02.02.1981
Neðri deild: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2055 í B-deild Alþingistíðinda. (2273)

Umræður utan dagskrár

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður þar sem hér er verið að ræða atriði sem ekki eru á dagskrá. en að gefnu tilefni vegna þess að fram er komið stjfrv. um sama efni og frv. sem liggur hjá hv. nefnd í þessari deild.

Vegna þess að hæstv. fjmrh. hefur gefið okkur kost á að spyrja sig og vill greinilega gjarnan koma skilaboðum hæstv. ríkisstj. á framfæri nú um þessar mundir, þegar brátt fara að birtast framtalsseðlar til almennings, er ástæða til að spyrja hann enn frekar um örfá atriði.

Það er í fyrsta lagi spurt hvort ljóst sé að skattvísitalan verði óbreytt frá því sem er í fjárlögum, en það þýðir gífurlega skattþyngingu og langt umfram þær tölur sem greinir í fjárlögum.

Í öðru lagi spyr ég hvort það hafi verið rétt hermt og hvort ekki sé um misskilning að ræða þegar hæstv. ráðh. kallaði það í útvarpi skattalækkun á tekjuskatti, eignarskatti og sjúkragjaldi þegar hann sagði að notaðir mundu verða 7 milljarðar til að endurgreiða. Ljóst er að á föstu verðlagi, þ.e. þegar tekið hefur verið tillit til verðbólgunnar, er hækkun á þessum sköttum annað eins á milli ára. Ég spyr hvort þetta sé misskilningur eða hvort hann eigi við raunverulega skattalækkun.

Og loks spyr ég um það, sem kannske skiptir máli fyrir þessa stund, hvort framtalsfrestur verði ekki örugglega lengdur þegar ekki liggur fyrir hvaða stefnu ríkisstj. hyggst fylgja varðandi vaxtafrádráttinn og Alþingi hefur ekki fengið tækifæri til að fjalla um það mál. Eins og allir vita eiga framteljendur samkvæmt skattalögunum þess völ hvort þeir telja fram vexti til frádráttar eða hvort þeir nota 10% frádráttarregluna. Slík atriði þurfa að sjálfsögðu að liggja fyrir áður en þeir, sem greiða skatta, skila framtalsseðlum sínum. Eftir rúma viku, hinn 10 febr., eiga framtalseyðublöðin að vera komin í hendur skattstjóra. Ekkert liggur fyrir um afstöðu ríkisstj. Þess vegna er spurt, þar sem hæstv. ráðh. hefur verið svo vinsamlegur að gefa kost á slíkum spurningum og hann á þakkir skildar fyrir það, hvort ekki sé öruggt að framtalsfrestur verði lengdur vegna seinagangs og aðgerðaleysis ríkisstj.