17.12.1980
Neðri deild: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1633 í B-deild Alþingistíðinda. (1728)

172. mál, lántaka 1980 og 1981 og ábyrgðarheimildir

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Við 2. umr. málsins upplýsti hæstv. fjmrh. að hann hefði byggt það frv., sem hér liggur fyrir, ásamt fjárlagafrv. á áætlun sem gerð hefði verið um verðþróun á næsta ári um svipað leyti og fjárlagafrv. var í smíðum. Eins og ég rakti við 2. umr. málsins hefur verðlagsþróunin síðan orðið á þann veg, að sennilega er engin sú stofnun til í gervöllu ríkinu, stéttarfélag né hagsmunafélag, sem trúir því, að rétt sé að unnt verði að halda verðbólgunni í 42% á næsta ári. Og eins og við munum þótti hæstv. fjmrh. tiltakanlega skemmtilegur eða tilfyndinn, þegar hann gaf út fréttatilkynningu um það fyrir skömmu, að hjöðnun verðbólgu hér á landi væri hafin vegna dugnaðar núv. hæstv. ríkisstj., sem hefði síðan hún kom að völdum með margvíslegum ráðstöfunum beitt sér fyrir því að koma verðbólgunni niður. Nú höfum við að vísu ekki fengið nákvæma skýrslu um það hér á Alþingi, í hverju þessar ráðstafanir voru fólgnar, og skal ég ekki fara út í þá sálma, enda hæstv. forsrh. fjarstaddur, sennilega önnum kafinn við að semja annál um dugnað sinn við að fylgjast með álverinu í Straumsvík meðan hann var iðnrh. hér í fjögur ár og mátti þá grannt fylgjast með því sem þar gerðist.

En það, sem ég hef aðallega áhuga á og vildi fá upplýsingar um hjá hæstv. fjmrh. er þetta: Hyggst hæstv. fjmrh. láta þessa verðbólguspá duga, sem fjárlagafrv. er byggt á og gerð var í septembermánuði eða fyrstu viku að október og hann virðist síðan byggja alla sína fjármálapólitík á, eða hyggst hann taka þetta mál upp til nýrrar endurskoðunar? Og hyggst hann, áður en þm. fara heim fyrir jólin, gefa Alþingi einhverju skýrslu um þær breytingar, um þær breyttu forsendur sem eru fyrir verðbólguspánni?

Ég sé að hæstv. fjmrh. er önnum kafinn við að ræða við hæstv. landbrh. Það er sennilega af því að hæstv. landbrh. er svo önnum kafinn við að stjórna þeim málum vel, að hann velur helst tímann við umræður á Alþingi til þess að koma að máli við aðra ráðh., enda hefur það sýnt sig í hans ráðherraferli, að hann hefur tekið myndarlega á. Maðurinn er vaskur og duglegur og hefur getið sér orð fyrir það og hafði mikinn trúnað í Sjálfstfl. meðan ég þekkti hann.

Ég var að spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann hefði í hyggju að gera Alþingi grein fyrir því, áður en þm. fara heim í jólaleyfi, hvernig forsendur fyrir verðbólguspánni, sem fjárlagafrv. er byggt á, hafa breyst, hvernig nýir kjarasamningar koma inn í þau mál. Það er enn fremur fróðlegt að fá upplýst hvort hæstv. fjmrh. er sömu skoðunar og Seðlabankinn um þá verðbólguþróun sem hér á sér stað, sömu skoðunar og Þjóðhagsstofnun. Það hefur komið hér í ljós fyrr í dag, að hæstv. fjmrh. er alveg hissa á því, að Vinnuveitendasambandinu skyldi ekki hafa tekist að spá rétt um verðbólguna. Ég veit ekki hvort skakkar miklu meira í þeirra verðbólguspá en hjá fjmrh. En sem sagt, spurningin er þessi: Hyggst fjmrh. láta duga þær upplýsingar, sem frá honum hafa komið, eða hyggst hann gefa þingheimi fyllri upplýsingar um það sem vænta má á næsta ári? Hvað hefur bæst við síðan Seðlabankinn gerði sína verðbólguspá? Hvaða nýjar upplýsingar liggja fyrir síðan Þjóðhagsstofnun gerði sína verðbólguspá? Hvaða röksemd er fyrir því, að enn þá sé hægt að standa á því og tala um það í fullri alvöru að verðbólgan á næsta ári verði ekki nema um 42%? Hafa einhverjar ærgildisafurðir bæst við þjóðarbúið sem bendir til þess, að þjóðartekjur aukist svo að við því megi búast, að við lifum ekki eins um efni fram og verið hefur? Eða hvað er það sem veldur þessari ótrúlegu bjartsýni?

Ég vil þá líka spyrja hæstv. fjmrh., en get að vísu gert það betur við 3. umr. fjárlaga, þegar fjárlögin verða sérstaklega til umr.: Er hann ánægður með þá þróun sem afgreiðsla fjárlaga hefur tekið, miðað við þá útreikninga sem hæstv. fjmrh. hefur byggt ummæti sín á hér í deild varðandi afkomu ríkissjóðs, í svo mikilli verðbólgu umfram það sem reiknað er með?

Og að síðustu þetta: Ef svo skyldi nú fara, að verðbólgan vaxi sýnilega miklu meira en um 42%, verði kannske orðin 42% um þær mundir sem Alþingi verður slitið í vor, má þá búast við því, að hæstv. fjmrh. beiti sér fyrir því, að nýrra heimilda verði leitað hjá Alþingi, eða hyggst hann þá leysa málið í sumar með útgáfu brbl. eins og þessari ríkisstj. finnst svo skemmtilegt að gera?