16.12.1980
Sameinað þing: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1487 í B-deild Alþingistíðinda. (1525)

127. mál, Landmanna-, Gnúpverja- og Holtamannaafréttir

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Landgræðsla ríkisins hafa unnið að athugunum á afleiðingum Heklugossins 17. ágúst s.l. Þessar athuganir hafa verið gerðar fyrir hönd landbrn. Landbrn. hefur leitað til þessara stofnana um svar við þeirri fsp. sem hér er á dagskrá. Forstöðumenn beggja stofnana taka fram, að um bráðabirgðaniðurstöður sé að ræða og þurfi þess vegna að fylgjast með hvernig þessi mál þróast á næsta sumri.

Í svari frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins segir svo:

„Nokkrum dögum eftir að Heklugosinu s.l. sumar lauk lét Rannsóknastofnun landbúnaðarins gera könnun á því, hve mikið gróðurlendi hefði skemmst eða eyðilagst með öllu af völdum gossins. Tjón á gróðri af völdum hraungoss var lítið og nær eingöngu á mosa og eldri hraunum. Hins vegar olli öskufall miklu tjóni á gróðri. Um 210 km2 lands með gróðri fóru undir ösku eða sem svarar til um 170 km2 eða 17 000 hektarar algróins lands. Af því fóru um 47 km2 nær alveg í kaf undir misjafnlega þykkt öskulag, en um 127 km2 að auki huldust að verulegu eða miklu leyti.

Gróðurskemmdir urðu á fjórum afréttum, Landmannaafrétti, Gnúpverjaafrétti, Flóa- og Skeiðamannaafrétti og Holtamannaafrétti. Í töflu hér fyrir neðan er sýnt, hve mikið gróðurlendi var þakið ösku að öllu eða miklu leyti á hverjum afrétti, hve mikill hluti það var af heildargróðurlendi afréttanna og hverja rýrnun á beitarþoll öskufallið hafði í för með sér. En auk þessa náttúrlega gróðurlendis huldi askan víðáttumikil svæði sem Landgræðsla ríkisins hafði grætt upp á Landmanna- og Gnúpverjaafréttum.“

Í töflu kemur fram, að á Flóa- og Skeiðamannaafrétti er hálfþakið ösku 17.5 km2, á Gnúpverjaafrétti alþakið ösku 9.3 km2 og hálfþakið ösku 81.6 km2, á Holtamannaafrétti hálfþakið ösku 13.6 km2 og á Landmannaafrétti alþakið ösku 37.6 km2 og hálfþakið ösku 10.4 km2. Alls eru þetta 170 km2 sem eru ýmist alþaktir ösku eða hálfþaktir ösku og ekki nákvæmlega eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda, þar sem hann gerði því skóna að þetta landssvæði allt væri alþakið ösku. Síðan segir:

„Óhætt er að fullyrða, að mikill hluti þess gróðurlendis sem huldist atgerlega ösku, er ónýtt til frambúðar þótt askan eigi eftir að fjúka af hæstu hnúkum og eitthvað skolist burt með vatni. Hér er fyrst og fremst um að ræða gróðurlendi á Sölvahrauni og Valafelli á Landmannaafrétti og í hluta Sandafells á Gnúpverjaafrétti. Erfiðara er að segja til um örlög þess gróðurs sem huldist ösku að miklu, en ekki öllu leyti. Á því svæði er víða margra cm þykk aska í rót og gróður orðinn mjög gisinn. Væntanlega og vonandi nær þetta land sér að miklu leyti að nýju. Það getur tekið mörg ár og er háð árferði og meðferð á landinu. Þetta land er nú afar viðkvæmt og gróður þess þarf að fá tækifæri til endurnýjunar án beitar eins lengi og þörf krefur. Það þarf því að friða landið um skeið.

Það gróðurlendi, sem huldist ösku að öllu eða miklu leyti á afréttunum, nægði sem beitiland fyrir 5370 ærgildi (en ærgildi er sama sem ein ær með 1.4 lömbum að meðaltali). Einn hektari af ábornum úthaga nægir að jafnaði fyrir tveimur ærgildum.“

Þessi umsögn Rannsóknastofnunar landbúnaðarins er undirskrifuð 28. nóv. s.l. af Ingva Þorsteinssyni magister.

Í umsögn frá Landgræðslu ríkisins segir svo: „Starfsmenn Landgræðslu ríkisins fylgdust með síðasta Heklugosi alveg frá byrjun. Flogið var yfir öskufallssvæðin og myndir teknar af gróðurskemmdum. Undirritaðir eru í megin atriðum sammála niðurstöðum Rannsóknastofnunar landbúnaðarins um útbreiðslu vikur og öskufalls sem birtust í fjölmiðlum eftir gosið. Fjárlagafrv. fyrir árið 1981 gerir ekki ráð fyrir neinu fjármagni til þess að bæta þær miklu gróðurskemmdir sem urðu á s.l. hausti. Landgræðslan hefur ekki eins og er fjármagn til þess að kosta gróðurlendaaðgerðir. Haft hefur verið samband við sveitarstjórnir viðkomandi hreppa og ljóst er að draga þarf verulega úr upprekstri á þá afrétti sem harðast urðu úti, sér í lagi Landmannaafrétti. Auk þess er mikillar áburðardreifingar þörf, bæði á landgræðslusvæði sem fóru undir vikur og ösku og svo á heimalönd í viðkomandi hreppum, til þess að taka við auknu beitarálagi vegna fækkunar á afréttum.“

Undir þetta skrifar Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri.

Við þetta má svo bæta því, að við afgreiðslu fjárlaga við 3. umr. þarf að taka tillit til þessa máls og annarra í sambandi við afgreiðstu á fjárlagalið til landverndar- og gróðurverndaráætlunar. Er ekki um það neitt að segja á þessu stigi annað en þar er þörf að bæta úr þeim fjárlagatölum sem liggja fyrir í fjárlagafrv.