17.12.1980
Neðri deild: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1634 í B-deild Alþingistíðinda. (1729)

172. mál, lántaka 1980 og 1981 og ábyrgðarheimildir

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. þm. beindi nokkrum fsp. til mín við 2. umr. þessa máls. Þær spurningar vörðuðu ekki það mál sem hér er á dagskrá sérstaklega, heldur fyrst og fremst afgreiðslu fjárlaga og verðbólguspá á næsta ári. Það frv., sem hér er til umræðu, hefur það eitt efni að ganga frá ábyrgðarheimildum varðandi árið 1980 og svo hitt: að heimila ríkissjóði að taka lán að fjárhæð 25 milljarða vegna framkvæmda á næsta ári, þó með þeim fyrirvara að því fé verði ekki ráðstafað fyrr en lánsfjáráætlun hefur verið afgreidd. Það er því ljóst að endurteknar fsp. hv. þm. snerta alls ekki það þingmál sem hér er til umræðu. Hitt er ljóst að þær eiga mjög vel við 3. umr. fjárlaga, og ég tel að miklu eðlilegra og betra tilefni sé til umræðna um þessar spurningar, umfram það sem ég hef þegar gert þær að umræðuefni, þegar fjárlagafrv. verður til 3. umr.