17.12.1980
Neðri deild: 34. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1602 í B-deild Alþingistíðinda. (1697)

172. mál, lántaka 1980 og 1981 og ábyrgðarheimildir

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Eins og heyra mátti á ræðu hv. formanns fjh.- og viðskn. þessarar deildar, þá má raunar segja að allir nm. riti undir nál. með fyrirvara, jafnvel þó að það komi ekki fram nema með undirskrift hluta nm.

Það fór ekkert á milli mála, herra forseti, að í framsögu sinni vítti formaður fjh.- og viðskn. þessarar deildar hæstv. ríkisstj. mjög fyrir 1. og 2. gr. frv. þessa. Hann vítti hæstv. ríkisstj. mjög fyrir að hafa virt að vettugi lagaheimildir sem Alþingi veitti þessari ríkisstj. yfir nokkrum mánuðum um erlendar lántökur. Hv. formaður fjh.- og viðskn. tók réttilega fram, að í nál. hans og annarra stuðningsmanna stjórnarinnar frá því í fyrra var það sérstaklega tekið fram, að ætlast væri til þess af stuðningsmönnum ríkisstj. í hv. fjh. og viðskn. Nd. Alþingis, að hún færi að lögum um lánsfjárheimildir sem þar var verið að samþykkja, en setti sér ekki sín lánsfjárlög sjálf. Þetta hefur hæstv. ríkisstj. hins vegar gert, og formaður fjh.- og viðskn. Nd. Alþingis, sem er og hefur verið stuðningsmaður ríkisstj. — þó að ég segi nú ekki endilega eindreginn stuðningsmaður hennar, — hann sá sérstaka ástæðu til að víta hæstv. ríkisstj. fyrir þetta. Þess vegna held ég að það sé rétt sem ég sagði hér áðan, að í raun réttri leggja allir nm. — eða a.m.k. flestallir nm. í hv. fjh. og viðskn. Nd. Alþingis til að frv., 172. mál þessarar deildar, verði samþykkt með mjög alvarlegum fyrirvara um það, að hæstv. ríkisstj. virði þau lög sem Alþingi setur um heimildir til hennar til að taka erlend lán.

Ég vil aðeins árétta það, sem hv. formaður fjh.- og viðskn. sagði hér áðan, að það skiptir auðvitað nokkru máli í þessu sambandi, hvort um það er að ræða, eins og talað er um í aths. með frv., að tiltekinn verkþáttur, sem ákveðið hafði verið að ráðast í, fari af einhverjum ástæðum langt fram úr kostnaðaráætlun, svo að ríkisstj. telji sig þess vegna nauðbeygða til að útvega meira fé en áætlað var við gerð lánsfjárheimildarlaga að til þyrfti. Þetta er auðvitað ástæða sem verður að líta á með skilningi.

Hitt er svo allt annað mál, eins og hv. þm. benti á, þegar ríkisstj. ákveður að leita lánsfjáröflunar, erlendis eða innanlands, utan lagaheimilda til verkefna sem ekki var ætlunin að sinna í lánsfjárheimildalögum sem afgreidd voru af Alþingi, m.ö.o. þegar hæstv. ríkisstj. býr sjálf til sín eigin lánsfjárlög um framkvæmdir sem Alþingi hefur ekki fjallað um, hvað þá samþykkt. Það er ekki tekið fram í aths. og grg. með umræddu frv., 172. máli, að þetta sé ein ástæðan fyrir því, að hæstv. ríkisstj. bjó sér til sín eigin lánsfjárlög um 5 milljarða erlendar lántökur umfram það sem Alþingi heimilaði. Þetta er engu að síður staðreynd, vegna þess að í 2. gr. kemur fram að hæstv. ríkisstj. hefur heimilað tilteknar framkvæmdir, kostaðar af erlendu lánsfé, sem ekki var búið að kanna á Alþingi hvort vilji væri fyrir að ráðist yrði í. Ég held að það sé rétt munað hjá mér, að um slíkt séu fá dæmi.

Mörg dæmi eru um það, að ríkisstj. hafi talið að nauður ræki til að afla meiri lánsfjár en ráð var fyrir gert til þess að ljúka við framkvæmdir sem Alþingi hafði fjallað um og reyndust dýrari en áformað var, en mjög fá dæmi þess, að ríkisstj. taki sjálf ákvörðun, utan heimilda, um að ráðast í tilteknar framkvæmdir, sem Alþingi hefur aldrei um fjallað, og afli til þess erlends lánsfjár í algeru heimildarleysi. Það er því full ástæða til — eins og stjórnarsinninn, hv. formaður fjh.- og viðskn. Nd. Alþingis, hv. þm. Halldór Ásgrímsson, gerði hér áðan-að víta hæstv. ríkisstj. mjög alvarlega fyrir slíkt framferði og líta það mjög alvarlegum augum, eins og hv. þm. gerði. Sjálfsagt eru fleiri hér inni sem líta þetta atferli ríkisstj. mjög alvarlegum augum, en látum það liggja á milli hluta í þessu sambandi.

Ef Alþingi fellst á að staðfesta slíka afgreiðslu hæstv. ríkisstj. má segja að verið sé að fallast á að gefa ríkisstjórnum, — ekki endilega núv. hæstv. ríkisstj., heldur þeim ríkisstjórnum sem kunna að taka við af henni, hversu tengi sem hún situr að völdum, — að Alþingi sé þar með að gefa ríkisstjórnum fordæmi um það, að ef þær af einhverjum ástæðum telja æskilegt að hreyfa ekki ýmsum framkvæmdahugmyndum sínum við Alþingi við afgreiðslu lánsfjárheimilda, — til þess geta legið margar orsakir, að þær vilji ekki hreyfa slíkum framkvæmdaáformum, — þá hafi Alþingi út af fyrir sig ekkert við það að athuga þó að ríkisstj. — eftir að Alþingi hefur afgreitt til hennar heimildir til lánsfjáröflunar til tiltekinna framkvæmda — ákveðið að setja eigin lánsfjárlög um framkvæmdir og lánsfjáröflun til þeirra, sem hæstv. ríkisstj. — hver sem hún kann að vera— hefur ekki af einhverjum ástæðum viljað hreyfa við Alþingi. Þetta er að sjálfsögðu fordæmi sem þýðir það, að það er tilgangslaust eða tilgangslítið fyrir Alþingi að afgreiða lánsfjárheimildalög, vegna þess að Alþingi gefur fordæmi um að það ætlast ekki til að þau séu virt. Það sé reiðubúið að staðfesta viðbótarframkvæmdir, ekki bara viðbótarfjáröflun til að ljúka framkvæmdaþáttum, sem Alþingi hefur áður fjallað um, heldur sérstakar nýjar viðbótarframkvæmdir sem enginn fjallar um nema hæstv. ríkisstj. — og verið getur að hún fjalli ekki einu sinni um þær í heild, heldur einstakir ráðherrar. Ég tel að alþm. geti ekki afgreitt slíkar heimildir.

Ég tel að hluta af því, sem um er fjallað í 2. gr., heimild til lánsfjáröflunar vegna framkvæmda sem ríkisstj. ákvæði sjálf án samráðs við Alþingi að ráðast í á yfirstandandi ári, væri miklu æskilegra að hafa sem hluta í lánsfjáröflun næsta árs, svo að þær framkvæmdir mætti skoða sem framkvæmdir á árinu 1981, þó að svo illa hafi farið að þær hafi verið unnar á árinu 1980.

Sá liður, sem fjallar um þyrlukaup Landhelgisgæslunnar, er sérstakt mál í þessu sambandi vegna þess að mér er ekki kunnugt um — og lét ég þó kanna það ítarlega á sínum tíma — að nokkurn tíma hafi verið tekin formleg ákvörðun í ríkisstj. um þessi kaup. Eftir upplýsingum sem ég hef úr fjvn. og tel enga ástæðu til að draga í efa vegna þess að núv. formaður fjvn., hv. þm. Geir Gunnarsson, tjáði mér að þær upplýsingar væru réttar, hefur fjvn. aldrei fjallað um þessi kaup og samþykkt þau. Og í þeim gögnum, sem til eru af fundargerðum ríkisstjórnarfunda, verður ekki séð að fyrrv. ríkisstjórnir hafi nokkurn tíma samþykkt þessi kaup formlega. Til þess að álykta að slíkt hafi verið gert verða þeir, sem þannig álykta, að snúa út úr samþykktum sem gerðar hafa verið á ríkisstjórnarfundum í þessu sambandi.

Með þessu er ég í sjálfu sér ekki að taka neina afstöðu til þess, hvort rétt sé eða rangt að kaupa hina nýju þyrlu til Landhelgisgæslunnar, það er mál sem að sjálfsögðu er athugunar- og skoðunarvert. Ég er aðeins að benda á að það hefur ekki að mínu viti verið farið að réttum reglum um þessa ákvörðun, því að fjárveitingavaldið, Alþingi, hefur aldrei samþykkt þessi kaup og ríkisstj. er ekki heimilt að ráðast í slík kaup nema að fengnu samþykki fjárveitingavaldsins. Að þessu leyti hafa reglur sem eiga að gilda í landinu um störf ríkisstjórnar og Alþingis, ekki verið virtar. Og í annan stað finn ég ekki — og lét þó teita sérstaklega að því á meðan ég var í fjmrn. — í bókunum ríkisstjórna, sem setið hafa næst á undan og fjallað um þessi mál, nokkra samþykkt sem hægt er óefað að líta svo á að hafi verið samþykkt ríkisstj. um að heimila slík kaup.

Við getum haft okkar skoðun á réttmæti þess, að Landhelgisgæslan eignist slíka þyrlu. Sjálfsagt er það nauðsynlegt, ég vil ekki meta það, ég hef enga aðstöðu til þess. En ákvarðanirnar um þau kaup hafa aldrei verið teknar af löglegum aðilum. Og auðvitað getur ekki svo til gengið, að ríkisstj. geti með þeim hætti gengið á snið við allar þær reglur sem henni og Alþingi ber að starfa eftir í sambandi við fjárfestingar af þessu tagi.

M.a. af þeim ástæðum, sem ég hef hér lýst í máli mínu, get ég ekki-þrátt fyrir það að við stöndum frammi fyrir gerðum hlut sem ekki er hægt að láta ganga til baka — mætt með því, að alþm. samþykki 1. og 2. gr. þessa frv., og mun ekki greiða þeim atkv. Hins vegar er ég reiðubúinn til þess að fallast á þá heimild sem frv. gerir ráð fyrir í 4. gr.hæstv. fjmrh. sé veitt, þ.e. heimild til að taka lán allt að jafnvirði 25 milljarða kr. í erlendum gjaldeyri o.s.frv., eins og þar segir.

Hæstv. fjmrh. hefur upplýst að til boða standi nú óvenjulega hagkvæmt erlent lán sem hægt sé að ganga frá og taka þegar á næstu dögum. Ég tel enga ástæðu til þess, þó svo að lánsfjáráætlun hafi ekki verið afgreidd og lánsfjárheimildalög samþykkt, að standa af þeim sökum gegn því, að hæstv. ríkisstj. geti gengið frá því að taka erlent lán sem nú býðst og er óvenjulega hagkvæmt. Hins vegar lýsti ég því yfir þegar frv. þetta var til 1. umr., að mér fyndist með öllu óeðlilegt það sem kom fram í 4. gr. frv. fyrst þegar það var lagt fram, að hæstv. ríkisstj. og fjmrh. gætu á einn eða annan hátt ráðstafað því láni án þess að Alþingi hefði afgreitt lánsfjárheimildalögin, þar sem lánsfénu er skipt á einstaka framkvæmdaliði. Ég lagði til í ræðu minni við 1. umr. málsins að málið yrði afgreitt með breytingu á 4. gr. þess efnis, að ríkisstj. væri heimilt að taka þetta lán, svo að hún þyrfti ekki að sitja lántökuna af sér, þó svo hún hefði ekki haft döngun í sér til þess að koma frá sér í tæka tíð frv. til lánsfjárlaga, eins og henni ber þó lagaleg skylda til. Þó að við höfum vonda ríkisstj. í landinu, sem ekki getur einu sinni sinnt lagalegum skyldum sínum um afgreiðslu mála, er það engin afsökun fyrir því, að menn neyðist til að taka óhagkvæmari erlend lán en ástæða er til og kostur er á. Þó að hæstv. ríkisstj. hafi ekki haft döngun í sér og ekki sé meiri samstaða í ríkisstj. en það, að hún hefur nú mánuðum saman setið á lánsfjárheimildarfrv. og ekki getað afgreitt það og verður núna ber að því frammi fyrir Alþingi að geta ekki sinnt lagaskyldu um afgreiðslu slíks máls, þá er ekki ástæða til að mínu viti að koma í veg fyrir að hæstv. ríkisstj. geti tekið umrætt lán.

Ég lagði því til að sú breyting yrði gerð á 4. gr., að jafnframt því sem hæstv. ríkisstj. væri heimilað að taka þetta lán legði Alþingi bann við því í lagagreininni, að hæstv. fjmrh. ráðstafaði svo mikið sem einni krónu af þessu láni fyrr en Alþingi væri búið að afgreiða lánsfjárheimildalögin sem hæstv. ráðh. vanrækti að leggja fram í tæka tíð, komst ekki til þess vegna ósamkomulags í ríkisstj., og það lægi alveg ljóst fyrir, að hæstv. ríkisstj. ráðstafaði engu af þessu láni öðruvísi en að fengnu samþykki Alþingis. g lagði því til við 1. umr. málsins að 4. gr. yrði breytt á þennan veg. Ríkisstj. yrði heimilað að taka lánið, en ekki heimilað að ráðstafa svo miklu sem einni gamalli krónu af því láni fyrr en hv. Alþingi væri búið að samþykkja lánsfjárheimildalögin eftir áramót.

Á þessa skoðun hefur hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar fallist einróma. Hún flytur á þskj. 269 brtt. við 4. gr. þar sem greininni er breytt á þann veg, að hæstv. fjmrh. og ríkisstj. er alfarið bannað að ráðstafa svo mikið sem einni gamalli krónu af þessum 25 þús. millj. í erlendum gjaldeyri sem hæstv. ríkisstj. er heimilað að taka að láni. Með þessari breytingu hefur að sjálfsögðu verið reynt af hálfu Alþingis að setja undir þann leka sem kemur fram í 1. og 2. gr. frv. að átti sér stað á yfirstandandi ári.

Hitt er svo allt annað mál, hvort hæstv. ríkisstj. virðir þessi ákvæði frv., ef að lögum verða, nokkuð meira en hæstv. ríkisstj. virti ákvæði lánsfjárheimildalaganna sem sett voru fyrir nokkrum mánuðum. En á það verður að reyna. Og ég er ekki viss um að hv. stjórnarsinni Halldór Ásgrímsson, formaður fjh.- og viðskn. Nd. Alþingis, væri jafnreiðubúinn að standa að afgreiðslu lánsfjárheimildalaga nú eftir áramótin ef hæstv. fjmrh. virti þessa niðurstöðu nefndarinnar að vettugi, eins og hann virðist núna, hv. þm., vera reiðubúinn að afgreiða þetta frv., þ. á m. 1. og 2. gr. þess, þó svo að hæstv. fjmrh. og ríkisstj. hans hafi virt lánsfjárheimildalögin fyrir árið 1980 að vettugi í störfum sínum.

Herra forseti. Ég hef í máli mínu gert grein fyrir því, hvers vegna ég hef undirritað nál. með fyrirvara og hvers vegna ég mun ekki greiða atkv. með 1. og 2. gr. frv., en hins vegar með megininntaki þess um heimild til ríkisstj. að taka erlent lán að jafnvirði 25 milljarða kr. — án þess að hæstv. ríkisstj. hafi heimild til, fyrr en Alþingi hefur afgreitt lánsfjárheimildalög, að ráðstafa svo mikið sem einni krónu af þessu fé.