28.10.1980
Sameinað þing: 10. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (175)

21. mál, verðtryggður lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Endurskoðunarnefnd almannatryggingarlaga fékk á sínum tíma þál. þá sem hér um ræðir, frá 19. maí 1979, til umfjöllunar. Á þeim tíma vann nefndin að tveimur forgangsverkefnum, þ.e. í fyrsta lagi að smíðum lagaákvæða um fæðingarorlof og í öðru lagi að tillögugerð um skipulagsbreytingu á framkvæmd almannatryggingalaga með niðurfellingu sjúkrasamlaganna. Af þeim sökum lét nefndin önnur verkefni bíða um sinn, en nefndin hafði þá fjallað um fjölmörg vandamál sem leysa þyrfti með nýjum eða breyttum reglum almannatryggingalaga, þ. á m. flest efnisatriði þeirrar þáltill. sem hér er vitnað til.

Nú þegar hafa fundist lausnir viðamikilla verkefna, svo sem varðandi aðstoð við þroskahefta með heildarlöggjöf um það efni og með stofnun sérstakrar deildar innan félmrn. til að sinna því verkefni. Ég vil líka nefna í þessu sambandi stofnun Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands, sem var formlega tekin í notkun s.l. fimmtudag, 23. okt. Þá hafa símamál aldraðra verið teyst, að hluta til a.m.k., með reglugerð nr. 426 frá 1978 um eftirgjöf fastagjalds af síma öryrkja og ellilífeyrisþega.

Önnur og veigamikil atriði hafa tengst lausn kjaradeilu verkalýðssamtakanna og viðsemjenda þeirra. Þar nefni ég fyrst og fremst fæðingarorlofið, sem hv. fyrirspyrjandi gat um áðan. Um það var flutt frv. á síðasta þingi, sem ekki varð útrætt, en í tengslum við samninga Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Ístands, sem undirritaðir voru í gær, hefur ríkisstj. gefið fyrirheit um afgreiðslu þess máls á þann veg sem aðilar geta við unað. Mun frv. til l. um breytingu á almannatryggingalögum í þessa veru verða lagt fyrir Alþ. nú á allra næstu dögum.

Í framhaldi af þessari fsp. vil ég einnig taka það fram, að ég tel að sú viðamikla og víðtæka endurskoðun, sem hefur verið í gangi á almannatryggingalögunum, hafi út af fyrir sig skilað árangri í einstökum þáttum. Ég held hins vegar að það sé nauðsynlegt að hafa stöðugt í gangi endurskoðun á almannatryggingalögunum, þar sem heilbr.- og trmrh. feli endurskoðunarnefndinni að taka fyrir tiltekin atriði. Það er út af fyrir sig nauðsynlegt að fjalla um heildarendurskoðun í þessum efnum, en ég held að einstakar lagfæringar, bæði á lögum og reglugerðum, megi ekki bíða eftir því að sú metnaðarmikla heildarendurskoðun liggi fyrir sem menn hafa gert sér í hugarlund. Ég hafði því hugsað mér, þegar lokið væri þeirri endurskoðun almannatryggingalaga sem lýtur að niðurfellingu sjúkrasamlaganna, ef um það næðist samkomulag, að endurskipuleggja nefndina og setja henni nýtt erindisbréf þannig að hún tæki þá fyrir tiltekin og afmörkuð málefni almannatryggingalaganna.

Hv. fyrirspyrjandi Alexander Stefánsson gat hér um þau atriði sem eru í yfirlýsingu ríkisstj. vegna afgreiðslu kjaramálanna. Ætla ég ekki að endurtaka það, nema ég ætla að bæta við einu atriði. Hann nefndi fæðingarorlofið og hann nefndi lífeyrismálin. Ég ætla að bæta því við, að í þessum yfirlýsingum er einnig um að ræða aðrar breytingar á almannatryggingalögunum. Þær eru tvær. Sú fyrri fjallar um það, að sjómenn eigi rétt til töku ellilífeyris frá 60 ára aldri, enda hafi þeir haft sjómennsku að aðalstarfi í 25 ár. Síðari breytingin á almannatryggingalögunum, sem hér er gert ráð fyrir, fjallar um að menn, sem hafa misst helming starfsorku sinnar og eru orðnir 62 ára að aldri, geti notið örorkustyrks sem jafnan svari til fulls elli- og örorkulífeyris. Ríkisstj. mun á næstu dögum og vikum leggja í það vinnu að ganga frá endanlegri gerð þeirra frv. sem vísað er til í yfirlýsingu ríkisstj. frá í gær. Þeir textar, sem birtir hafa verið og lagðir hafa verið fram, eru út af fyrir sig endanlegir efnislega, en tæknilega er kannske eftir að ganga frá ýmsum atriðum sem í sumum tilvikum kunna að orka tvímætis, eins og þetta er, en efnisatriðin eru út af fyrir sig afgreidd.

Í fsp. hv. þm. Alexanders Stefánssonar er svo vikið að lífeyrismálunum, og í fsp. á sama þskj. frá hv. þm. Magnúsi H. Magnússyni er einnig spurt um samræmt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn. Þeirri fsp. er beint til heilbr.- og trmrh. Ég vil af þessu tilefni taka það fram, að þær lífeyrisnefndir, sem vitnað er til í fsp. hv. þm. Magnúsar H. Magnússonar, bæði 17 manna nefndin og 8 manna nefndin, eru báðar, ef ég man rétt, á vegum fjmrn. og ég tel eðlilegt að framvinduskýrsla um vinnu á vegum þessara nefnda komi frá fjmrn. og að við ræddum þá um lífeyrismálin sérstaklega þegar sú skýrsla lægi fyrir. Þær nefndir, sem þar um ræðir, bæði 17 manna nefndin og 8 manna nefndin, hafa unnið út af fyrir sig mjög gott starf að mínu mati. Ég tel hins vegar að því starfi hafi miðað allt of hægt og það eigi að vera okkur kappsmál og metnaðarmál í senn að reyna að koma á samfelldu lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn. Við höfum til þess efnin þar sem eru lífeyrissjóðirnir í landinu og það sem þegar er greitt í gegnum lífeyriskerfi almannatrygginganna. Spurningin er um að stilla þessa þætti saman. Þeir eru margir, þessir þættir, og verkefni þeirra engan veginn einfalt, en okkur er skylt að mínu mati að reyna að taka á þessu máli heildstætt þannig að lífeyrisþegum í landinu séu tryggð betri kjör en verið hefur.

Ég vænti þess, herra forseti, að ég hafi svarað þeirri fsp. sem til mín var beint.