30.10.1980
Sameinað þing: 12. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í B-deild Alþingistíðinda. (237)

18. mál, réttarstaða fólks í óvígðri sambúð

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Hv. 10. landsk. þm. hefur hér hreyft mikilsverðu máli sem varðar marga þegna þjóðfélagsins. Miklu starfi hefur verið varið til þess að reyna að finna lausn á því, hvernig málefnum þessa hóps manna yrði best fyrir komið, og það er vissulega tímabært úrlausnarefni hér á Íslandi, eins og raunar víðar. Að þessu hefur verið unnið m.a. á vettvangi sifjalaganefndarinnar, sem samdi m.a. barnalagafrv. það sem hér liggur á borðum okkar. Sú nefnd hefur haft allvíðtækt samstarf við norrænu sifjalaganefndirnar um lagareglur um hjúskaparstöðu fólks og þar með afstöðu til óvígðrar sambúðar. Það virðist ljóst nú, að erfiðara sé að komast að sameiginlegri norrænni niðurstöðu heldur en menn hugðu í upphafi, vegna þess hve misjafnt almenningsálit í þessum löndum virðist vera á því, að hve miklu leyti jafna beri óvígðri sambúð og þeim skyldum og réttindum, sem henni fylgja, til hjúskapar.

Það, sem um er að ræða, er fyrst og fremst þetta:

Við stöndum frammi fyrir heimili tveggja maka í óvígðri sambúð sem reka heimili sitt með nákvæmlega sama hætti og hjón væru, en hafa öðruvísi réttarstöðu í þjóðfélaginu. Þessi munur á réttarstöðu varðar, eins og hv. flm. sagði, fyrst og fremst erfðarétt, svo og réttarstöðu við sambúðarslit, einkum að því er til fjármuna tekur. Ég vildi víkja nánar að þessu atriði og tala þá um í þessu sambandi muninn á framfærsluskyldu og framfærslurétti sem hjónabandi fylgir, en er ekki til staðar í óvígðu sambúðinni milli makanna innbyrðis, og svo afstöðu makanna til barna í óvígðri sambúð. Um það fjallar m.a. barnalagafrv. sem hér liggur frammi.

Í grg. með frv. til barnalaga, sem lagt var fram á síðasta þingi, birtust sem fskj. upplýsingar um könnun á stöðu barna og fróðlegar tölur um fjölda þeirra sem fæddust utan hjónabands. Það er gamalkunn staðreynd á okkar landi, að fólk verður skelfingu lostið þegar það heyrir hinar hrikalegu háu tölur barna fæddra utan hjónabands. Árið 1975 var tala óskilgetinna barna á Íslandi t.d. um 30% af fæddum börnum. Þessi 30% skiptust þannig, að um 20% fæddust utan sambúðar og um 10% í óvígðri sambúð. Þessar tölur sögðu þó ekki nema lítið brot af sannleikanum sem síðar varð, því að eftir 5 ár kemur í ljós, að hlutfall þeirra barna, sem enn eru óskilgetin, lækkar í 13%. Þarna er því fyrst og fremst um að ræða það, sem dr. Björn Björnsson guðfræðiprófessor kallaði í doktorsritgerð sinni um þetta sambúðarform svokallaða trúlofunarfjölskyldu, og börn, sem fæddust í slíkri fjölskyldu, en urðu síðar hjónabandsbörn með þeim hætti sem lagareglur þar um segja, en jafnskjótt og foreldrarnir giftast teljast börnin ekki lengur óskilgetin, eins og kunnugt er. Þetta atriði, réttarstaða barna fæddra í og utan h jónabands, eins og vikið er að henni og stefnt að að jafna hana í frv. til barnalaga, sem hér liggur frammi, verður mjög til bóta. Það, sem flóknast virðist vera eftir sem áður, er það, hvernig framfylgja beri rétti barnanna sjálfra, einnig í ýmsu öðru tilliti en fjármunalegu, eftir sambúðarslit foreldranna. Þegar börn eru fædd utan hjónabands, þá hefur móðirin samkv. íslenskum reglum forræði eða forsjá barnsins. Jafnvel þótt allt sé í besta samkomulagi milli foreldranna, þá er það svo, að lagalega séð hefur móðirin þetta forræði og það getur á stundum eftir langa og trausta sambúð, þótt óvígð sé, komið óneitanlega sérkennilega út í sumum tilvikum, að réttur föðurins skuli ekki vera meiri að því leyti. Það getur að sjálfsögðu bitnað síðar á barninu og skert möguleika þess til umgengni við föður sinn ef sambúðarslit verða. Þetta er eitt stærsta og viðkvæmasta málið á þessu sviði, umgengnisréttur barna við báða foreldra sina, þótt aðeins annað hafi forsjána eða forræðið eins og kallað er.

Að því er framfærsluréttinn varðar, þá langar mig til að vitna í atriði úr grein, sem birtist í nýútkominni bók sem heitir Fjölskyldan í frjálsu samfélagi. Sjálfstæðiskonur, Landssamband sjálfstæðiskvenna og Sjálfstæðiskvennafélagið Hvöt, hafa nýlega gefið út rit um fjölskyldumálefni. Þar er fjallað um ýmis atriði þeirra mála, þar sem þörf er samræmdrar stefnu og reglna í þjóðfélaginu er taka mið að þeirri þróun sem orðið hefur á undanförnum árum. Í þessa bók skrifa 24 höfundar. Þar er m.a. grein eftir Ingibjörgu Rafnar héraðsdómslögmann, sem nú er lögfræðingur Mæðrastyrksnefndar í Reykjavík. Einn kaflinn í grein hennar fjallar einmitt um óvígða sambúð, og þar sem hér er um mikilsvert málefni að ræða tel ég rétt að benda á nokkur atriði úr þeirri grein.

Hún getur í fyrsta lagi um þá staðreynd að 1. des. 1979 voru 7310 einstaklingar í óvígðri sambúð hér á landi, og vitnar þar til Hagstofunnar. Það eru 3655 heimili og á þessum heimilum voru 4000 börn. Ingibjörg hugleiðir dálítið í grein sinni hverjar ástæður muni liggja til þess, að þessi hópur fólks hafi kosið sér þetta sambúðarform. Hún segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Ætla má að enn fleiri hafi kosið sér þetta sambýlisform en þessar tölur sýna, m.a. vegna réttindamissis, ef aðili er í sambúð, t.d. missir réttar til mæðra- eða feðralauna.“

Eins og kunnugt er, eiga einstæðar mæður, eins og það er orðað í tryggingarlögunum, rétt til mæðralauna. Um það hefur risið deila fyrir dómstólum, hvenær skerða beri þennan rétt. Hefur í mörg ár verið litið svo á, að jafnskjótt og ógift móðir tæki upp sambúð, þótt með öðrum en föður barnsins væri, félli niður réttur hennar til mæðralauna.

Nú er það svo, að óvígðri sambúð fylgir ekki að lögum gagnkvæmur framfærsluréttur makanna. Fjallar Ingibjörg Rafnar í grein sinni um þau vandamál sem upp koma að þessu leyti til, þegar borið er saman við réttarstöðuna í hjúskapnum. En það er grundvallarregla í íslenskum hjúskaparlögum, að hjónin séu sameiginlega og gagnkvæmt framfærsluskyld, og svo er litið á, að makinn, sem vinnur heimilisstörfin, geti að sínu leyti leyst framfærsluskylduna af hendi með þeirri vinnu þó ekki komi þar beint fjárframlag.

Þá rekur greinarhöfundur það, að komið hafi upp hugmyndir, ekki síst meðal vinstri sinna, að því er hún segir, um það, að afnuminn sé þessi framfærsluskylda innbyrðis milli hjóna. Hún segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Engin löggjöf er til um þetta sambýlisform, hvorki um réttindi og skyldur aðilanna í sambúð eða við slit hennar. Hins vegar má benda á, að ýmis lög jafna sambúð til hjúskapar. Til dæmis gera almannatryggingalögin ráð fyrir að sambýlisfólk hafi sama rétt til bóta almannatrygginga og hjón, ef það á barn eða á von á barni saman eða sambúðin hefur varað í tvö ár, sbr. 52. gr. laga nr. 67/ 1971— og það öðlast aldrei meiri bótarétt en þau hefðu verið hjón. Ég tel það rétta stefnu,“ segir höfundur, „að leggja hjúskap og sambúð að jöfnu í þessu tilliti, þar sem hið opinbera á ekki að mismuna borgurunum eftir því hvaða sambýlisform þeir kjósa sér, frekar en eftir trúarbrögðum. Það á að miða við raunverulega sambúð, hvort sem hún er vígð eða óvígð, þó að framfærsluskyldu sé ekki til að dreifa milti aðila í óvígðri sambúð.“

Annar staðar segir höfundur, með leyfi hæstv. forseta: „Þær hugmyndir hafa verið viðraðar, einkum af vinstrisinnum, að fella beri niður gagnkvæma framfærsluskyldu milli hjóna og tengja framfærsluskylduna eingöngu við börn. Ég er andsnúin þessum hugmyndum og teldi framgang þeirra spor aftur á bak í jafnréttisbaráttunni. Ákvæði 2. gr. laga nr. 20 frá 1923, sem kveður svo á að báðum hjónum sé skylt, hvoru eftir getu sinni og svo sem sæmir hag þeirra, að hjálpast að því að framfæra fjölskylduna með fjárframlögum, vinnu á heimilinu eða á annan hátt, tel ég í fullu gildi og raunar sjálfsagt, þar sem það er í samræmi við eðli hjúskaparins, þ.e. efnahagslega, félagslega og hagsmunalega samstöðu hjóna almennt. Enn fremur er til þess að líta, þó að útivinna giftra kvenna færist í vöxt, að í fjölskyldum, sem eru hjón með ung börn, stunda sjaldnast bæði hjón tekjugæfa atvinnu að fullu, gegna ekki bæði fulllaunuðu starfi.“

Þetta sagði höfundur greinarinnar um þetta efni, um hugmyndirnar um að fella niður framfærsluskyldu innbyrðis milli hjóna, og var því andvíg fyrst og fremst vegna þess að hún taldi það óhagstætt jafnréttishugsuninni.

Þegar á það reyndi fyrir dómstóli snemma á þessu ári, að kona héldi mæðralaunum þótt hún hefði tekið upp sambúð, fór það mál þannig, sem er nýtt, að því er ég best veit, að henni var dæmdur réttur til að halda mæðralaununum allt að einu. Þetta er alveg þveröfugt við það sem viðtekin venja hefur verið um þetta atriði. Ég sé að hv. 10. landsk. þm. verður áhyggjufullur á svipinn, sem von er. Það verður að hugsa fyrir því, ef slík skipan yrði almenn, hvaða áhrif það hefði á reikninga Tryggingastofnunar ríkisins. Mér er ljóst að það er eitt atriði þessa máls. Hins vegar geri ég ráð fyrir að það sé ekki aðalatriði í hennar augum, heldur að komast að niðurstöðu um það, hvernig hag þessa fólks sé best borgið. En í niðurstöðu þessa dóms sýnist ekki vera lagður til grundvallar sá skilningur sem ríkt hefur á skilyrðum tryggingalaga til mæðralaunaréttar og felur í sér að rétturinn sé bundinn því, að móðirin sé ekki í sambúð á sínu heimili, heldur virðist vera nóg að hún sé ekki í sambúð með föður barnsins, ef hún er í óvígðri sambúð. Þetta virðist mér vera niðurstaðan. Að vísu er þetta undirréttardómur og verður fróðlegt að vita hvernig framhaldið verður, en þetta er vissulega stefnumarkandi atriði.

Þessi niðurstaða dómsins byggðist beinlínis á því meginatriði, að lögum samkv. stofnast ekki framfærsluréttur milli hjóna sem taka upp óvígða sambúð. Þótt þau kosti heimili sitt saman í raun stofnast ekki formlegur framfærsluréttur þeirra í millum.

Það er mikilsvert atriði í þessu sambandi, að ungt fólk sé frætt um það, hvaða réttaráhrif óvígð sambúð hefur og hvaða réttaráhrif hjúskapur hefur í dag.

Stundum lítur helst út fyrir að margt fólk, sem kýs að búa í óvígðri sambúð, geri það einungis vegna þess að það vill ekki kallast vera í hjónabandi, en njóta réttaráhrifa þess allt að einu. Þetta segi ég vegna þess, að mér virðist það vera nokkuð samdóma niðurstaða þeirra, sem hafa hugsað um þetta mál, að það verði að koma til einhvers konar lögformlegur búnaður á þetta samband. Ýmsir telja að sá búnaður þurfi að heita eitthvað annað en hjúskapur eða hjónaband. T.d. nefndi hv. flm. málsins hér skráningu. Það er líka ljóst, að þótt skráning sé þurfa ýmis skilyrði að vera fyrir hendi til þess að ljóst sé hvort jafna megi áhrifum sambúðar að öllu leyti við áhrif hjúskapar. Má í því sambandi t.d. benda á það ákvæði hjúskaparlaga, sem sett voru fyrir nokkrum árum, er fjallar um hjúskap sem staðið hefur mjög skamman tíma og hvernig um það færi, ef hjónabandi yrði slitið. Skráning ein sér sýnist mér því ekki vera lausn. Það væri hægt að skrá sambúð í dag og slíta henni eftir viku. Hvaða réttaráhrif hefði það? Ég held að ganga verði frá ákvæðum um það, hvaða skilyrðum sambúðin þarf að hlíta til þess að jafna megi til sömu stöðu og hjúskapur hefur samkv. okkar lögum í dag.

Spurning er bara hvort niðurstaðan verður ekki sú, að þessi skráning verði einfaldlega með sama hætti og gifting er í dag. Sú yrði e.t.v. niðurstaðan eftir allar bollaleggingarnar. Á það er einnig að líta, að núgildandi löggjöf gefur hjónum allfrjálsar hendur til að skipa að vild fjármunahlið síns sambands. Hins vegar hefur það ekki mikið tíðkast. Þetta atriði ber einnig að sama brunni og ég nefndi áðan. Þarna skortir verulega á fræðslu.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar, að nauðsynlegt sé að kynna ungu fólki miklu, miklu betur það frelsi sem hver einstök hjón hafa til að ráðstafa sínum málefnum innbyrðis þegar þau ganga í hjúskap, hvernig byggt er á jafnræði makanna, og jafnframt hvaða áhrif fylgja því að ganga ekki í hjúskap. Ég er m.ö.o. þeirrar skoðunar, að ein ástæðan fyrir því, hve mörg vandamál rísa við sambúðarslit óvígðs sambúðarfólks sé skortur á fræðslu fyrir ungt fólk um réttarstöðu makanna. Hér mætti vel taka okkur til fyrirmyndar ýmislegt sem t.d. kaþólska kirkjan gerir í suðlægum löndum í Evrópu. Það liggja frammi í hverri smákirkju skemmtileg tímarit ætluð trúlofuðu fólki, þar sem segir allt um stöðu þessa fólks, hvernig þa8 stendur að vígi, hvaða hluti það þarf að athuga áður en það gengur í hjúskap. Ég veit vel að þar er auðvitað sú ástæða, að þar er ekki jafnauðvelt að slíta hjúskapnum og hjá lúterskum. En allt að einu, sambúð fólks yfirleitt er svo viðurhlutamikið fyrirtæki á allan hátt, að mér finnst að í öllu því tali, sem verið hefur á undanförnum árum um að menntun ungmenna skuli taka mið af þróun samfélagsins, búa fólk sem best undir lífið, hafi þessi þáttur verið vanræktur. Það er enginn vafi á því. Sér í lagi hefur verið vanrækt að kynna stúlkum þetta atrið:, ungum stúlkum í skólum, skulum við segja, eða annars staðar þar sem menntun fer fram. Ég varð þess vör í starfi sem ég stundaði fyrir allnokkrum árum, að að því voru mikil brögð, því miður, að konur höfðu vanist því að ganga til sinnar sambúðar eða hjúskapar með því hugarfari, sem skiljanlegt er við þær aðstæður vitanlega, að treysta fullkomlega maka sínum og viti hans. En þær uppgötvuðu í sumum tilfellum allt of seint, að þær höfðu ekki vitað hver fjármunaleg réttarstaða þeirra var.

Herra forseti. Ég gat ekki látið hjá líða, þegar þessi mál bar á góma, að ljúka máli mínu með því að leggja sérstaka áherslu á geysilega þýðingu þess að stórauka fræðslu um réttaráhrif hjúskapar og sambúðar.