03.02.1981
Sameinað þing: 45. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2084 í B-deild Alþingistíðinda. (2319)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég skal koma inn á þau atriði í langri og ítarlegri ræðu hv. fyrirspyrjanda, sem varða fiskverð fyrst og fremst.

Það er alveg rétt hjá hv. þm., að dregist hefur allt of lengi að ákveða fiskverð. Hins vegar veit ég að hann veit miklu betur en kom fram hjá honum um ástæður til þeirrar tafar. Ég veit að hv. þm. er ekkert síður kunnugt um það en mér, að á sama tíma hafa staðið yfir samningar — við getum sagt um grunnkaup, á milli sjómanna og útgerðarmanna, framhald af þeim almennu samningum sem gerðir voru seint á síðasta ári. Þau mál hafa reynst ákaflega erfið í meðferð, verið mikill skoðanamunur á milli útgerðarmanna og sjómanna. Þar hafa verið til umræðu viðkvæm mál — ég nefni lífeyrissjóðsmálið þar sem borið hefur mjög mikið á milli.

Að sjálfsögðu, og það veil ég að hv. þm. veit, hef ég átt miklar viðræður við aðila að þessum málum báðum, en ég hef kosið að gera það í kyrrþey og ræða þar hina ýmsu möguleika til að leysa þessi mál. Ég get sagt það hér, að t.d. hafa fulltrúar sjómanna talið að fiskverðsákvörðun mætti dragast þar til einhver hreyfing yrði komin á samningamálin. Ég trúi því ekki t.d. að hv. þm., sem er svo nátengdur vegna fyrra starfs síns útgerð og fiskvinnslu, vilji að fyrir því verði spillt. Ég vil einnig upplýsa að fulltrúi útgerðarmanna, sem ég hef átt með ótal fundi í desember og janúar út af þessum málum, hefur sjálfur allt fram á síðustu daga talið rétt, að fiskverðsákvörðun yrði ekki hraðað á meðan hin viðkvæmu samningamál sjómanna og útgerðarmanna væru til meðferðar. Ég get einnig upplýst að í viðræðum, sem ég hef átt við sáttasemjara um þessi mál, hefur hann talið óæskilegt að ákveða fiskverð fyrr en einhver skriður væri kominn á hin viðkvæmu samningamál sjómanna og útgerðarmanna. Allt þetta veit ég að hv. þm. veit þó að hann komi hér upp í stólinn í þeirri von að geta e.t.v. rekið einhvern fleyg inn í þetta viðkvæma mál og valdið ríkisstj. þar með e.t.v. einhverjum vandræðum, en það mun honum ekki takast.

Að þessu máli er unnið hvern dag með viðræðum við þá menn alla sem í þessu eru. Það er vitanlega orðið ákaflega bagalegt hvað það hefur dregist og má ekki dragast lengi enn, enda er von mín að það verði ekki.

Ég vil jafnframt nefna það, að ýmsar ástæður eru fyrir því, að þeir aðilar, sem þarna eiga hlut að máli, hafa síður getað gert upp hug sinn í þessu sambandi. T.d. dróst það hjá Þjóðhagsstofnun, af ástæðum sem út af fyrir sig eru skiljanlegar, að fyrir lægi grundvöllur útgerðarinnar fyrr en 12. jan. s.l. Þær tölur, sem hv.þm. las upp áðan um fiskvinnsluna, lágu fyrir í gær, þ.e. 2. febr., um grundvöll fiskvinnslunnar. Ég hef rætt við fulltrúa fiskvinnslunnar sem hafa lagt á það ríka áherslu að þeir vilji hafa þennan grundvöll áður en þeir gera upp hug sinn. Ég hef að sjálfsögðu átt viðræður við fulltrúa í Verðjöfnunarsjóði sem hafa sagt hið sama: Grundvöllin vilja þeir hafa áður en þeir ákveða viðmiðunarverð. Þetta er bagalegt, það verð ég að segja, og hefur margsinnis verið rætt um það við Þjóðhagsstofnun. Ástæðan fyrir því, að útreikningar hafa dregist svo óvenjulengi núna, er sú, að þeir byggjast á endurskoðun á áætlunargrundvellinum, sem er unninn úr framtölum fyrirtækjanna, og framtöl fyrirtækja vegna nýrra skattalaga lágu fyrir mjög seint á síðasta ári. Ég vil því taka það fram, að þótt ég harmi að þetta hefur dregist er ég ekki þar með að áfellast Þjóhagsstofnun. Þannig hafa margir þættir orðið til þess að ákvörðun fiskverðs hefur reynst erfið.

Ég hef að sjálfsögðu rætt um olíugjaldið og fulltrúar í Verðlagsráði vita vel hver hugmynd mín er um olíugjaldið. Þeir hafa þá ekki sagt hv. þm. það, — kannske talið betra að halda því innan sinna vébanda. Ég er m.a. búinn að ræða við þessa menn um hugmynd hv. þm. um að greiða niður olíu af almannafé, sem ég skal viðurkenna að ég tel umhugsunarverða og koma til greina, en það er alls ekki samstaða, hvorki hjá sjómönnum né útgerðarmönnum, um þá leið. Ég hef þess vegna tjáð þessum mönnum, að meðan ekki náist samstaða muni ég beita mér fyrir því, að olíugjaldið verði óbreytt, þótt ég endurtaki, eins og ég hef alltaf gert, að ég tel það ekki góða leið í þessu sambandi.

Það er rétt, að ég hef ekki leitað aðstoðar hv. þm. til að leysa þetta mál. Ég hef talið æskilegast í þessu viðkvæma máli að það leystist í þeirri nefnd hagsmunaaðila sem hæstv. fyrrv. sjútvrh. setti á fót og hefur starfað nú um það bil eitt ár eða svo. Því miður hefur það ekki tekist. Ég tel hagkvæmast að það gerist þar og miklu betra en að við stjórnmátamenn skipum þeim málum — e.t.v. í andstöðu við verulegan hluta hagsmunaaðila. Því legg ég á það áherslu að sú nefnd haldi áfram störfum og skili áliti sem allra fyrst.

Athyglisvert er að lesa Morgunblaðið í morgun þar sem skýrt er frá niðurstöðu Þjóðhagsstofnunar um afkomu fiskvinnslunnar. Hún er, eins og hv. þm. rakti, að meðaltali 7% hagnaður, en Morgunblaðið telur að þetta þýði að fiskvinnslan þoll 15% fiskverðshækkun. Mig langar til að spyrja hv. þm., af því að hann hefur gífurlega reynslu á þessum sviðum: Er hann þeirrar skoðunar, að miðað við 7% meðalafkomu fiskvinnslunnar, en 1.6% afkomu frystingar, 10.5% afkomu söltunar og 24.9% afkomu herslu þoli fiskvinnslan og þar með frystingin 15% fiskverðshækkun? Ég veit að hv. þm. á auðvelt með að svara þessu.

Það eru vitanlega fjölmargar staðreyndir í þessu máli eins og ég hef rakið, sem hafa því miður tafið afgreiðslu þess. (Gripið fram í.) Ég var að spyrja hv. þm. og vil fá að heyra svör hans og síðan skal ég segja mitt álit. Kannske hv. þm. hafi einhverja skoðun á þessu? (MB: Ég er ekki þeirrar skoðunar.) Nú, ekki þeirrar skoðunar. Jæja, það er fróðlegt að heyra það. Þá hefur Morgunblaðið sínar fréttir einhvers staðar annars staðar frá, heyri ég.

Ég vil jafnframt koma nokkuð inn á svokallaða millifærslu sem mikið hefur verið talað um, en ég vil þó fremur gera frystideild Verðjöfnunarsjóðs kleift að standa við viðmiðunarverð sem tryggir rekstrargrundvöll frystingarinnar. Fjölmörg fordæmi eru fyrir því að verðjöfnunardeildin hefur samþykkt útborgunarverð sem er töluvert fyrir ofan markaðsverð. T.d. var samkv. fundargerðum frystideildar Verðjöfnunarsjóðs frá 1977, svo að ég nefni bara eitt tilfelli í stjórnartíð hv. þm., gerð slík samþykkt í frystideildinni: Ákveðið var viðmiðunarverð á grundvelli tryggingar frá ríkisstj. þannig að deildinni yrði gert kleift að standa við það verð. — Í samþykkt ríkisstj. er hins vegar tekið fram að deildinni verði gert þetta kleift, en undirstrikað að það verði ekki gert með beinu framlagi ríkissjóðs. Ég þykist vita að hv. þm. hafi átt mjög drjúgan þátt í þessari ákvörðun. Þarna segir ekkert hvernig þetta skuli gert upp. Vitanlega hef ég rætt þetta við aðila í Verðjöfnunarsjóði. Ég hef rætt þetta við útgerðarmenn og fleiri fulltrúa sjómanna sem eiga hlut að þessu máli. Þessum mönnum er ljóst að við munum fara ákaflega svipaðar leiðir og farnar voru. Vitanlega er öllum ljóst að verðjöfnunardeildin getur ekki tekið lán án þess að hafa tryggingu ríkissjóðs eða aðra baktryggingu fyrir slíkum lánum, eins og hv. þm. var fyllilega ljóst, efast ég ekki um, þegar hann hagaði þessum málum svo sem ég hef nú greint 1977 og kemur glögglega fram í fundargerðum frystideildar Verðjöfnunarsjóðs. Þetta liggur alveg ljóst fyrir. Það er því alger vitleysa að það sé nokkuð frá hendi ríkisstj. sem tefur ákvörðun fiskverðs. Ég vísa því algerlega á bug.

Ég ætla ekki að fara að ræða hér almennt um efnahagsmálin sem hv. þm. kom inn á. Þau eru til umr. í Ed. og við fáum þau eflaust til umr, hér í Nd. — vonandi fljótlega — og þá getum við rætt um þau mál.