skýrslum um þá þrjá þætti sem taldir eru aðaláhættuþættir kransæðasjúkdóma, þ.e. blóðfitu, háþrýsting og reykingar. Þessum skýrslum er ætlað að leiða í ljós hvort breytingar hafi orðið á þessum þáttum hjá þátttakendum í heildarrannsókn stöðvarinnar á því 12 ára tímabili, sem hún hefur starfað, og hvort af því megi draga lærdóma. Í sambandi við það er starfshópur þriggja lækna reiðubúinn að vinna að þessum störfum. Skýrt skal tekið fram, að sú fjárveiting, sem hér er um að ræða, er ekki laun til þessara lækna eða til neinna aðila sem vinna að þessari rannsókn. Hún á eingöngu að fara til að greiða kostnað við tölvuvinnslu og útgáfu á niðurstöðum þessara rannsókna. Þeir læknar, sem að þeim vinna, taka ekki laun fyrir sína vinnu að þessu.

Það hefur komið skýrt fram hjá forustumönnum Hjartaverndar, að fáist ekki eitthvert fjárframlag til þessara úrvinnslustarfa verður að stöðva þessar vísindarannsóknir vegna þess að ekki er til neitt fjármagn til að sinna þeim. Það fjármagn, sem Hjartavernd hefur, rétt dugar fyrir rekstri stöðvarinnar. Þess vegna held ég að ekki sé til mjög mikils mælst þegar óskað er eftir því að veittar verði 10 millj. kr. til þessarar starfsemi á vegum Hjartaverndar, sem allir, hygg ég, geta verið sammála um að á fyllsta rétt á sér og léttir af hinu opinbera útgjöldum sem annars væru áreiðanlega töluvert meiri. Þess vegna vonast ég til að þessi till. geti fengið þann stuðning sem dugir til þess að hún megi samþykkt verða.