02.02.1981
Neðri deild: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2049 í B-deild Alþingistíðinda. (2264)

Umræður utan dagskrár

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. í nóvembermánuði s.l. lögðum við tveir þm., ég og hv. 7. landsk. þm. Halldór Blöndal, fram frv. hér í deildinni á þskj. 78, það er 72. mál, en það er um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt og snertir heimildir til að draga vexti frá tekjum áður en tekjuskattur er lagður á tekjur manna. Ég skal ekki fara nánar efnislega út í frv. hér. Þessu frv. var 17. nóv. vísað til hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar. Síðan hefur málið ekki komið á dagskrá aftur og þess vegna vil ég spyrja formann þessarar n., hv. 3. þm. Austurl., hvað líði meðferð nefndarinnar á þessu máli og hvort ekki megi vænta þess, að málið komi fljótlega til meðferðar hér í deildinni að nýju.

Ástæðan fyrir því, að ég spyr um þetta, er sú, að í síðustu viku mælti hæstv. fjmrh. fyrir frv. sem snerti sama efni. Að vísu gengur tillaga hans mun skemur en sú tillaga sem við Halldór Blöndal bárum fram, en engu að síður er frv. fjmrh. um breytingu á sömu grein í skattalögum og við gerðum tillögu til breytinga á. Hæstv. fjmrh. lagði mikla áherslu á það í Ed., þegar hann mælti fyrir þessu máli þar, að deildin hraðaði afgreiðslu málsins. Hann lagði mikla áherslu á að þetta mál fengist afgreitt sem lög frá Alþingi áður en framtalsfresti lýkur, en honum mun ljúka 10. febrúar.

Ég held að það sé mjög nauðsynlegt, vegna þess að hér er um að ræða mál sem mikið hefur verið rætt um í þjóðfélaginu, m.a. urðu miklar umræður um þetta meðal almennings þegar frv. okkar Halldórs Blöndals var lagt fram, að úr því verði skorið hér á hv. Alþingi, hvort fylgi er fyrir þeim tillögum sem við Halldór Blöndal flytjum um breytingu á skattalögunum, því þetta snertir verulega þá álagningu sem fram mun fara á þessu ári. Ég vil þess vegna ítreka fyrirspurn mína til hv. 3. þm Austurl. um leið og ég legg á það mikla áherslu, að nefndin hraði afgreiðslu þessa máls, komi því hér inn í deildina aftur þannig að þm. geti tekið afstöðu til þess sem fyrst.