02.02.1981
Efri deild: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2041 í B-deild Alþingistíðinda. (2258)

193. mál, viðnám gegn verðbólgu

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Þegar hefur hér verið gerð grein fyrir afstöðu Alþfl. til þess frv. til staðfestingar brbl. sem hér er nú til umr. Á jólaföstunni var hér á Alþ. spurt og spurt um það, hvað ríkisstj. hygðist gera til lausnar aðsteðjandi efnahagsvanda og til þess að ráðast gegn verðbólgunni. Svör fengust þá engin nema í hæsta lagi einhvers konar útúrsnúningar. Auðvitað var það eðlilegt að á þeim tíma fengjust engin svör frá hæstv. ríkisstj., vegna þess að síðan er komið í ljós að þá var engin samstaða um hvað gera skyldi. Það var ekki farið að setja neitt á blað á Þorláksmessu, það var engin samstaða um til hvaða ráðstafana skyldi grípa. Og það var raunar ekki fyrr en á gamlársdag sem einhvers konar samkomulag náðist. Þá, á síðasta degi ársins, kom hæstv. forsrh. í sjónvarpið næst á undan sirkusþætti og áramótagríni og flutti þjóðinni boðskap sinn. Og hver var sá boðskapur? Enn einu sinni átti að skerða kaupið eitt, enn einu sinni bráðabirgðabjörgun til þess að minnka verðbólguna á fyrri hluta árs, en auka hana svo aftur á síðari hluta árs, eins og sumir stjórnarsinnar hafa hreinskilnislega orðað það.

Hæstv. forsrh. flutti þjóðinni brbl. í nýársgjöf, — lög sem kveða nánast á um það eitt að skerða kaupið — jú, og raunar líka að framlengja aðlögunartíma vaxta um eitt ár. Og ekki má í leiðinni gleyma því, að hæstv. forsrh. boðaði líka í boðskap sínum til þjóðarinnar á gamlárskvöld verðstöðvun — rétt eins og honum og raunar ríkisstj. allri væri um það ókunnugt með öllu að slík verðstöðvun hefur verið í gildi allan Framsóknaráratuginn og haft slík áhrif að verðhækkanir hafa aldrei verið jafnmiklar á nokkru tímabili í sögu þessa lands. Og hvernig er svo þessi verðstöðvun í framkvæmd? Varla líður sá dagur nú um þessar mundir að ekki séu tilkynntar nýjar verðhækkanir, brauð í gær, fargjöld með almenningsvögnum í fyrradag, póstburðargjöld daginn þar áður, og sjálfsagt verður líka eitthvað á morgun. Og svona rétt til dæmis um það, hvernig þessari verðstöðvun verður framfylgt, þá veit ég ekki betur en að t.d. í fjárhagsáætlun einnar af stærstu ríkisstofnunum, Ríkisútvarpsins, sjónvarps og hljóðvarps, sé gert ráð fyrir því, að gjald fyrir auglýsingar hækki á þessu ári um næstum því 70%. Þannig verður verðstöðvunin í framkvæmd þar.

Auðvitað er þetta verðstöðvunarhjal ríkisstj. hrein blekking. Í óðaverðbólgu eins og hér ríkir nú er ekkert til sem heitir verðstöðvun. Allt tal um verðstöðvun nú, eins og raunar mörg dæmi undanfarinna daga sanna, er sýndarmennska af allra ómerkilegast tagi. Það er hægt að fresta verðhækkunum, en í því ástandi, sem nú ríkir í þessu þjóðfélagi, er ekki um það að ræða að það geti verið nein verðstöðvun. Hélt ég raunar að menn þyrftu ekki að líta mörg ár aftur í tímann til þess að komast að raun um það. Með svokallaðri verðstöðvun geta menn byggt sér svolitla stíflu sem er dæmd til þess að bresta fyrr eða síðar, og flæða þá þær hækkanir yfir sem tafðar hafa verið. Það er ekkert um það að ræða í þessu ástandi að stöðva verðhækkanir, og raunar eru í ákvæðum um verðstöðvun heimildir til margvíslegra verðhækkana sem auðvitað munu verða og hafa verið að skella yfir og eiga eftir að skella yfir. Mergurinn málsins er sá og það er það, sem ríkisstj. áreiðanlega treystir á, að í óðaverðbólgu eins og hér ríkir nú er verðskyn almennings orðið svo brenglað að menn eru hættir að kippa sér upp við það þó að sama vara kosti eitt í dag og eitthvað annað á morgun og eitthvað enn annað þegar hún er keypt í þriðja sinn.

En það var ekki nóg með að hæstv. forsrh. boðaði þjóðinni brbl. Hann birti landslýðnum líka langan loforðalista, eins konar framhald við stjórnarsáttmálann sem birtur var þegar þessi ríkisstj. leit dagsins ljós. Þetta var kallað efnahagsáætlun ríkisstj. Þegar horft verður til baka verður það líklega eftirminnilegast af ferli þessarar ríkisstj., að hún gerði ekki neitt nema að skerða kaupið, en gaf út í eins konar framhaldssöguformi loðnar loforðayfirlýsingar sem hún kallaði efnahagsstefnu. Það var því ekki nema von að það væri heldur með lægra móti risið á hæstv. forsrh. er hann mælti fyrir þessu frv. áðan. Það var raunar ekki að heyra að mikill hugur fylgdi þar máli. Það var tæpast að heyra að hann sjálfur, hæstv. forsrh., hefði trú á því, að þessar aðgerðir mundu skila einhverjum árangri.

Á jólaföstunni var hér beint margvíslegum spurningum til hæstv. forsrh. Það var ekki aðeins að hann væri spurður þá, heldur hefur hann og verið spurður nú. Og þótt engin svör hafi enn borist, þá verður að treysta því, að hæstv. forsrh. muni í þessum umr. svara þeim spurningum sem til hans hefur verið beint. Annað væri, held ég, lítil kurteisi við þessa hv. deild.

Þær aðgerðir, sem um áramótin voru boðaðar, eru skammtímaaðgerðir, bráðabirgðaaðgerðir sem aðeins er ætlað að endast í örfáa mánuði. Hvað svo tekur við veit enginn. Um það er spurt, en við því hafa ekki fengist svör. En það er vissulega ástæða til að spyrja hæstv. forsrh. fleiri spurninga og endurtaka sumar af þeim spurningum sem fram hafa verið bornar nú þegar í þessum umr.

Í fyrsta lagi segir, með leyfi forseta, í efnahagsáætlun ríkisstj.: „Viðræður verði hafnar við samtök launþega og aðra hagsmunaaðila atvinnulífsins um framkvæmd samræmdrar stefnu í kjaramálum, atvinnumálum og efnahagsmálum til næstu tveggja ára.“ Þetta er ekki lítið. Og nú spyr ég hæstv. forsrh.: Eru þessar viðræður hafnar? Hvenær hefjast þær, ef þær eru ekki þegar hafnar?

Í öðru lagi stendur hér: „Stefnt verði að almennri lækkun vaxta 1. mars.“ Og ég tek undir þær spurningar sem hér hafa fyrr verið fram bornar: Hvað verður gert í sambandi við vextina 1. mars? Það er þegar ljóst, hvað Seðlabankinn hefur lagt til. Það er töluvert annað en stendur í efnahagsáætlun ríkisstj. Hvað ætlar ríkisstj. að gera? Ætlar hún að standa við þetta loforð sem þjóðinni var gefið í lok liðins árs og þegar nýtt var í þann veginn að ganga í garð? Ætlar ríkisstj. að standa við þetta, að lækka vexti 1. mars?

Í þriðja lagi segir í svonefndri efnahagsáætlun:

„Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins skal útvegað fjármagn til þess að tryggja eðlilega afkomu fiskvinnslunnar.“ Ég spyr hæstv. forsrh.: Hvaðan á það fjármagn að koma? — Þar segir ráðherrar Framsfl. eitt, ráðherrar Alþb. annað, og kannske segir hæstv. forsrh. okkur hér það þriðja. Það væri svo sem eftir öðru.

Í fjórða lagi segir í efnahagsáætlun ríkisstj.: „Á hliðstæðan hátt verður útvegað fjármagn til að tryggja afkomu samkeppnisiðnaðar og útflutningsiðnaðar.“ Og ég spyr: Hvaðan á það fjármagn að koma? Með hverjum hætti verður það útvegað?

Í fimmta lagi segir hér: „Vegna íbúðabygginga og kaupa skal stefnt að því að breyta skammtímalánum og lausaskuldum í föst lán til lengri tíma.“ Er undirbúningur þessara aðgerða hafinn? Ef svo er ekki, hvenær er þess þá að vænta, að aðgerðir í þessum efnum verði tilkynntar?

Í sjötta lagi segir í þessari efnahagsáætlun: „Ríkisstj. mun stuðla að innkaupum í stórum stíl.“ Við hvað er átt með þessu? Starfar ekki sérstakt fyrirtæki á vegum ríkisins til að annast innkaup á vegum ríkisins og ríkisstofnana? Hvaða glamur er þetta sem hér er á ferðinni: Stuðla að innkaupum í stórum stíl? Er einhver nýbreytni hér á döfinni? Á að stofna enn nýja Innkaupastofnun ríkisins eða hvað?

Ég er svo sem ekkert sérlega bjartsýnn á það að fá nein svör yfirleitt við þessum spurningum, en það sakar ekki að spyrja samt. Ég er ekki bjartsýnn á það, vegna þess að ríkisstj. hefur ekki komist að neinni niðurstöðu um það, hvað eigi að taka við eftir þann skamma tíma sem þessar ráðstafanir eiga að endast. Um það virðist ekki vera nein eining í ríkisstj.

Margumtöluð niðurtalning þeirra framsóknarmanna úr síðustu kosningabaráttu er nú grafin og gleymd. Samráðið við launþegasamtökin, sem hafa skyldi að leiðarljósi, er líka grafið og gleymt. Ég held að seta Framsfl. og stefna í þessari ríkisstj., stuðningur Framsfl. við þessa ríkisstj. og stefnu hennar séu einhver stórkostlegustu kosningasvik sem sögur fara af í langan tíma. Og meðan jarðarför niðurtalningarstefnunnar fer fram og loforðin um samráð eru greftruð hefur formaður Framsfl., hæstv. sjútvrh., að því er virðist það þarfast að gera að skemmta sér á skíðum suður í Pýreneafjöllum eða guð má vita hvar.

Það hefur mikið verið um það rætt nú á síðustu dögum, hve ríkisstj. þessi njóti mikils fylgis meðal almennings. Málgagn ríkisstj., Dagblaðið, framkvæmdi skoðanakönnun fyrir nokkru. Til hennar hefur tíminn væntanlega sérstaklega verið valinn þannig að mátulega langt væri liðið frá því að aðgerðir voru tilkynntar og hæfilega langt þar til þing kæmi saman. Ýmsir hneigjast til að taka verulegt mark á þessu, þótt þetta blað sé engan veginn hlutlaus aðili að málinu þar sem það hefur marglýst stuðningi sínum við þessa ríkisstj. En sé niðurstaða þessarar skoðanakönnunar, ef svo má kalla, rétt eða marktæk, þá bendir hún óneitanlega til að ríkisstj. hafi á þeim tíma, sem þessi könnun varð gerð, notið verulegs stuðnings. En svolítið er þetta nú andkannalegt raunar allt saman. Þegar samningar tókust hér á s.l. hausti var þessi ríkisstj. líka feiknalega vinsæl. Henni var þakkað það, að nú skyldu nást samningar án þess að til verulegra átaka kæmi á vinnumarkaðinum og án þess að kæmi til vinnustöðvana. Þá var stjórnin feiknavinsæl. Nú, þegar stjórnin hefur með brbl. tekið aftur það sem um var samið, afnumið kauphækkunina, þá er hún samkv. skoðanakönnun Dagblaðsins vinsælli en nokkru sinni fyrr. Ég held að það sé svolítið erfitt að koma þessu heim og saman.

Víst er það, að almenningur í þessu landi er reiðubúinn til að taka á sig nokkrar byrðar, og fólk var við því búið, að til aðgerða yrði gripið um þessi áramót. En ég held að fólk vilji alvöruaðgerðir, aðgerðir sem eru líklegar til að bera árangur, en ekki kák af því tagi sem hér er um að ræða.

En það skyldu menn hafa í huga, að almenningsálitið getur verið hvikult. Það getur verið fljótt að breytast. Það var t.d. athyglisvert fyrir þá, sem voru staddir vestur í Bandaríkjunum um það leyti sem Bandaríkjamenn kusu sér forseta, að í því landi þar sem menn eru taldir lengst komnir í þeirri list að skoða hug almennings og segja fyrir um úrslit kosninga var það svo daginn fyrir kosningar að hver fréttastofnunin og skoðanakannanastofnunin á fætur annarri lýsti þeirri skoðun, að bilið milli frambjóðendanna væri svo mjótt að enginn vegur væri að segja fyrir um það, hvor þeirra mundi bera sigur úr býtum. En hvað gerðist? Sá sem nú gegnir forsetaembætti í Bandaríkjunum sigraði með svo miklum yfirburðum, að leitun er á öðru eins í sögu forsetakosninga þar í landi. Ég held að þó að það sé ánægjulegt fyrir stjórnina hvað Dagblaðið telur hana njóta mikils stuðnings, þá sé valt á það að treysta, það sé valt veraldargengið í þeim efnum sem kannske ýmsum öðrum. Tíminn og auðvitað næstu kosningar munu umfram allt skera úr um vinsældir þessarar ríkisstj. Og þótt helsta stuðningsblað hennar geri sér nú nokkurn sölumat úr svonefndri skoðanakönnun og treini sér hana dag eftir dag, þá held ég að það sé vart á henni að byggja.

Það frv., sem hér er til umr., er þannig vaxið, að við Alþfl.-menn höfum lýst andstöðu okkar við það í núverandi mynd. Þetta frv. er ófullburða og það er undirstöðulaust eins og raunar öll efnahagsstefna þessarar hæstv. ríkisstj. Þetta frv. miðar einungis að því að tryggja ráðherrunum sæti í fáeina mánuði í viðbót. Þar er hvergi tekið heildstætt á þeim vandamálum sem við er að fást, og þetta frv. leysir engan vanda. Það skyldi þó aldrei vera svo, að það magnaði heldur þann vanda, sem við er að fást?