19.02.1981
Efri deild: 54. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2397 í B-deild Alþingistíðinda. (2573)

Umræður utan dagskrár

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð hér, sérstaklega kannske í tilefni af þeirri ræðu sem var verið að ljúka við að flytja hér, ræðu Guðmundar Bjarnasonar, hv. 5. þm. Norðurl. e.

Það er alger mistúlkun á mínum orðum hér í gær, að ég hafi sagt að það væri á einhvern hátt til minnkunar að forsrh. viðurkenndi hér úr ræðustóli að alvarleg mistök hefðu átt sér stað í þessu máli. Þvert á móti, mér finnst forsrh. vera maður að meiri að standa hér og viðurkenna að mistök hafi átt sér stað. Hins vegar benti ég á að það mundi ekki algengt að forsrh. stæði upp á Alþingi og viðurkenndi mistök. Þó að ég sé ekki með þessu að segja að mistökin séu á neinn hátt á hans ábyrgð, þá er hann einu sinni oddviti ríkisstj. og ríkisstj. hlýtur sem slík að bera ábyrgð á þessu. Þess vegna endurtek ég það, að mér finnst mannsbragur að því að koma hér og viðurkenna að mistök hafi átt sér stað. Það er ekki heldur rétt, sem hv. þm. Guðmundur Bjarnason sagði, að hafi mistök orðið sé ekkert hægt að gera. Vissulega er í mörgum tilvikum hægt að leiðrétta mistök. Ég lít svo á að það sé hægt í þessu tilviki.

Sömuleiðis verð ég að segja það, að ég skil ekki alveg þegar menn koma hér í ræðustól og fjargviðrast út af því, að verið sé að ræða þetta mál hér. Það er verið að ræða þetta mál í öllu þjóðfélaginu núna. Maður hittir varta tvo menn á tali öðruvísi en þetta beri á góma. Þess vegna hlýtur að vera eðlilegt að málið sé og rætt hér í sölum Alþingis. (GB: Enda hefur málið verið blásið út.) Það er ekki spurning um að blása út eða blása upp. Hv. þm. Guðmundur Bjarnason sagði að menn væru að velta sér hér upp úr þessu máli. Ég held að það sé skylda þm. að ræða þetta mál og ef þm. ræddu ekki þetta mál hér í sölum Alþingis væru þeir að bregðast skyldu sinni og bregðast þeim trúnaði sem þeim er sýndur þegar þeir eru valdir hér til starfa. Ef á að þegja svona mistök í hel, þá eru þm. að bregðast bæði kjósendum sínum og ég hygg sjálfum sér líka.

Hv. þm. Guðmundur Bjarnason undraðist það, að við hv. þm. Kjartan Jóhannsson skyldum ekki kveðja okkur hljóðs hér utan dagskrár til þess að ræða m.a. það eignatjón, sem varð í fárviðrinu fyrr í vikunni, og sömuleiðis þann hörmulega afburð, er varð við suðurströndina þegar skip strandaði og tveir sjómenn fórust. Við höfum vissulega hugleitt að gera þetta, og þar sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson hefur þegar talað þrisvar í þessu máli og á þess ekki kost að tala hér aftur, þá segi ég það hér og nú fyrir okkar beggja hönd og óska hér með eftir því við forseta, að þessi mál verði tekin hér á dagskrá og rædd. Það er vissulega ástæða til þess. Jafnvel þótt skemmdirnar séu að mestu einskorðaðar við suður- og vesturhluta landsins, þá er vissulega ástæða til að ræða þessi mál hér. Það er vissulega ástæða til þess að Alþingi láti þessi mál til sín taka. En það þýðir ekki að hitt eigi ógert að láta, að ræða það mál sem hér er til umræðu.

Aðeins fáein orð hér vegna þess sem hv. þm. Lárus Jónsson sagði áðan. Hann gerði að umtalsefni þau orð sem ég viðhafði í minni ræðu í gær. Ég sagði að hann hefði talað í þá veru að það ætti að kyngja þessum mistökum. (LJ: Þegjandi.) Ég minnist þess nú ekki að hafa sagt þegjandi, enda er það ekki í samhengi þessa máls. En orðrétt sagði hv. þm. Lárus Jónsson, með leyfi forseta:

„Þess vegna verða menn að kyngja því, ef í þessu máli hafa orðið mistök, en vera menn til að standa við það sem þeir hafa skuldbundið sig til að gera.“ Þetta eru orðrétt ummæli þm., og það er þetta sem ég er ekki sammála honum um. Ég tel að við eigum ekki að kyngja þessu máli eins og það er fyrir lagt, það er mergurinn málsins. Við eigum ekki að kyngja því jafnvel þótt í þessari hv. þd. eigi sæti þingmenn sem kyngt hafa þremur flugskýlum úr steinsteypu án þess svo mikið sem að svelgjast á.