29.10.1980
Neðri deild: 7. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í B-deild Alþingistíðinda. (211)

36. mál, tímabundið innflutningsgjald á sælgæti og kex

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er 36. mál og er flutt á þskj. 37. Það fjallar um staðfestingu á brbl. nr. 66 frá 5. september 1980, um sérstakt tímabundið innflutningsgjald á sælgæti og kex.

Eins og hv. þm. rekur eflaust minni til, ákvað fyrrverandi ríkisstj. að gefa innflutning á kexi frjálsan frá og með 12. des. 1979. Jafnframt ákvað hún að innflutningur á sælgæti skyldi gefinn frjáls í byrjun aprílmánaðar 1980. Ráðstöfun þessi leiddi óumdeilanlega fljótlega til gífurlega aukins innflutnings á þessum vörum og mun meiri innflutnings en get hafði verið ráð fyrir í upphafi. Til marks um þetta má nefna að fyrstu fimm mánuði þessa árs var flutt inn sælgæti fyrir um 485 millj. kr. eða fyrir andvirði 1291 þús. Bandaríkjadollara. Allt árið 1979 var hins vegar flutt inn sælgæti fyrir 456 millj. kr., sem jafngildir andvirði 1100 þús. Bandaríkjadollara. Innflutningur fyrstu fimm mánuði þessa árs var því orðinn meiri en innflutningur allt árið 1979, ef reiknað er í ísl. kr., og um 73% meiri, ef reiknað er í dollurum.

Hinn aukni innflutningur á sælgæti olli því, að sala innlendra sælgætisframleiðenda dróst stórlega saman. Talið er að samdráttur þessi hafi verið á bilinu 30–50% í marsmánuði s.l. miðað við sama tíma í fyrra. Samdráttur í sölu innlendrar sælgætisframleiðslu og samdráttur hjá innlendum kexframleiðendum hafði fljótlega í för með sér uppsagnir fjölda starfsmanna í þessum iðngreinum, einkum sælgætisiðnaði. Uppsagnir í þeim seinast nefnda. voru um tíma taldar nema 74 starfsmönnum. Ljóst var samkv. framansögðu að algert afskiptaleysi af þessari þróun hefði sennilega leitt til enn frekari samdráttar í inntendri framleiðslu, stöðvunar atvinnurekstrar og atvinnuleysis starfsmanna, sem óhjákvæmilega hefði hlotið að fylgja í kjölfarið.

Hin gífurlega samkeppni, sem iðngreinar þessar eiga í vegna innflutnings á sælgæti, kexi og öðrum slíkum vörum, liggur fyrst og fremst í fjölbreytni hliðstæðra vara sem eru fluttar inn, gífurlegri auglýsingastarfsemi í kringum innflutninginn og yfirleitt hvers konar svonefndri „markaðssetningu“ innflutta sælgætisins. Vandamálið virðist hins vegar ekki að öllu leyti vera óhagstæður verðsamanburður við innflutt sælgæti.

Aðlögun þessara iðngreina, einkum sælgætisiðnaðar, að breyttum markaðsaðstæðum með tilkomu aðildar Íslands að EFTA og fríverslunarsamnings við Efnahagsbandalag Evrópu virðist ekki hafa átt sér stað með eðlilegum hætti. Nánari athugun á málefnum þessara iðngreina leiddi m.a. í ljós, að ef innlendu fyrirtækin ættu að halda velli vegna hinnar auknu samkeppni, sem fríverslun hefur í för með sér, yrði að endurskipuleggja markaðsstarfsemi fyrirtækja í sælgætis- og kexiðnaði. Í öðru lagi þyrfti að koma til sérstök aðstoð vegna nauðsynlegrar vöruþróunar, þ. á m. vegna hönnunar umbúða. Í þriðja lagi þyrfti rekstrarhagræðing að koma til. Og í fjórða lagi væri nauðsynlegt að endurskipuleggja framleiðsluaðstöðuna. Til þess að hægt væri að koma slíkum aðgerðum fram var talið nauðsynlegt að gripa til tímabundinna aðgerða og var því ákveðið í samræmi við heimildir í samningum við EFTA og Efnahagsbandalagið að leggja tímabundið innflutningsgjald á sælgæti og kex.

Fyrirætlanir ríkisstj. í þessum efnum voru kynntar EFTA-ráðinu í ítarlegri skýrslu um þetta mál, og samþykkti EFTA-ráðið hinn 4. sept. s.l. sérstaka heimild til handa Íslandi á grundvelli 20. gr. fríverslunarsamningsins um að sérstakt tímabundið innflutningsgjald yrði lagt á þessar vörur. Samkvæmt samningi Íslands við Efnahagsbandalagið er m.a. heimilt að leggja allt að 40% varanlegan toll á sælgæti og 32% toll á kex. Efnahagsbandalaginu var í framhaldi af samþykkt EFTA-ráðsins tilkynnt um þessa ákvörðun ríkisstj. Samkvæmt frv., sem hér liggur fyrir, er leitað staðfestingar á þessum brbl.

Samkv. 1. gr. laganna er 40% innflutningsgjald lagt á ýmsar sælgætistegundir, en 32% innflutningsgjald á kex, í fullu samræmi við reglur Efnahagsbandalagsins, en um einstakar gjaldskyldar vörur vísast að öðru leyti til 1. gr.

Gert er ráð fyrir að gjaldið verði innheimt til 1. mars 1982, eins og fram kemur í 7. gr., en samkv. 6. gr. er hins vegar gert ráð fyrir að heimilt sé að undanþiggja einstakar vörur gjaldskyldu eða lækka gjaldið á einstökum eða öllum vöruflokkum ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.

Í frv. til fjárl. fyrir árið 1981, sem lagt hefur verið fram, er gert ráð fyrir að innflutningsgjaldið skili í ríkissjóð á árinu 1981200 millj. kr. Er þá tekið tillit til þess, að gera má ráð fyrir að töluvert dragi úr innflutningi þessara vara.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að lokum að leggja til að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjh.og viðskn. deildarinnar.