17.12.1980
Neðri deild: 36. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1649 í B-deild Alþingistíðinda. (1773)

47. mál, niðurfelling á opinberum gjöldum barna 1980

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessar umræður, en vegna þeirra orða, sem hv. 3 þm. Austurl. lét falla hér áðan varðandi þetta frv. og meðferð skattalaganna árið 1978 og minn hlut í því máli, vildi ég gjarnan benda á það, að þm. ruglaði saman því, að með skattalögunum var gerð skattkerfisbreyting sem byggir á því, að sérhver einstaklingur greiðir skatt af þeim tekjum sem hann sjálfur hefur aflað. Hvort um er að ræða staðgreiðslu eða ekki skiptir ekki máli í því tilfelli.

Hins vegar liggur það ljóst fyrir, að framkvæmd þessa máls var með þeim hætti, að börnin sem hér um ræðir urðu þannig fyrir barðinu á kerfinu að það er á síðustu tveimur mánuðunum sem þeim er ætlað að greiða þá skatta sem á þau voru lagðir. Það er til þess að leiðrétta þetta að þetta frv. er flutt.

Það lá alveg ljóst fyrir í öndverðu og skýrt tekið fram af mér, þegar frv. til nýrra skattalaga var hér til meðferðar, að á þeim lögum yrði að gera breytingar eftir því sem reynslan sýndi okkur. Og þar er einmitt þetta atriði sem hér er vikið að. Það kom skýrt fram í ræðu hv. 1. þm Vestf., að hér er ekki með neinum hætti verið að leggja til að breyta því skattkerfi sem við búum við í dag. Það er aðeins verið að leggja til leiðréttingu gagnvart þeim aðilum sem verst hafa farið út úr dæminu vegna framkvæmdarinnar.

Við skulum svo aðeins víkja að því, hvort ekki má létta sköttum af fjölskyldunum í landinu í dag. Það er svo annað mál, og ég er reiðubúinn að ræða það við hv. þm. Halldór Ásgrímsson, hver skattbyrðin er á heimilunum í dag og hver hún var 1978 þegar skattalögin voru samþykkt. Jafnvel þó að einhverjir létu sé detta í hug að fella niður eitthvað af þeim sköttum, sem lagðir eru á í dag, er sú upphæð, sem hér er lagt til að fella niður, ekki nema brot af þeirri skattþyngingu sem átt hefur sér stað síðan 1978, því að samkv. tölum Þjóðhagsstofnunar eru áætlaðir skattar sem hlutfall af tekjum greiðsluárs 11.7% árið 1978. En 1980 er þessi prósenta komin upp í 13.9% og hefur aldrei verið hærri. Þetta eitt er næg ástæða til þess að menn skoði skattbyrðina, bara þetta eitt. En það, sem hér er verið að leggja til, er að leiðrétta vandræði sem vegna lélegrar framkvæmdar - hvort sem það er Alþingi að kenna eða öðrum — hafa átt sér stað.

Hv. 7. landsk. þm. vék að ummælum hæstv. forsrh. á „Beinni línu“ varðandi þetta mál. Hann lýsti því þar yfir, að hann hefði á sínum tíma verið óánægður með það sem gert var með skattalögunum 1978. Í því frv. var þó ekki lagt til að skatturinn yrði nema 5% vegna þess að um var að ræða staðgreiðslu. En ríkisstj. hans beitti sér fyrir því að hækka þessa prósentu úr 5% upp í 7%. Sú ríkisstj. beitti sér fyrir því, að 3% útsvar skyldi lagt á þessar tekjur og þar með 1.5% sjúkratryggingagjald, þannig að S% voru komin upp í 11.5. Vegna hvers? Vegna frumvarpa sem hæstv. ríkisstj. hafði lagt fram og fengið samþykkt, 5% upp í 7 vegna þess að staðgreiðslan var ekki lengur fyrir hendi, heldur eftirágreiðsla. Það var alltaf gert ráð fyrir því, að útsvör yrðu greidd af þessari upphæð. Hvort sjúkratryggingagjaldið var inni í myndinni í upphafi skal ég ekki fullyrða hér, en þeir, sem lýsa sig óánægða með 5% 1978, eru a.m.k. ekki sjálfum sér samkvæmir ef þeir standa fyrir því að hækka þá prósentu úr 5% upp í 11.5% þegar þeir fara með völd í landinu.