27.01.1981
Sameinað þing: 41. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1926 í B-deild Alþingistíðinda. (2168)

364. mál, fullorðinsfræðsla

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. mjög greinargóð svör sem fram komu í hans máli. Ég vil jafnframt þakka það yfirlit sem dreift hefur verið frá ráðuneyti hans og sýnir hvaða fullorðinsfræðslu við höfum að bjóða og þá vinnu sem lögð hefur verið á það að koma á heildarlöggjöf um fullorðinsfræðslu hér á landi.

Jafnframt fagna ég því sem fram kom í svari hæstv. ráðh., að hann hefur í hyggju að leggja fram á þessu þingi frv. til l. um fullorðinsfræðslu. En ég bendi á í því sambandi að það hefur fjórum sinnum verið lagt fram hér á þingi frv. til l. um fullorðinsfræðslu. Ég vil því leyfa mér að vona að í þetta skipti — þegar hæstv. menntmrh. væntanlega leggur þetta frv. fram hér á þingi — taki hv. alþm. höndum saman og afgreiði þetta mál, gefi sér tíma til að skoða þetta mál. Það hefur verið lögð — eins og ég segi — mikil undirbúningsvinna í málið, þannig að það ætti ekki að þurfa að líða á löngu þar til ráðh. leggur frv. um það fyrir þingið. Alþm. gæfist þá góður tími áður en þingi lýkur til að skoða málið, og við gætum því vænst þess, að frv. yrði að lögum á þessu þingi.