27.01.1981
Sameinað þing: 42. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1935 í B-deild Alþingistíðinda. (2175)

32. mál, rafknúin járnbraut

Flm. (Þórarinn Sigurjónsson):

Herra forseti. Vegna ummæla hæstv. ráðh. vil ég segja örfá orð.

Það virðist vera, að búið sé að athuga þennan þátt hvað varðar rafknúin farartæki og að fulltrúi hæstv. ráðh. í Orkustofnun hafi gefið skýrslu um það, hvort þetta mundi reynast hagstætt eða ekki hér á landi. Ég vil þó taka það fram, að mér finnst ólíklegt að búið sé að kanna svo alla þá þætti, sem að málinu lúta, að það sé ekki fyllilega ástæða til að sú athugun fari fram, sem hér er lagt til, eða a.m.k. hluti af henni, eins og við gerum ráð fyrir, flm. þessarar till. Ég tel að það séu margir þættir í þessu máli sem ber að taka tillit til.

Það kom fram hjá hæstv. ráðh., að það þyrfti að vera að lágmarki 100–200 km leið sem lögð væri, ef járnbraut ætti að borga sig. Flutningaleiðin þyrfti að vera það löng. Ég benti á leiðina austur yfir fjall og til Keflavíkur, og það er nú svo, að þó að það séu ekki nema 60 km austur á Selfoss er þó töluvert af Suðurlandinu eftir fyrir austan, og eins og ég benti á og vil sérstaklega undirstrika eru þessar byggðir eingöngu háðar þjóðvegakerfi landsins og verður því að taka tillit til þess og þeirra félagslegu ástæðna sem þessar byggðir hafa. Það eru þær byggðirnar sem veita þéttbýlinu við Faxaflóa langsamlega stærstan hluta af þeim landbúnaðarvörum sem það þarf og þess vegna er líka mikilsvert að þessir flutningar bregðist ekki og þeir séu sem ódýrastir.

Við, sem lögðum þessa till. fram, teljum að hugsanlega sé hægt að gera þessa flutninga ódýrari, m.a. á þessari leið og líka hérna í kringum aðalþéttbýlið. E.t.v. er hægt að sýna fram á annað, en þó tel ég að það hafi ekki komið nægilega fram hjá hæstv. ráðh., og þarna er auk þess um gífurlega stórt öryggismál að ræða sem er gjaldeyrissparandi líka. Við eigum að nota okkar innlendu orkugjafa. Kannske getum við farið að framleiða innlent brennsluefni á bíla og flutningatæki. En ætli það verði ekki dýrt líka, svo að ég býst við að þarna geti verið um mál að ræða sem væri verulega þess virði að athuga það gaumgæfilega. Ég legg þess vegna mjög eindregið til þess að þessi till. verði samþykkt, henni fyrst vísað til nefndar, og að þessi athugun fari sem allra fyrst fram.