19.12.1980
Sameinað þing: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1769 í B-deild Alþingistíðinda. (1947)

178. mál, frestun á fundum Alþingis

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. vék að umræðum um þingfrestun fyrir jólin 1977, og tilgreindi ummæli stjórnarandstöðunnar, þm. Lúðvíks Jósepssonar og Gylfa Þ. Gíslasonar, við það tækifæri, þar sem þeir mæltu gegn þingfrestun. Ég hygg að það mætti tína til ýmis fleiri dæmi þar sem stjórnarandstaðan hefði mælt gegn þingfrestun vegna þess að tímarnir væru alvarlegir. En það stoðar ekki að leita slíkra fordæma í því máli sem við stöndum núna frammi fyrir, vegna þess að nú eru alveg sérstakar aðstæður vegna gjaldmiðilsbreytingarinnar sem ekki hafa verið áður. Og allt okkar tal núna og í öðrum samböndum varðandi þetta mál snýst um ráðstafanir í efnahagsmálum vegna gjaldmiðilsbreytingarinnar.

Herra forseti. Nú sé ég mér til skelfingar að hæstv. viðskrh. er farinn, hann hefur farið meðan ég sneri mér við. Ég ætlaðist alveg sérstaklega til að hann hlýddi á þetta mál mitt. (Gripið fram í: Hann er í húsinu.) Já, en mér nægir það ekki. (Gripið fram í: Dugar ekki fjmrh.?) Nei, ekki heldur, með fullri virðingu fyrir fjmrh. og öðrum viðstöddum ráðh. Ég ætla að leyfa mér að gera hlé á ræðu minni á meðan.

Herra forseti. Hæstv. viðskrh. gengur í salinn. Við höfum haft hér stutta þagnarstund sem undirstrikar alvöru þeirra orða sem ég ætla nú að mæla við hæstv. viðskrh.

Ég var kominn ræðu minni þar sem ég var að segja að það, sem við værum að deila hér um í þessum umræðum, væri hvort ríkisstj. ætlaði í þinghléi að gera boðaðar ráðstafanir í efnahagsmálunum í sambandi við gjaldmiðilsbreytinguna. Í fyrri ræðu minni í þessum umræðum vitnaði ég til ummæla hæstv. viðskrh. í umræðum 4. nóv. s.l., þar sem hann lofaði að mínu mati að ekki skyldu verða gerðar ráðstafanir í efnahagsmálunum í sambandi við gjaldmiðilsbreytinguna nema leggja þær fyrir hv. Alþingi. Ég ætla ekki að endurtaka þessar tilvitnanir, hæstv. viðskrh. hlýddi sjálfur.á þær fyrr í þessum umræðum. Hann hefur ekki vikið að því sem ég sagði um þetta efni og um að hann hefði gefið þetta loforð, þannig að samkv. venjulegum reglum ættum við að líta svo á að hæstv. ráðh. samþykkti skoðun mína á þessu loforði, því að þögn væri sama og samþykki. En mér þykir vegna mikilvægis málsins rétt að þrátt fyrir þetta lýsi hæstv. viðskrh. því beint yfir, að skilningur minn á loforði hans í umræðunum 4. nóv. sé réttur.