12.02.1981
Neðri deild: 51. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2265 í B-deild Alþingistíðinda. (2467)

189. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég vil í upphafi, eftir að formaður fjh.- og viðskn., hv. 3. þm. Austurl., frsm. meiri hl., hefur gert grein fyrir áliti meiri hl., átelja vinnubrögð við meðferð breytinga á skattalögunum hér á þingi. Þau eru að dómi minni hl, ekki til þess fallin að auðvelda afgreiðslu þessara mála. Og ég vil taka undir það með formanni nefndarinnar, að Nd.-nefndin gat að sjálfsögðu ekkert að því gert, að hér er verið að fjalla um frv. sem komið er frá Ed. löngu eftir að þessi hv. deild fékk þmfrv., sem gengur í mjög svipaða átt, til meðferðar. Ég er sannfærður um að hér hefðu orðið betri og skynsamlegri vinnubrögð ef hæstv. ráðh. hefði t.d. í þessu tilfelli lagt þetta

frv. fram í þessari hv. deild, sér í lagi þegar hér var búið að vera á dagskrá frv. sem gengur í sömu átt og fjallar um nákvæmlega sama efni. En ég hlýt að líta svo á, eins og formaður nefndarinnar og frsm. meiri hl., að hér sé um einhvern misgáning að ræða.

Ég veit að menn vonast til þess, að slíkt þurfi ekki að endurtaka sig.

Ég vil jafnframt þakka formanni fjh.- og viðskn. Nd. þátt hans í því að ná sem bestri samstöðu um þessi atriði, enda þótt ekki tækist í þetta skipti að ná sameiginlegu áliti allrar nefndarinnar. Ég veit að af hans hálfu var gert það sem hægt var, og þær brtt., sem gerðar voru við frv. í hv. Ed., voru gerðar eftir að báðar nefndirnar höfðu starfað saman og frá Nd.-mönnum undir hans forustu voru komnar ábendingar sem teknar voru til greina.

Ég vék að því áðan, að af hálfu þm. Sjálfstfl. hefði verið flutt snemma á þessu þingi frv. sem gekk í sömu átt og það sem við hér ræðum. Á þskj. 78 flytja þeir hv. 6. þm. Reykv., Birgir Ísl. Gunnarsson, og hv. 7. landsk. m., Halldór Blöndal, frv. varðandi vaxtagjöld og verðbætur til frádráttar. Eðli málsins samkvæmt hefði þetta frv. átt að koma hér til afgreiðslu og fjmrh. hefði getað komið fram breytingum. En þessi leið var valin. Og þó svo að hæstv. fjmrh. kysi ekki að koma fram brtt. við það frv., sem ég vék hér að áðan, og láta það fá afgreiðslu, þá hefði hann engu að síður getað flutt frv., sem hér er til umr., í þessari hv. deild. Þá hefði nefndin getað tekið þessi mál saman til afgreiðslu og komið með sínar niðurstöður.

Um leið og ég vík að þessu hlýt ég að harma það, að við skulum hér ræða eitt — aðeins eitt atriði í sambandi við þær breytingar sem gera þarf á skattalögunum að fenginni reynslu. Eins og þm. muna var af hálfu hvers þingflokkanna tilnefndur fulltrúi í nefnd á vegum fjmrn. til þess að kanna framkvæmd þessara laga, og var að sjálfsögðu ætlast til þess, að eftir þá athugun kæmu fyrir Alþingi tillögur um breytingar sem þeir — annað hvort sem einstaklingar eða sem nefnd — töldu að gera þyrfti á lögunum að fenginni reynslu. Það hefur nánast engin athugun farið fram á vegum þessarar nefndar. Hæstv. ráðh. hefur sjálfur skýrt hér frá því hvers vegna hún hefur ekki getað sinnt störfum. Ég sagði að hæstv. ráðh. hefði getið þess hér á þingi — ég held að ég fari rétt með hvers vegna þessi nefnd hefur ekki getað sinnt störfum. En ég tel að sú ástæða hefði ekki átt að geta verið fyrir hendi, að þm. gætu ekki fengið frá ráðuneyti þær upplýsingar sem þyrftu að liggja fyrir til þess að þessi könnun gæti farið fram. Ég vonast til þess, að það líði ekki á löngu þar til þessar upplýsingar liggja fyrir, og þá verður að sjálfsögðu að taka til hendinni við að skoða málið og þá e.t.v. koma með þær brtt. sem þörf þykir.

Um það frv., sem hér er til umr., náðist ekki samstaða í fjh.- og viðskn. hv. deildar, enda þótt ljóst sé af þeim breytingum sem samþykktar voru á frv. í hv. Ed., að ýmsar mikilvægar ábendingar frá okkur Sjálfstæðismönnum hafa verið teknar til greina og frv. því lagfært. Við gerum engu að síður athugasemdir við frv. eins og það er orðið nú:

Í fyrsta lagi við fyrri breytinguna sem frv. gerir ráð fyrir, vegna frádráttar á kostnaði handverkfæra og hljóðfæra. Við teljum að hér sé um að ræða afturhvarf frá meginstefnu gildandi skattalaga, þ.e. að draga úr fjölda frádráttarliða, en slíkt er að mínum dómi forsenda góðrar framkvæmdar á skattalögunum, ég tala nú ekki um ef staðgreiðslukerfi skatta kæmi til framkvæmda.

Það má spyrja hvers vegna ýmsir aðrir, sem leggja verða í kostnað vegna starfa sinna, skuli ekki fá þann kostnað frádreginn. Úr því að hæstv. ríkisstj. hefur talið rétt að nota skattalögin og breytingar á þeim í sambandi við gerð samninga á vinnumarkaðinum, og þar með setja inn ákvæði sem Alþingi hafði áður þurrkað út, þá getur maður spurt sjálfan sig hvar slíkt muni enda og hvort ekki muni aðrir hópar koma síðar meir og gera kröfu til þess að viðurkenndir verði frádráttarliðir, sem þeir telja sig hafa, og þannig endi þessi löggjöf, eins og áður hafði gerst, með ótal frádráttarliðum sem samið hafði verið um hér og hvar, og framkvæmdin þar með gerð mun erfiðari í alla staði. Ég skal ekki nefna hér neina aðila sérstaklega, en ég bendi á að í löggjöfinni, eins og hún var áður, voru ýmsir frádráttarliðir sem talið var skynsamlegt og eðlilegt að þurrka út. En segja mætti mér að þeir yrðu vaktir upp aftur.

Önnur meginbreytingin, sem felst í þessu frv. og í þeirri brtt., sem meiri hl. fjh.- og viðskn. Ed. flutti og var þar samþykkt, er að heimila rýmri frádrátt vaxtakostnaðar en er í gildandi lögum um þetta efni. Þau lög eru frá síðasta þingi, nr. 7, og flutt af núv. hæstv. fjmrh. Það var ljóst mál og margyfirlýst, þegar umr. fór fram um það frv. hér, að þar yrði gerð á athugun, því að það var öllum ljóst, að ef ekki yrði gerð breyting á þeim ákvæðum yrði ungu fólki gert ókleift með öllu að rísa undir þeim byggingarkostnaði af eigin húsnæði, sem má telja að hafi stafað af vaxtagreiðslum. Frv. þeirra hv. 6. þm. Reykv., Birgis Ísl. Gunnarssonar, og hv. 7. landsk. þm., Halldórs Blöndals, gengur einmitt í sömu átt, í því frv. eru þessar heimildir hafðar töluvert rýmri. Þær breytingar, sem samþykktar hafa verið, stefna í rétta átt, en að dómi minni hl. fjh.- og viðskn. eru þær ákaflega flóknar og erfiðar, og að okkar dómi ekki nægjanlegar til stuðnings því fólki sem vill afla sér eigin húsnæðis.

Það verður að segjast, að takmörkun vaxta- og verðbótafjárhæðar til frádráttar við upphæðina 7.2 millj. kr. fyrir hjón við álagningu í ár, eins og frv. gerir nú ráð fyrir, er ekki mikil ofrausn ef höfð er í huga sú stefna sem verið hefur í lánamálum upp á síðkastið — samkv. þeirri tilkynningu sem kom frá Seðlabanka Íslands um vaxtakjör fyrir tveimur dögum. Þessar reglur eru með þeim hætti, að það er ekkert komið til móts við fólk, sem af ýmsum ástæðum hefur safnað skuldum án þess að þær séu beint tengdar öflun húsnæðis, t.d. ef um tekjumissi væri að ræða vegna forfalla fyrirvinnu heimilis, en slíkt gæti haft í för með sér skuldasöfnun einfaldlega til þess að afstýra sölu á húsnæði því sem viðkomandi fjölskylda býr í. En hvernig svo sem á einstök atriði er lítið, þá er höfuðgalli þessara ströngu skilyrða fyrir heimild til frádráttar vaxta þó að okkar dómi sá, að fólk mun ekki almennt hafa gert ráð fyrir þeim þegar það stofnaði til þeirra skulda sem á því hvíla í dag. Það er því með þessu verið að setja íþyngjandi og afturvirk skattaákvæði sem við sjálfstæðismenn erum andvígir.

Þegar skattalögin voru samþykkt höfðu þau verið hér á Alþingi til meðferðar. Þau tóku ekki gildi fyrr en um það bil sex mánuðum eftir að þau höfðu verið samþykkt. Þau eru samþykkt á útmánuðum 1978, en fjármálaskuldbindingar samkv. þeim eftir 1. jan. 1979 skyldu vera hafðar til viðmiðunar. Þegar þetta ákvæði er skoðað, þá sést að ekki er tekin með í reikninginn skuldasöfnun námsmanna, en þm. Sjálfstfl. hafa flutt frv. á þskj. 400 þar sem gert er ráð fyrir að frádráttur verði veittur námsmönnum vegna verðtryggingargreiðslna og vaxtagjalda og námslánin njóti því skattameðferðar eins og fjárfestingarlán vegna íbúða.

Formaður fjh.- og viðskn. gerði að umræðuefni orðalag í frv., þar sem talað er um að fjármunir hafi „sannanlega“ verið notaðir til öflunar eigin húsnæðis. Að mínum dómi breytir þetta orðalag engu varðandi sönnunarbyrði í sambandi við skattlagningu frá því sem nú er.

Minni hl. fjh.- og viðskn. hefur, með tilvísun til þess sem ég hef nú sagt og kemur fram í nál. okkar, flutt á þskj. 416 brtt. sem gerir ráð fyrir með hvaða hætti frádráttarreglur varðandi vaxtagjöld, verðbætur, afföll og gengistöp verði á árinu 1981. Er í þeirri tillögu reynt að tryggja betur hagsmuni þessara skattborgara og þó gert ráð fyrir takmörkunum, þ.e. hámarksfrádrætti sem næmi 3 millj. hjá einstaklingi, að viðbættri hækkun skattvísitölu. Eins og fram kom hjá formanni nefndarinnar hefur verið viðurkennt að það þyrfti með einhverjum hætti að setja slíkt hámark, en við teljum það mark, sem frv. gerir ráð fyrir eins og það er orðið, of lágt og leggjum því til að það verði hækkað nokkuð. Við gerum ráð fyrir að tíminn yrði síðan notaður til að vinna betur þau ákvæði, sem gilda skulu í framtíðinni um frádrátt vegna lána hjá skattborgurum, og að ekki sé komið aftan að mönnum í sambandi við skattlagningu. Þetta er, eins og ég sagði áðan í samræmi við þá stefnu sem við sjálfstæðismenn höfum haft. Við viljum gefa almenningi kost á að vita hvaða afleiðingar ákvarðanir þeirra í fjármálum hafa, þegar þær eru teknar, og hvaða skattbyrði þeim verður ætlað að axla þegar til skattlagningar kemur á tekjur og eignir viðkomandi árs, og erum andvígir því að samþykkja íþyngjandi afturvirk skattaákvæði.

Við flytjum því, eins og ég sagði áðan, brtt. á þskj. 416 þar að lútandi.