03.03.1981
Sameinað þing: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2651 í B-deild Alþingistíðinda. (2787)

219. mál, snjómokstursreglur á þjóðvegum

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það, að eðlilegt sé að hugsað sé vel til Ólafsfirðinga um snjómokstur, og svo þarf sjálfsagt víðar að vera um landið. En fyrst farið var að bera saman okkur fyrir utan Enni og moksturinn um Ólafsvíkurenni, þá kom ég hér aðeins upp til þess að minna á, umfram það sem hv. 1. þm. Vesturl. minnti á í sambandi við umferð um Ólafsvíkurenni, að við Neshreppingar höfum leitað eftir því ár eftir ár, til þessa að reyna að tryggja að umferð til okkar sér örugg, — en eins og hv. þm. vita hefur truflun á umferð um Ólafsvíkurenni verið mjög mikil og það dugar ekki neinn venjulegur snjómokstur vegna þeirra skriðufalla og snjóflóða sem þar eiga sér stað — en við höfum sótt eftir því ár eftir ár að fá smávegis snjómokstur fyrir Jökul. — Við höfum gengið í það núna í vetur að biðja Vegagerðina um að sýna okkur smáliðlegheit, og það höfum við þm. gert allir sameiginlega, að moka nú fyrir Jökul einstaka sinnum til að tryggja umferð að Hellissandi við þær aðstæður þegar Ólafsvíkurenni er ófært, sem hefur verið oftar en skyldi í vetur. En það hefur ekki fengist. Þess vegna finnst mér þær upplýsingar, að snjómokstursreglur séu á vegum þm. kjördæmanna, alls ekki réttar, enda hef ég ekki orðið var við það, að leitað hafi verið álits þm. Vesturlands um hvernig mokað skuli snjó á Vesturlandi, heldur séu þetta fyrst og fremst einhverjar uppbúnar arðsemishugmyndir Vegagerðarinnar. Ég er á því og vil undirstrika það, að mér finnst að þar eigi sér stað vissir hlutir sem séu fullkomlega gagnrýnisverðir. M. a. það, að við þær aðstæður, sem núna eiga sér stað um Ólafsvíkurenni, skuli ekki vera hægt að fá mokað fyrir Jókul á vegum Vegagerðarinnar. Ég held að við höfum nefnt mokstur einu sinni í mánuði til þess að tryggja samgöngur við Hellissand og hafa þá leið opnari en verið hefur.