25.02.1981
Efri deild: 58. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2559 í B-deild Alþingistíðinda. (2737)

218. mál, atvinnuleysistryggingar

Flm. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 431 að flytja frv. til l. um breyt. á lögum nr. 57 frá 27. apríl 1973, um atvinnuleysistryggingar, og síðari breytingum á þeim lögum. Flm ásamt mér eru hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, Guðmundur Bjarnason, Stefán Jónsson og Stefán Guðmundsson.

Þetta frv. er flutt í samráði við velflesta þm. Norðlendinga í Nd., og ég geri raunar ráð fyrir að sakir efnis þess sé það stutt og þm. yfirleitt að meginefni til.

Í frv. felst það að breyta lögum um atvinnuleysistryggingar í þá veru, að ef mikið atvinnuleysi er yfirvofandi af völdum náttúruhamfara, t. d. að hafís loki höfnum á stóru svæði, þá sé stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs heimilt að greiða í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir aukakostnað sem hlýst að því að koma í veg fyrir atvinnuleysi af þessum sökum.

Fyrsta grein, sem raunar er eina efnisgrein frv., hljóðar svo:

„Í VII. kafla laganna bætist ný gr. er verði 24. gr. og orðist svo:

Nú verður víðtækt og mikið atvinnuleysi yfirvofandi af völdum náttúruhamfara, t. d. hafíss sem lokar höfnum á stóru landssvæði, og er þá stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs heimilt að greiða í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir aukakostnað sem hlýst af því að koma í veg fyrir atvinnuleysi á viðkomandi landssvæði, t. d. flutningskostnað á afla milli byggðarlaga og landshluta.

Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs leggur sjálfstætt mat á það, hvort. hvernig eða hvenær henni þykir ástæða til að nota þessa heimild.“

Ekki þarf að hafa um þetta langt mál. Eins og hv. þm. vita er óvenjumikill hafís fyrir öllu Vestur- og Norðurlandi, og ýmsir hafa spáð því, að hafís geti orðið mönnum þungur í skauti á þessu ári. T. d. telja veðurfræðingar jafnvel eins slæmar horfur á komu hafíss nú og verstu ár síðustu tvo áratugina. Nýlega var birt umsögn sjórannsóknadeildar Hafrannsóknastofnunarinnar þar sem tekið var nokkuð djúpt í árinni um hættu á hafís. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Þessar niðurstöður um ástand sjávar og hafísinn benda til þess, að ísinn geti enn rekið í átt til landsins og jafnvel rekið upp að öllu Norður- og Norðausturlandi þegar líður á veturinn.“

Menn hafa að vonum haft af þessu áhyggjur þar sem flest byggðarlög í þessum landhlutum eru háð því, að afli berist til þessara plássa. Þær hugmyndir, sem hér er hreyft í frv.-formi, hafa komið fram í viðræðum þm. við forráðamenn sumra þessara sjávarplássa. Við, sem stöndum að flatningi þessa máls, leggjum áherslu á það sem stendur hér síðast í greininni: „Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs leggur sjálfstætt mat á það, hvort, hvernig eða hvenær henni þykir ástæða til að nota þessa heimild.“ Við teljum að stjórn sjóðsins verði að hafa það í hendi sér að meta hvenær slík vá sé fyrir dyrum í þessum efnum að hún vilji nota þessa heimild.

Því hefur verið stungið að okkur, að það væri kannske eðlilegra form vegna fordæmis að gera ráð fyrir því, að Atvinnuleysistryggingasjóður lánaði sveitarfélögum fé og þau mundu þá styrkja slíka flutninga, t. d. aflaflutninga. Ég legg áherslu á það — og hef haft um það samráð við meðflm. mína — að þetta atriði sem og önnur, er varða þetta mál, verði afgreidd í samráði við stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Ég vil að lokum leggja á það mjög þunga áherslu, að þetta mál nái fram að ganga, nái mjög skjótt fram að ganga, þannig að hægt verði með tiltækum ráðum að beita fjármagni Atvinnuleysistryggingasjóðs fremur til þess að koma í veg fyrir fjöldaatvinnuleysi af völdum hafíss eða hliðstæðra náttúruhamfara. Og ég vil leyfa mér að vænta þess, að hv. þm. taki undir það með mér.

Ég legg svo til, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. heilbr.- og trn.