19.12.1980
Sameinað þing: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1834 í B-deild Alþingistíðinda. (1977)

1. mál, fjárlög 1981

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Þessari 3. umr. fjárlaga fer væntanlega senn að ljúka. Tuttugu og einn ræðumaður hefur tekið til máls, og klukkan er farin að halla fjórar mínútur í fjögur. Ég stend nú aðallega hér upp undir lokin til þess að þakka hv. fjvn. fyrir vel unnin störf og þm. fyrir ágætar umr. og líka til að skjalfesta það í þingtíðindum, að ég hafi ekki verið sofnaður þegar hér var komið sögu.

Ég held að margt mætti hér tína til sem ástæða væri til að drepa á, en sé þó ekki ástæðu til þess vegna þess hversu fáir eru nú eftir uppistandandi. (Gripið fram í: Er ekki rétt að telja þá upp?) Já, það mætti nú gera, en ætli þeir verði ekki að koma sér á skrá með öðrum hætti.

Ég vil aðeins láta þess getið vegna fsp., sem kom frá hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni og var raunar beint til heilbrmrh., hvort ekki væri hægt að haga útboði á framkvæmdum á Ísafirði með þeim hætti að um verulega stóran áfanga yrði að ræða og hvort ekki væri hugsanlegt að yfirlýsing fengist hér við umr. í þinginu um þetta atriði, að hér er um að ræða mál sem er flóknara en svo að hægt sé að gefa einhverja einfalda yfirlýsingu um það. Sá aðili, sem annast útboð verklegra framkvæmda af hálfu ríkisins, er framkvæmdadeild Innkaupastofnunar í umboði fjmrn. og samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir, og það hefur verið venja, ef um hefur verið að ræða að bjóða út verk sem væri verulega miklu stærra en fjárveiting er á viðkomandi ári, að þá hefur verið leitað til fjvn. um samþykki til þess, því auðvitað er verið að lofa framlögum fram í tímann með því að gera bindandi verksamning með þeim hætti. Hér þurfa því margir aðilar um að véla og ég held að það sé alls ekki við hæfi og ekki eðlilegt að neinar yfirlýsingar séu gefnar hér í umr. um þetta atriði, þó að auðvitað sé hins vegar sjálfsagt að taka málið til vinsamlegrar skoðunar og verður vafalaust gert, því að það er fleirum en hv. þm. ljóst, að þarna er mikið nauðsynjaverk á ferðum.

Annað atriði, sem ég vildi aðeins víkja að nokkrum orðum áður en ég lýk máli mínu, eru umr. um skattahlið frv. og tekjuhlið þess. Það er alveg rétt, sem hv. þm. Halldór Blöndal benti á áðan, að liðurinn eignarskattur einstaklinga í fjárlagafrv. hækkar býsna mikið miðað við fjárlög yfirstandandi árs. En auðvitað er skýringin á því ekki einfaldlega sú, að það standi til að herða skattheimtu eða auka hana. Þetta eru áætlunartölur og áætlunartölurnar eru miðaðar við gildandi skattalög, sömu skattalög og beitt var á s.l. ári, þarna verður engin sérstök breyting á. Hins vegar er það staðreynd, að í fjárlagafrv. fyrir árið 1980 var þessi tala verulega vanáætluð, og þess gætir þá auðvitað nú í samanburði milli ára, auk þess sem eignarskattur hækkaði talsvert mikið milli áranna 1979 og 1980 í krónum talið, fyrst og fremst vegna þess hvað verð á fasteignum hér á höfuðborgarsvæðinu hafði hækkað mikið milli ára og fasteignamat þar með.

Ég vil segja um tekjuskattinn, sem hér hefur líka komið nokkuð til umræðu, að það er greinilega talsvert mikill misskilningur á ferð hjá mönnum um þann skatt og kannske ekki að ástæðulausu vegna þess að þar eru lausir endar. Við verðum að játa það, stjórnarliðar, að við höfum ekki gengið frá tekjuskattsmálinu enn þá og þar hljóta því að vera nokkrir lausir endar. Eins og margoft hefur verið tekið fram hefur ekkí verið hægt að ráðast í það að ganga frá tekjuskattsmálunum vegna þess að fullnægjandi gögn um álagningu á liðnu sumri hafa ekki legið fyrir og menn hafa einsett sér að fara í þessa endurskoðun strax eftir áramót. Ég vil t.d. taka það fram, að þingflokkanefndin, sem tilnefnd var af þingflokkunum til að starfa í þessum skattamálum, hefur nánast ekkert gert og varla komið saman, og vil ég þó ekki kenna neinum einstökum um það út af fyrir sig. Þetta er bara staðreynd sem stafar af því að menn hafa verið að bíða eftir gögnum og ýmiss konar útskriftum og hafa beðið með að leggja vinnu í það þar til þau gögn lægju fyrir.

Það hefur mikið verið minnst á skattvísitölu í þessum umr. Ég held að það sé nú nokkuð klassískt viðfangsefni að deila um skattvísitölu í sambandi við afgreiðslu fjárlaga. Eins og kunnugt er, þá er skattvísitalan í þessu fjárlagafrv. miðuð við 45% tekjuaukningu milli ára, þ.e. skattvísitala hækkar úr 100 í 145, og skal fúslega viðurkennt að það er auðvitað í lægri kantinum miðað við það sem útlit er fyrir að kunni að verða raunveruleg tekjuaukning milli ára. En á móti kemur hitt, og það hefur kannske ekki komið nægilega skýrt fram hér í umr., að fjárlagatalan fyrir tekjuskattinn er ekki miðuð við þessa skattvísitölu, það er sem sagt ekki reiknað með fullum tekjum eins og skattalögin eru í dag og eins og skattvísitalan er. Þar skakkar 4 milljörðum kr. Ef fjárlagatalan hefði verið færð upp í fullu samræmi við þessa skattvísitölu og í fullu samræmi við núgildandi skattalög hefði tekjuhliðin í frv. hækkað um fjóra milljarða. (FrS: En af hverju er 7. gr. ekkert breytt?) Ástæðan til þess, að við höfum talið eðlilegt að hafa þetta svona, er sú, að þessi tekjuskattsmál eru enn til umr. og við teljum eðlilegt að það verði frekar skoðað hvaða breytingar á að gera á tekjuskattslögum og hvaða útgjöld það eigi að hafa í för með sér o.s.frv., en ekki að fara að kroppa í skattamálin á þessu stigi. En sem sagt, við reiknum með að miðað við núgildandi lög og þá skattvísitölu, sem er í frv., verði þarna slegið af sem nemur 4 milljörðum og það verði þá umræðuefni á næstu vikum að ganga frá því með hvaða hætti sá afsláttur á sér stað. Þetta vildi ég að kæmi hér skýrt fram, vegna þess að mér finnst margt, sem komið hefur fram hér í umr., bera vott um að menn hafi verið svolítið ruglaðir á þessu atriði.

Ég sé hér í þskj. nefndar ýmsar upphæðir í þessu sambandi. T.d. eru hv. þm. stjórnarandstöðunnar með töluna 6.5 milljarða, sem er tvítekin á sama blaðinu, og mér skilst að þeir séu þar raunverulega að tala um 13 milljarða. En þessar tölur eru byggðar á einhverjum misskilningi. Tölurnar eru einfaldlega þannig, að miðað við að allt væri reiknað á óbreyttum grundvelli hækkar álagningin um 13 milljarða, en raunverulegar innheimtutölur, sem er sú viðmiðun sem frv. grundvallast á, hækka ekki nema um 10 milljarða. Og þegar við erum svo búin að draga þessa 4 milljarða frá, sem ég var að nefna, hækkar þessi liður ekki nema um 6 milljarða.

Herra forseti. Ég gæti auðvitað vikið hér að fjöldamörgum öðrum atriðum, en þetta fannst mér mikilvægast að fram kæmi áður en umr. lyki. Ég lýk svo þessum orðum mínum með því að ítreka þakkir mínar til hv. fjvn.