28.01.1981
Neðri deild: 45. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1964 í B-deild Alþingistíðinda. (2208)

151. mál, þingsköp Alþingis

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Þar sem farið er að ræða starfshætti Alþingis og hér hefur verið bryddað á þeirri hugmynd, hvort ekki sé rétt að Alþingi sitji allt árið, þá vil ég mjög taka undir að það mál sé athugað í fullri alvöru og því fylgt eftir með viðeigandi breytingum á stjórnarskránni. Við höfum orðið vör við það nú á s.l. ári, að tvívegis voru gefin út brbl. Í annað skiptið voru það brbl. varðandi fóðurbætisskatt, sem fyrir lá á þeim tíma að ekki hefðu náð fram að ganga á Alþingi, ef þing hefði setið, þar sem m.a. hv. 2. þm. Norðurl. e., Stefán Valgeirsson, lýsti sig andvígan þeim fóðurbætisskatti þá strax, og ástæða er til að ætla að fleiri þm. Framsfl. hefðu a.m.k. ekki stutt það frv.

Ég vil enn fremur benda á það, að í brbl., sem gefin voru út hinn síðasta dag desembermánaðar s.l., er í 5, gr. gert ráð fyrir að breyta verðbótareglum á laun hinn 1. mars n.k. Það er náttúrlega augljóst, að enga nauðsyn bar til að breyta þessu ákvæði með brbl. þá þegar. Eðlilegra hefði verið að leggja fram frv. þess efnis nú, þegar þingið er komið saman, og verður fróðlegt að fylgjast með því, hvort Alþingi fær að fjalla um þetta mál og afgreiða það áður en skerðingin á kaupgjaldinu kemur til framkvæmda.

Ég hef ástæðu til þess að ætla að ríkisstj. ætli sér ekki að láta þetta mál ná fram að ganga á Alþingi fyrir 1. mars, og meira að segja hafa tveir af stuðningsmönnum ríkisstj. sagt við mig að enga nauðsyn beri til að afgreiða þessi brbl. áður en skerðingin gengur í gildi. Kannske eigum við eftir að lifa það, að þessi skerðing verðbótavísitölunnar 1. mars verði aldrei samþykkt á Alþingi. Kannske verður þetta látið danka fram í maí og þá afgreitt með hvers konar hrossabrögðum.

Ég vil ennfremur minna á það, að sumarið 1979 voru sett brbl. um gerðardóm á sjómenn. Þessi brbl. komu aldrei til afgreiðslu Alþingis. Það reyndi aldrei á hvort meiri hluti Alþingis stóð á bak við þá lagasetningu. Það er hægt að fallast á það, að á sínum tíma hafi verið nauðsynlegt að láta ríkisstj. hafa vald til útgáfu brbl. Eins og samgöngum er nú háttað eru viðhorf í því efni gerbreytt, og ég álít að það sé óhjákvæmilegt fyrir alþm. — vegna þess hversu mikil lausung hefur ríkt í útgáfu brbl. — að taka það til vandlegrar íhugunar, hvort ekki sé rétt að svipta ríkisstjórnir í eitt skipti fyrir öll valdi til að gefa út brbl. Þannig hefur misbeitingin á þessum rétti verið á undanförnum árum, sívaxandi lausung og óheilindi, sem síðan hefur bitnað á fólkinu sjálfu, grafið undan trausti á þingræði í landinu og orðið til lítils sóma fyrir þá menn sem hafa verið hálfa ævina formenn stjórnarskrárnefnda í nýju lýðveldi hér á landi.

Ég vil þess vegna mjög taka undir þau ummæli sem hér hafa fallið um það, að Alþingi eigi að vera að störfum sem mestan hluta ársins. Ef nauðsyn ber til að setja nýja löggjöf er sjálfsagt að kalla Alþingi saman til þess að fjalla um þá löggjöf. Reynslan hefur sýnt að ef á liggur stendur ekki á alþm. að láta hendur standa fram úr ermum. Ég vil einnig minna á það, að mjög vaxandi eru þær raddir og háværar í þjóðfélaginu sem telja eðlilegt að ráðherrar láti af þingmennsku um leið og þeir setjast í ráðherrastólana. Með því mundi sparast sá aragrúi af vararáðherrum og alls konar sérfræðingum, starfshópum og nefndum sem hreiðrað hafa um sig hér uppi í Stjórnarráðinu, en á hinn bóginn yrði þingræðið tryggara í landinu. Það gefur t.d. skrýtna mynd af störfum Alþingis nú, að ef einn af þeim ráðherrum sem nú sitja forfallaðist, veiktist, þá mundi ríkisstj. um leið verða óstarfhæf vegna þess að sá sem kæmi inn í staðinn, er í stjórnarandstöðu. Þetta lýsir með öðru hvernig þingræðið er orðið. Og eins og ég sagði áðan eru þau brbl., sem út hafa verið gefin, til þess fallin að grafa undan trausti á lýðræðinu.