10.10.1980
Sameinað þing: 1. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í B-deild Alþingistíðinda. (2)

Forseti Íslands setur þingið

Forseti Íslands (Vigdís Finnbogadóttir):

Hinn 26. sept. s.l. var gefið út svofellt bréf:

„Forseti Íslands gjörir kunnugt: Ég hef ákveðið samkvæmt tillögu forsætisráðherra að Alþingi skuli koma saman til fundar föstudaginn 10. október 1980.

Um leið og ég birti þetta, er öllum, sem setu eiga á Alþingi, boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur, og verður þá Alþingi sett að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni, sem hefst kl. 13.30.

Gjört í Reykjavík, 26. september 1980.

Vigdís Finnbogadóttir.

Gunnar Thoroddsen.

Forsetabréf um að Alþingi skuli koma saman til fundar föstudaginn 10. október 1980.“

Samkv. bréfi því, sem ég nú hef lesið, lýsi ég yfir því, að Alþingi Íslendinga er sett.

Við upphaf 103. löggjafarþings Íslendinga er vetur að ganga í garð og landið að unna sér stundarhvíldar með gæði sín geymd í jörðu. Samtímis takast hugir okkar á loft til andagiftar samkvæmt því óskráða íslenska lögmáli að vetur skal umfram sumar nota til andlegra íþrótta. Fyrrum beittu menn vetrarorku eftir sumarblíðu til að sigrast á örbirgð. Það stríð var unnið á þann veg, að ekki verður betur lýst en með því að vísa til lífskjara á Íslandi nú, þegar langt er liðið á 20. öld.

En hverri vegsemd fylgir vandi. Forfeðrum okkar hefur vafalaust fundist það efni í öfugmælavísu, að nokkurt torveldi gæti fylgt velmegun og lífsgæðum. Hvaða skáld hefði grunað að álíka þjóðfélagsleg vandræði og við eigum við að etja gætu fylgt því að eiga ríflega til hnífs og skeiðar?

Á þessu ári hef ég kynnst fleiri Íslendingum um allt land en almennt gerist í lífi einstaklings. Við þau kynni varð ég djúpt snortin af dugnaði þessarar þjóðar, vinnusemi, mannlegri hlýju og þeirri einlægu ósk hvers og eins að leysa megi vanda okkar til farsældar fyrir heildina og ekki hvað síst fyrir þá kynslóð sem koma skal.

Við Íslendingar erum svo skapi farnir að hver og einn vill fá að kveða sína vísu, hafa sína skoðun og koma henni dyggilega til skila, enda væri lífið hljómlítið væri þjóðarkórinn ekki margraddaður. En sameinuð hljótum við að standa andspænis sameiginlegum vanda okkar innbyrðis og gagnvart umheiminum, sem gerir okkur þann grikk að vera margraddaður líka. Um leið og við fáumst við eigin vanda í veröld, sem fer síminnkandi vegna aukinnar þekkingar og samskipta, verðum við að taka tillit til vaxandi vandamála umheimsins og það kann á stundum að ganga nær smáþjóð á jaðri heimskringlunnar en stórþjóðum, sem eru nær þungamiðju viðburðanna. Örðugleikar þeirra auka örðugleika okkar í hringrás viðskiptanna, og óeining annarra þjóða í miltum getur gert þjóð, sem ekki á í útistöðum við neina aðra þjóð, erfitt fyrir. Metnaður okkar verður að vera sá að hefja okkur yfir sameiginlegan vanda alls mannkyns með því að sýna eigin styrkleika og samstöðu. Það væri sómi okkar að sýna það fordæmi að fara með friði í þessu landi einhuga, samhent og sátt hvert við annað.

Bölsýni hefur löngum verið áleitnari en bjartsýni. Síðustu tímar eru jafnan verstu tímar. Hvernig má það vera að vont geti svo lengi versnað? Skyldum við eiga við okkur sjálf að sakast, — við sem búum að þeirri gjöf sem lýðræðið er?

Okkur hættir til að vanmeta lýðræðið. Það er vandmeðfarið og flókið í framkvæmd, einatt seinvirkt, en ég hygg að við séum öll sammála um að okkur beri skilyrðislaust að standa vörð um það, innbyrðis og gagnvart öðrum þjóðum. Lýðræðið er trygging okkar fyrir sjálfstæði.

Lýðræði er mikið og vandmeðfarið verðmæti. Í varðveislu þess reynir á þroska, skilning og tillitssemi okkar í garð hvers annars, en ekki síður gagnvart þjóðarheildinni í nútíð og framtíð, því sem við eigum saman, því sem gerir okkur að þjóð.

Það er ósk mín okkur til handa, þjóðarinnar í heild og ykkar, lýðræðiskjörinna þingmanna, sem hafið tekið á ykkur þá ábyrgð að handleika fjöregg þessarar þjóðar um sinn, að þið megið bera gæfu til að standa sem fastast saman og láta það, sem sameinar, sitja í fyrirrúmi fremur en ágreiningsefni, og setja þjóðarheill nú og um alla framtíð ofar stundarhagsmunum og flokkadráttum.

Þá þarf ekki að ugga um Ísland.

Ég bið þingheim og aðra viðstadda að rísa úr sætum og minnast ættjarðarinnar.

[Þingheimur stóð upp, og forsrh., Gunnar Thoroddsen, mælti: „Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lifi.“ Þingmenn tóku undir þessi orð með ferföldu húrrahrópi.]

Samkv. 1. gr. þingskapa ber nú aldursforseta að stjórna fundi þar til kosning forseta sameinaðs Alþingis hefur farið fram, og bið ég aldursforseta, dr. Gunnar Thoroddsen, 8. þm. Reykv., að ganga til forsetastóls.