30.10.1980
Sameinað þing: 12. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í B-deild Alþingistíðinda. (230)

16. mál, rafknúin samgöngutæki

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Það á máske ekki illa við, að í kjölfar þeirrar umr., sem hér fór fram fyrir stuttu, verði einmitt rædd sú till. sem ég hef leyft mér að flytja á þskj. 17 ásamt hv. þm. Sverri Hermannssyni.

Þetta er ekki nýtt mál hér í þingsölum. Ég flutti þetta mál fyrst ásamt fleiri þm. 1971, að mig minnir, í stjórnartíð Magnúsar Kjartanssonar þáverandi orkumálaráðherra, sem á margan hatt var með athyglisverðar tillögur uppi í sambandi við nýtingu orku okkar, þótt að mínu mati hafi kannske verið eitt það athyglisverðasta, að hann hélt ótrauður áfram á braut viðreisnarstjórnarinnar í sambandi við mótun stóriðjustefnu, og á ég þar að sjálfsögðu við forgöngu hans í sambandi við járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði. En það mál ætla ég ekki að ræða nú, heldur það, að í sambandi við athyglisverða tillögu hans um frekari og betri nýtingu orku hér innanlands — okkar eigin orku — flutti ég þessa tillögu, þá tillögu, að við ættum að athuga mjög alvarlega um hagkvæmni þess að við kæmum upp okkar eigin samgöngukerfi sem knúið væri með raforku.

Eins og segir í hinni gömlu grg., sem fylgdi þáltill., var ekki eingöngu átt við að við færum hér um næsta þéttbýli. Það kom fram í umr. þá m.a. þessi sígildi hringur, sem örugglega má telja að gæti orðið hagkvæmur fyrir slíkt flutningakerfi. Þá á ég ekki aðeins við Reykjavík, Suðurnes og jafnvel austur sveitir allt að Selfossi og til baka, heldur líka ýmsa staði úti um land og þ. á m. tengingu staða þar.

Sú skoðun mín, að þetta eigi að kanna, hefur fengið aukinn stuðning á síðustu tímum við þær miklu umræður sem hafa orðið um að það eigi að fara að virkja stórt fyrir orkufreks iðnaðar. 342 austan eða fyrir norðan eða á báðum stöðunum, eins og kom fram hjá einum bjartsýnismanninum úr þingflokki þeirra Alþfl.-manna sem talaði áðan. Alveg sama er hvað verður ofan á, hvort virkjað verður á öðrum hvorum þessara staða eða báðum. Ljóst er að það verður ekki gert öðruvísi en í kjölfarið fylgi einhver iðnaður, einhver framleiðsla á staðnum sem nýtur meginhluta orkunnar. Og þótt við séum hér í orðaleik um, hvað sé stóriðja eða hvort það sé aukinn iðnaður í þá veru sem við þekkjum iðnað hér á Íslandi, þá er enginn vafi á því, að þetta mun teljast stóriðja á þessum stöðum, á þessum landsvæðum, miðað við það sem nú þekkist. Þessi atvinnustarfsemi, hver sem hún verður og í hvaða formi sem hún verður, mun kalla á meira vinnuafl en til verður á hverjum einum stað á þessum landsvæðum. Það vita allir og hafa allir gert sér ljóst, að það hlýtur að teljast mjög óæskilegt að slíkar framkvæmdir kalli á mikinn tilflutning vinnuafls frá einu byggðarlagi til annars eða frá einum byggðarkjarna til annars. Tökum nærtækt dæmi eða áþreifanlegt dæmi: Ef risi það sem við köllum á okkar mælikvarða stóriðja á Reyðarfirði þyrfti að kalla til og yrði leitað eftir fólki frá nálægum byggðarlögum, eins og Egilsstöðum, Eskifirði, Neskaupstað og Fáskrúðsfirði. Við vitum að það liggja óhemjumikil verðmæti í eigin húsnæði fólks á þessum stöðum svo og í skólahúsnæði og öðrum þjónustustofnunum og væri ákaflega óæskilegt að raska um of þeirri búsetu sem þar er, jafnvel þótt slíkt fyrirtæki risi á stað eins og Reyðarfirði. Því held ég að það væri ákaflega æskilegt strax í byrjun að gera ráð fyrir hagkvæmum, skynsamlegum samgöngum á milli þessara staða, sem byggðust á þeirri orku sem verið væri að framleiða og á að vera undirstaða undir þær nýju atvinnugreinar sem vonandi rísa í kjölfar stórvirkjunar.

Ég reyndi við afgreiðslu síðustu fjárlaga að fara nokkuð aðra teið en ég hef farið á undanförnum árum þegar ég hef flutt þessa till. Ég reyndi að fara þá leið að fá samþykktar brtt., sem ég flutti við afgreiðslu fjárlaga, þess efnis að Alþ. samþykkti að veita ákveðna upphæð í því skyni sem er ætlað með þessari tillögu. Meiri hl. Alþingis felldi till. mína og vildi ekkert með hana gera, þótt stuttu síðar kæmi fram á Alþ. þáltill. sem gengur í sömu átt, flutt af nokkrum þeim þm. sem felldu þessa till., um að veita fé til sams konar málefna. Það hefur kannske vakið enn meiri furðu mína, að eftir að ég flutti þessa till. tókst einum prófessor við Háskóla Íslands að fá fjármuni í sínar hendur til að kaupa svokallaðan tilraunabíl — rafmagnsbíl sem notaður er hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu til könnunar, eins og kallað er, og rannsókna, þótt ég sjái enga ástæðu til að kanna slíkt frekar. Slíkir bílar eru fyrir löngu þekktir í hinum vestræna heimi, í Vestur-Evrópu og vestan hafs, og líka í Asíu og ekki síst í Japan, þannig að við þurfum ekki að gera neinar slíkar tilraunir hér heima. En það vekur furðu mína að það skuli vera hægt að ná slíkum fjármunum út úr ríkiskerfinu án þess að það gangi nein samþykkt um það fram hér á hv. Alþingi.

Í grg., sem fylgir með upphaflegu þáltill., bentum við flm. m.a. á að til væru margar gerðir af slíkum samgöngutækjum. Þar sem við þekkjum til í nágrannalöndum okkar, sem flestir Íslendingar þekkja best til, eru að sjálfsögðu þau samgöngutæki, sem rafknúin eru, notuð innan borgarmarka og reyndar allt frá miðborgum til næstu borgar, en það eru oft og tíðum sömu samgöngutækin. Þetta eru annaðhvort járnbrautarlestir eða rafknúnir strætisvagnar. Það eru að sjálfsögðu til rafbrautir sem ganga á hinum lengri leiðum, bæði tvíspora og einspora, sem eru, að því að mér er tjáð, mjög dýrar í framleiðslu og stofnkostnaði, en hafa hins vegar þann kost, að þær geta haldið uppi samgöngum á svæðum sem venjulegar samgöngur stöðvast tiltölulega fljótt á ef eitthvað ber út af í veðri, svo sem ef mikil snjókoma á sér stað. Mér finnst því líka vera full ástæða til að athuga hvort á ákveðnum stöðum hér á landi, þar sem mjög illt er að halda uppi samgöngum allt árið, en nauðsyn talin bæði frá félagslegum sjónarmiðum og öryggissjónarmiðum og að sjálfsögðu einnig út frá atvinnulegum sjónarmiðum, — hvort þetta muni ekki jafnvel geta, ef við búum við ódýra orku, borga sig fyrir þjóðina.

Ég hef, herra forseti, á undanförnum árum lýst þessu máli ítarlega og farið oft yfir það og þar eð orð mín þar um og annarra manna, sem rætt hafa málið, eru flest í skjölum Alþingis sé ég ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þessa till. að sinni, en leyfi mér að leggja til að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. atvmn.