15.12.1980
Efri deild: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1432 í B-deild Alþingistíðinda. (1421)

34. mál, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Í forföllum hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar mun ég nú gera grein fyrir nál. fjh.- og viðskn., en hún hefur haft til umfjöllunar í nokkurn tíma 34. mál deildarinnar, sem er frv. til l. um breyt. á lögum nr. 29 frá 29. apríl 1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sbr. lög nr. 49 frá 1973 og lög nr. 21 frá 1975. Nefndin hefur haldið nokkra fundi um málið og m.a. kvatt á sinn fund til að fá nánari upplýsingar og útskýringar Höskuld Jónsson ráðuneytisstjóra í fjmrn. Frv. þetta er staðfesting á brbl. um sama efni sem gefin voru út 9. sept. 1980 og eru hluti af samkomulagi í kjarasamningum milli BSRB og ríkisvaldsins.

Á þeim tíma, sem liðinn er frá setningu brbl., hefur komið í ljós að nokkrar frekari breytingar þarf að gera á lögunum svo að þau samrýmist betur gerðum kjarasamningum. Hefur nefndin farið yfir þau atriði og flytur brtt. á þskj. 248. Þó að skammur tími hafi unnist til að skoða þessi þskj. og bera saman við lögin mun ég þó reyna að gera nokkra grein fyrir þeim breytingum sem í þessu felast.

Í fyrsta lagi er lagt til að breyta 6. gr. frv. — það er breyting á 12. gr. laganna. Meginbreytingarnar þar eru: Í 1. mgr. segir: „Hver sjóðfélagi, er greitt hefur iðgjöld til sjóðsins og er orðinn fullra 65 ára að aldri, á rétt á árlegum ellilífeyri úr sjóðnum.“ Hér falla niður úr greininni á eftir orðunum „til sjóðsins“ orðin: í fimm ár eða lengur.

Þá segir í 3. mgr.: „Lífeyrisréttur skal aukast um 2% fyrir hvert starfsár.“ Þar var áður í lögunum: „hvert ár“, en nú er lagt til að þarna komi: hvert starfsár.

Í 6. mgr. kemur innskot. Þar segir: „Upphæð ellilífeyris er hundraðshluti af launum þeim og persónuuppbót samkv. kjarasamningum, er á hverjum tíma fylgja“ o.s.frv. Orðunum „og persónuuppbót samkv. kjarasamningum“ er þarna bætt við. Þar er fjallað um persónuuppbót sem greidd er á lífeyri fyrir desembermánuð.

Í 7. mgr. þessarar gr. segir: „Hafi sjóðfélagi gegnt hærra launuðu starfi eða störfum í a.m.k. tíu ár fyrr á sjóðfélagatíma sínum í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins skal miða lífeyrinn við hæst launaða starfið“ o. s. frv. Orðunum „í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins“ hefur þarna einnig verið bætt við.

Fleiri breytingar eru ekki gerðar á þessari grein frv. Í öðrum lið brtt. er lagt til að 9. gr. frv. breytist þannig, að 7. mgr. 12. gr. orðist svo: „Fyrir jafngildi hverrar tólf mánaða iðgjaldagreiðslu ávinnst réttur til ellilífeyris og örorkulífeyris.“ Orðunum „og örorkulífeyris“ er þarna bætt við. Síðan segir áfram: „sem nemur 2% af viðmiðunarlaunum, og réttur til makalífeyris sem nemur 1% af viðmiðunarlaunum.“ Þessi síðustu orð: „og réttur til makalífeyris sem nemur 1% af viðmiðunarlaunum“ — er viðbót.

Þá kemur 3. liður brtt., sem er ný grein er verði 10. gr. frv. og fjallar um að 1. mgr. 13. gr. laganna orðist svo: „Hver sjóðfélagi, sem ófær verður til að gegna því starfi, sem hann hefur gegnt þangað til, og eigi á kost á öðru jafngóðu starfi við hans hæfi hjá stofnun þeirri, er hann hefur unnið hjá, eða annarri stofnun, sem tryggir starfsfólk sitt í sjóðnum, eða missi einhvern hluta af launum sínum sökum slíkrar örorku, á rétt á örorkulífeyri, ef tryggingayfirlæknir, í samráði við landlækni, metur örorkuna meiri en 10%.“ Þá kemur: „enda hafi sjóðfélaginn greitt iðgjöld til sjóðsins undanfarin þrjú almanaksár og a.m.k. í sex mánuði á undanfarandi tólf mánuðum.“ Þetta er viðbót við greinina, að öðru leyti er hún óbreytt.

Í 4. lið brtt. segir: „Ný grein er verði 11. gr. frv. 2. mgr. 14. gr. laganna hljóði svo: Upphæð makalífeyris er hundraðshluti af launum þeim og persónuuppbót skv. kjarasamningi, sem á hverjum tíma fylgja starfi því er hinn látni gegndi síðast.“ — Hér er orðunum „og persónuuppbót skv. kjarasamningi“ bætt inn í núverandi texta laganna.

Í upphafi 2. málsliðar er breyting frá lögunum. Þar segir: „Ef starfstími sjóðfélagans hefur verið 32 ár eða skemmri er hundraðshluti þessi 20% af greiddum launum að viðbættum 1% fyrir hvert iðgjaldagreiðsluár.“ Breytingin er aðeins sú, að í staðinn fyrir „30 ár“ er gerð till. um að komi: 32 ár.

Í 5. lið brtt. er lagt til að 10. gr. frv. verði 12. gr. og taki svofelldum breytingum: Orðin „sambýlismanni“ og „sambýliskonu“ í 2. málslið verði: sambúðarmanni og sambúðarkonu.

Þá er í 6. lið brtt. gert ráð fyrir nýrri grein sem yrði 13. gr. frv.:

„Í stað fjögurra fyrstu málsl. 17. gr. laganna komi: Nú lætur sjóðfélagi í lifanda lífi og af öðrum ástæðum en elli eða örorku af stöðu þeirri, er veitti honum aðgang að sjóðnum, og fellur þá niður réttur hans og skylda til að greiða framvegis iðgjöld til sjóðsins og réttur hans til örorkulífeyris.“ Hér eru nokkrir málsliðir felldir niður úr 17. gr. laganna, en hún hljóðaði svo áður: „Nú lætur sjóðfélagi í tifanda lífi og af öðrum ástæðum en elli eða örorku af stöðu þeirri er veitti honum aðgang að sjóðnum“ — það, sem fellur niður, hljóðar svo: „og á hann þá rétt á að fá endurgreidd með vöxtum iðgjöld þau er hann hefur greitt í sjóðinn. Stjórn sjóðsins ákveður vextina með hliðsjón af ávöxtun sjóðsins. Hafi hann verið sjóðfélagi í fimm ár, er hann lætur af stöðunni, getur hann með samþykki sjóðstjórnarinnar valið um hvort hann fær iðgjöld sín endurgreidd eða hann lætur þau standa inni í sjóðnum. Velji hann síðari kostinn fellur niður réttur hans og skylda til að greiða framvegis iðgjöld til sjóðsins og réttur hans til örorkulífeyris.“ Þessir málsliðir falla niður samkv. þessari brtt., en málsliðurinn orðist eins og ég las fyrst.

Í 7. lið brtt. á þskj. 248 er sagt: „11. gr. frv. verði 14. gr. og hljóði svo:

25. gr. laganna orðist svo: Nú verður almenn hækkun á áður úrskurðuðum elli-, örorku- og makalífeyri vegna almennrar hækkunar á launum opinberra starfsmanna, sbr. 12., 13. og 14. gr., og endurgreiðir þá ríkissjóður og aðrir þeir aðilar, sem tryggja starfsmenn sína í sjóðnum, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins þá hækkun er þannig verður á lífeyrisgreiðslum.“

Breytingin, sem verður á þessari mgr., er sú, að inn kemur: „og aðrir þeir aðilar“ — þar sem rætt er um þá sem tryggja starfsmenn sína í sjóðnum.

Þá held ég að ég hafi gert nokkra grein fyrir þeim brtt. sem felast í þskj. 248, en trúlega hefði mátt gera þeim nokkru betri skil, ef tími hefði verið rýmri til að fara yfir þessi gögn sem svo seint var dreift í hv. deild.

Á fundum nefndarinnar kom fram að rétt og eðlilegt væri að hið fyrsta færi fram ítarleg endurskoðun á öllu lífeyrissjóðakerfinu sem stefni í þá átt að stofnaður verði einn lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn. Hjá nefndinni eru nú til meðferðar frumvörp til laga um Lífeyrissjóð hjúkrunarkvenna og Lífeyrissjóð Íslands, en trúlega verður ekki um þau fjallað fyrr en eftir áramót. Gefst þá tækifæri til að taka þessi lífeyrissjóðamál til nánari umfjöllunar og almennrar endurskoðunar.

Nefndin varð sammála um að mæla með samþykkt frv. með þeim breytingum sem fram koma á þskj. 248. Einstakir nm. gera þó sérstakar athugasemdir sem fram koma í nál., en það hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin hefur rætt frv. og mælir með því, að það verði samþykkt með þeim brtt. sem fluttar eru á sérstöku þskj. og samkomulag hefur orðið um milli fjmrn. og BSRB.

Eyjólfur Konráð Jónsson og Lárus Jónsson taka þó fram að þeir telja lífeyrissjóðsmál landsmanna í hinum mesta ólestri og fela í sér mikið misrétti og telja brýna nauðsyn á úrbótum í því efni, sbr. frv. um Lífeyrissjóð Íslands. Með hliðsjón af því að þetta frv., 34. mál, er liður í nýgerðum samningum við opinbera starfsmenn sé þó eðlilegt að lögfesta það.

Kjartan Jóhannsson tekur fram, að hann telur ástand lífeyrissjóðsmála í landinu í argasta ólestri og fela í sér eitthvert mesta misrétti sem viðgengst í landinu og þess vegna sé brýn nauðsyn að þegar verði hafist handa við uppstokkun þess og komið á sameiginlegum lífeyrissjóði og lífeyrisréttindakerfi allra landsmanna. Enn fremur bendir hann á að samkv. þeim lögum, sem hér eru til afgreiðslu, njóta menn lífeyris sem hundraðshluta af þeim launum, sem þeir gegndu síðast, og sjóðfélagi, sem dregur úr vinnu sinni fyrir aldurs sakir þegar líður á starfstímann, er þannig stórlega hlunnfarinn, en á hinn bóginn býður þetta upp á misnotkun kerfisins með takmörkuðu vinnuframlagi meginhluta starfstímans, en fullu starfi á síðustu starfsárunum. Þess vegna leggur Kjartan Jóhannsson áherslu á að þetta mál verði tekið til athugunar hið fyrsta.

Gunnar Thoroddsen var fjarverandi afgreiðslu málsins.“

Undir þetta rita: Ólafur Ragnar Grímsson, Davíð Aðalsteinsson, Eyjólfur Konráð Jónsson, Guðmundur Bjarnason, Kjartan Jóhannsson og Lárus Jónsson.