24.02.1981
Sameinað þing: 53. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2508 í B-deild Alþingistíðinda. (2673)

211. mál, húshitunaráætlun

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það er kannske ekki ástæða til að bæta miklu við það sem hér hefur verið sagt af minni hálfu. Ég vil aðeins rifja það upp í sambandi við atkvgr. um brtt. við fjárlagagerð, að þar var gert ráð fyrir að draga verulega úr fjármagni til styrkingar dreifikerfa í sveitum — ég tel mig muna það rétt — og bæta í hina svonefndu sveitarafvæðingu verulegri upphæð. Ég taldi þessa tilfærslu á fjármagni innan orkuþáttarins ekki vera frambærilega.

Þarna var ekki verið að leggja til auknar fjárveitingar, heldur tilfærslu. Mig minnir að tillögumaður hafi verið hv. fyrirspyrjandi, sem bar hér fram sína fsp. (Gripið fram í: Má hv. fyrirspyrjandi gefa þær upplýsingar að till voru tvær. Hin var ekki um millifærslu á fjárlögum.)