18.12.1980
Neðri deild: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1691 í B-deild Alþingistíðinda. (1859)

65. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 1. minni hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Nefndin hefur fjallað um þetta frv. á þó nokkuð mörgum fundum sínum og á fund nefndarinnar kom ríkisskattstjóri til viðræðna um þau ákvæði, sem þetta frv. nær til, og framkvæmd þeirra við skattlagningu og samræmingu framkvæmda. Þegar nefndin tók frv. til afgreiðslu í morgun klofnaði hún í þrennt. Í 1. minni hl., sem ég mæli hér fyrir, eru auk mín Albert Guðmundsson og Matthías Á. Mathiesen, og leggjum við til að frv. verði samþykkt með breytingum, sem við flytjum á sérstöku þskj., nr. 320. Þrír nm. leggja til að frv. verði vísað til ríkisstj. og einn nm. að frv. verði fellt.

Þær brtt., sem við flytjum við afgreiðslu málsins, eru: Á eftir 1. gr. frv. komi ný gr., sem verði 2. gr. og orðist svo:

Úr 1. mgr. 29. gr. laganna falli niður orðin „þar með talið endurgjald samkv. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr.“ og sömuleiðis, eftir ábendingu ríkisskattstjóra, leggjum við til að 4. gr. frv. verði felld niður.

Þetta frv. er flutt í framhaldi af því, að við afgreiðslu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt á síðasta þingi flutti hv. þm. Steinþór Gestsson ásamt þremur öðrum þm., öllum úr Sjálfstfl., till. um það, að 29. gr. laganna félli brott og sömuleiðis síðari mgr. A-liðs 7. gr. Við teljum rétt að nema úr lögum skyldu skattstjóra til að ákvarða laun tiltekinna þjóðfélagshópa og setja þeim skatt í samræmi við það.

Þá teljum við einnig vera orðið mjög alvarlegt hvernig skattstjórar í einstökum skattumdæmum landsins túlka framkvæmd skattlagningarinnar samkv. ákvæðum 59. gr. laganna. Sú túlkun er að okkar dómi í algerri mótsögn við túlkun flestra þm. á þessum ákvæðum skattalaga. Þess vegna teljum við nauðsynlegt að þetta frv. nái fram að ganga með þeim breytingum sem við leggjum til, því að við teljum að með því að hafa ákvæði þessarar greinar í gildi sé verið að fremja ranglæti sem geti í mörgum tilfellum opnað leið til að brjóta eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, enda hefur þessum ákvæðum verið tekið ákaflega illa af skattþegnum landsins.

Yfir 2000 bændur sendu áskorun til ríkisstj. um að setja brbl. strax snemma í haust, sem afnemi þessa 59. gr. skattalaganna ásamt fyrirsögn greinarinnar, og kröfðust þess, að lögin yrðu gerð afturvirk þannig að sköttum — sem lagðir hafa verið á nú í ár á grundvelli þessa ákvæðis — verði breytt án kæru, eins og greinin hefði aldrei fengið lagagildi. Þeir segja í áskorun sinni til ríkisstj. að þeir telji að þessi grein laganna mismuni skattgreiðendum óhæfilega og að með slíku ákvæði sé skattyfirvöldum opnuð leið til að leggja tekjuskatt á annað en tekjur manna, eins og reynslan hefur sýnt að nú er gert. Hér hefur það skeð, að löggjafinn hefur afsalað sér hluta valdsins í hendur framkvæmdavaldsins, segja þeir, og opnað leið til stórfelldra brota á eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar í skjóli löggjafans. Slíkt má ekki henda í lýðræðisríki. Lagabrot ber að rannsaka og refsa þeim sem brotlegir reynast, en ekki setja lög, sem gera ráð fyrir að heilar stéttir séu andfélagslegar sinnaðir og skjóti sér undan skyldum sínum, og refsa þeim fyrir fram án tillits til þess, hvort um sök er að ræða eða ekki.

Þessi mótmæli voru afhent ríkisstj. og landbrh. lét hafa eftir sér, að honum virtist að það þyrfti gaumgæfilega að athuga þessa áskorun bænda um að nema þessa 59. gr. og skyldar greinar úr gildi. Hann segir í viðtali 15. okt.:

„Í framkvæmdinni hefur þetta reynst þannig, að þessi tekjuáætlun hittir aðeins efnaminni bændur og þá sem lent hafa í einhverjum erfiðleikum og óhöppum. Þeir, sem eru betur megandi og hafa stærri bú, munu á hinn bóginn ekki verða fyrir barðinu á þessu.“

Sömu sögu er að nokkru að segja um tekjuuppfærslu á skuldum sem ýmis dæmi benda til að komi ákaflega illa út. Þar er þó um miklu flóknari mál að ræða er þarfnast vandlegrar athugunar.

Fjmrh. skipaði nefnd í sumar til að athuga hvernig skattaálagningin hefði komið út fyrir bændur. Menn sögðu snemma á þessu hausti að eðlilegt væri að bíða eftir niðurstöðu þeirrar nefndar áður en horfið yrði að breytingum. Enn þá liggur þessi niðurstaða ekki fyrir. Það á því að bíða og endurtaka ranglætið við skattálagninguna aftur í vetur, skilst mér. Ég tel að það eigi ekki að bíða, þegar liggi ljóst fyrir hvernig þessu er háttað, hvernig framkvæmdaaðilar skattaálagningar líta á þetta ákvæði. Það gerir það að verkum, að bráðnauðsynlegt er að fella þetta ákvæði þegar úr gildi og þarf ekki eftir neinu að bíða með það.

Ég er hér með úrskurð eins skattstjóra fyrir framan mig á kæru um álögð gjöld á árinu 1980. Þar segir m.a.: „Aldur og einhver heilsubrestur valda því ekki sjálfkrafa, að víkja beri frá þeim.“ Þessi sami skattstjóri segir einnig: „Manni með óskerta starfsorku, sem vinnur venjulegan vinnutíma, þ.e. 40 stunda vinnuviku allt árið að frádregnu lögboðnu sumarleyfi, ber því að reikna laun samkv. viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra.“ Og svo bætir hann við: „Skiptir engu máli í því sambandi þó að tekjur hans séu litlar sem engar, t.d. vegna verðfalls vöru, skemmda á framleiðslu, ills árferðis, sölutregðu, vinna fáist ekki greidd, verið sé að vinna þarna upp nýhafna starfsemi eða verðbólga leikur atvinnurekstur grátt.“ Og embættismaðurinn bætir við: „Þó gætir að þessu leyti sérstöðu þegar ákvarða skal reiknuð laun bænda, að þá mun veðrátta að einhverju leyti tekin inn í dæmið, en þó ekki nema að takmörkuðu leyti.“

Í þessum sama skattaúrskurði segir: „Þá skiptir það heldur ekki máli, þó að tekjur séu sannanlega ekki meiri en framtal sýnir. Hér er ekki verið að reikna mönnum tekjur vegna dulinna skattsvika. Í því efni er rétt að benda á, að hinar reiknuðu tekjur teljast til rekstrarkostnaðar samkv. 2. mgr. 1. tl. 31. gr. laga nr. 40/1978 og tap, sem af þeim myndast, færist framreiknað til næsta reikningsárs.“ Svo kemur og er vitnað til okkar þm., til löggjafans: „Tilgangur löggjafans með lagaákvæðunum um reiknuð laun er hins vegar sá, að óháð allri afkomu manna af atvinnurekstri eða sjálfstæðri atvinnustarfsemi skuli reikna vinnu þeirra til verðs og greiða af því skatta til hinna sameiginlegu þarfa í þjóðfélaginu.“

Þarna hafa þm. það og þar með um leið skattþegnarnir í þessu landi, að þó að menn hafi alls ekki þessar tekjur, þá skal reikna samkv. viðmiðunarreglum sem ríkisskattstjóri hefur sett. Er hægt að hugsa sér meira óréttlæti en þetta. Þurfa þm. að hugsa sig tengur um áður en þeir gera það upp við sig, að það er háski á ferðum að hafa þetta ákvæði í gildi deginum lengur?

Það frv., sem hér liggur fyrir gerir ráð fyrir því í ákvæðum til bráðabirgða, að með því að þeir, sem vinna við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, hafa við álagningu á þessu ári hlotið hækkaðan skatt vegna ákvæða 2. mgr. 1. tölul. A-liðs 7. gr. og 59. gr. laganna, þá skuli sú hækkun felld niður. Og síðan segir í ákvæðum til bráðabirgða: „Jafnframt skal skattstjóri leiðrétta aðrar tilfærslur, sem gerðar voru vegna þeirra ákvæða, sem felld eru úr gildi með lögum þessum.“

Ég tel að þetta hafi ekki verið nógu vel athugað. Þegar gengið var frá skattalögum, þar sem tekið var inn að skattyfirvöld skyldu ákvarða laun tiltekinna þjóðfélagshópa og setja þeim skatt í samræmi við það, og þegar sást í hvað stefndi, þá fluttu sömu þm. sem þetta frv. flytja till. um að fella þetta niður við afgreiðstu frv. um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt frá 18. maí 1978 á síðasta þingi, en sú till. var felld. Síðan hefur þessi skattlagning átt sér stað á árinu 1980 með þeim árangri, sem skýrt var frá við 1. umr. þessa máls hér í hv. deild og augljós er af upplýsingum, sem fjölmargir þm. hafa fengið frá hinum ýmsu skattþegnum í landinu sem verða að búa við þetta og það bótalaust. Ég hygg að þeim, sem eru með föst laun, fá skattlagningu á sín föstu laun sem þeir telja fram, þætti hart ef allt í einu yrði tekin upp viðmiðunarregla um að ákvarða þessar tekjur eitthvað hærri og það mun hærri en þeir hafa og þeir ættu svo að borga skatt til viðbótar af þessum launum. Hér er verið að innleiða hættulegt fordæmi sem brýn nauðsyn er að afnema.

Hitt stendur óbreytt, að telji menn rangt fram og ætli að komast undan því að greiða skatta af tekjum sínum, þá verður auðvitað að vera á verði og fara vendilega yfir skattframtöl þeirra. En það má ekki gera með þeim hætti, að það séu teknar þúsundir skattþegna í landinu, sem eru alsaklausir, og þeir hengdir fyrir þá seku. Ég treysti því, að þó að þm. séu orðnir þreyttir og slæptir eftir erfiði undanfarinna daga og vikna, þá sé dómgreind þeirra með þeim hætti, að þeir viðurkenni að hér verður að verða breyting á. Og í trausti þess, að þm. almennt geri það, er ég kvíðalaus um að þetta frv. nái fram að ganga. Ég tel ekki neitt fengið með því að vísa þessu frv. til ríkisstj. Hún hefur í reynd haft frv. til umfjöllunar síðan snemma í haust, síðan áskorun um 2 000 bænda var send henni. Og hún hefur skipað þessa nefnd. En það er nú svo með allar þessar nefndir, að þær eru ekki að hraða störfum sínum. Og vildu nú ekki þm. hugsa til þeirra, sem gert hefur verið að greiða skatt af tekjum sem eru jafnvel allt að helmingi hærri en þeir hafa í reynd? Þeir eru píndir til að greiða sína skatta, og það eru takmörk fyrir því hvað þessir aðilar geta lengi beðið. Ég tek fram að hér er harkalega vegið að bændastéttinni. En það er líka harkalega vegið að ýmsum öðrum starfshópum og þjóðfélagshópum í landinu, og það er auðvitað ekki hægt að leiðrétta þetta fyrir einn hópinn nema hinir fylgi með. Það verður ekki gert með öðrum hætti en að fella niður þessi ákvæði í 59. gr. og breyta ákvæðum 7. gr. skattalaganna.