15.12.1980
Neðri deild: 31. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1478 í B-deild Alþingistíðinda. (1510)

156. mál, tímabundið vörugjald

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breyt. á lögum nr. 107 30. des. 1978, um sérstakt tímabundið vörugjald, sbr. lög nr. 33 29. maí 1980, um breyt. á þeim lögum. Frv. þetta hefur þegar verið samþ. af hv. Ed. og kemur nú til Nd.

Það gildir sama um þetta mál og frv. um ferðagjaldeyri sem var hér áðan á ferðinni. Hér er um að ræða mál sem nokkrum sinnum áður hefur verið til meðferðar í þinginu, enda framlengt frá ári til árs. Það má þó segja að þetta mál sé öllu meiri kunningi alþm. en það fyrra því að það á rætur sínar að rekja allt til ársins 1975 þegar gjaldið var fyrst lagt á. Gjald þetta hefur farið hækkandi á síðari árum og hefur þó verið framlengt óbreytt seinustu tvö árin.

Herra forseti. Þar sem mál þetta er öllum hv. alþm. gjörkunnugt sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um það frekar, en legg til að því verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjh.- og viðskn.