30.10.1980
Sameinað þing: 12. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í B-deild Alþingistíðinda. (241)

22. mál, félagsleg þjónusta fyrir aldraða

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég mun ekki taka fyrir þessa till. til þál. eins og hún liggur fyrir. Ég get hins vegar ekki annað en talið skyldu mína að upplýsa að á allra næstu dögum mun hæstv. heilbr.- og trmrh. leggja fram á þinginu frv. til l. um öldrunarþjónustu. Ég undrast þess vegna dálítið að þetta mál skyldi ekki bera að með öðrum hætti.

Forsaga þess er að í tíð fyrrv. hæstv. heilbr.- og trmrh., Magnúsar H. Magnússonar, var skipuð nefnd til að semja frv. um öldrunarþjónustu. Því verki var langt komið. Nú kann raunar að vera að nefndin hafi verið skipuð enn fyrr, ég skal ekki fullyrða það, en mér er vel kunnugt um að Magnús Magnússon lét vinna vel að þessu verki í sinni ráðherratíð og því verki var komið það vel á veg að það var sýnt embættismönnum, t.d. deildarstjórum Tryggingastofnunar ríkisins. Um þetta held ég að hv. 10. landsk. þm. hljóti að hafa verið fullkunnugt. Þess vegna hefði mér fundist eðlilegra að bera fram fsp. um hvað hefði orðið af þessu verki.

Í framhaldi af því má einnig geta þess, að núv. hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur þegar sagt frá því í fjölmiðlum að frv. um öldrunarþjónustu sé svo til tilbúið. Raunar held ég á handriti af því í ræðustól. Það breytir ekki því, að allur áhugi á málefnum aldraðra er að sjálfsögðu af hinu góða.

Ég er samþykk þessari till. til þál. að því leyti, að ég held að það sé nauðsynlegt að samræma þau þjónustutilboð, ef svo má segja, sem við ætlum hinum öldruðu. Ég get hins vegar tekið undir með hv. 3. þm. Reykv., að mér finnst dálítið mikil áhersla lögð á vistrými. Ég held að mjög varasamt sé að líta á gamalt fólk sem einstaklinga sem fyrst og fremst þarf að vista. Með allri sanngirni skal þó tekið fram, að í grg. er talað um aukna möguleika aldraðra til að dveljast sem lengst í heimahúsum. Ég geri ráð fyrir að hv. 10. landsk. þm. sé ekki eins umhugað um vistrýmin og mál hennar benti e.t.v. til.

Þar sem hæstv. heilbr.- og trmrh. er ekki staddur hér í þingsölum tel ég rétt að minna á að frv. um öldrunarþjónustu er mjög á næsta leiti. Það má upplýsa einnig, að í fyrramálið kl. níu munu nokkrir aðilar, sem unnið hafa á ýmsum vettvangi að málefnum aldraðra, hittast í heilbr.- og trmrn. til að koma með aths. um frv. Veit ég m.a. að þar verður Oddur Ólafsson yfirlæknir og fleira fólk sem hefur unnið að slíkum málum og gerþekkir þau.

Ég þekki ekki svo vel til vinnubragða þingsins að ég sé dómbær um það, en sjálfsagt er eðlilegt að þessi till. fari til n. En ég held að hún komi aldrei þaðan aftur vegna þess, að frv. verður þá komið fram. Mér finnst því óneitanlega tímaeyðsla að vinna þannig. Ég held að við höfum ýmislegt annað að gera en vera að leggja fram þáltill. um mál sem liggja í frv.-formi á borðum þm. og búið er að skýra frá í fjölmiðlum. Mín er því sérstaklega freistað að leggja til að þessu máli verði vísað frá, en málefnið er svo gott að ég kýs að gera það ekki og mun þess vegna greiða því atkv. að það fari til n. En ég held að ég megi fullyrða að þaðan eigi það ekki afturkvæmt, vegna þess að þá verður komið fram frv. um skipulagða öldrunarþjónustu.