04.11.1980
Sameinað þing: 13. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í B-deild Alþingistíðinda. (290)

60. mál, framkvæmdir RARIK á Melrakkasléttu

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að bæta hér við örfáum orðum um þetta mál.

Í umr. um sveitarafvæðingu ber það við, að menn líti svo til, að þau býli, sem ekki eru tengd samveitum, séu án rafmagns. Ég hygg að þau séu nú mjög fá af þessum býlum sem ekki búa við raforku framleidda yfirleitt með dísilvélum. Hitt er annað mál og ofurskiljanlegt, að menn vilja helst fá raforku frá samveitum, telja það öruggari, tryggari og að jafnaði ódýrari orku sem þannig fáist. Hitt er aftur ljóst, að kostnaðurinn við að leysa þetta verkefni, rafvæðingu þessara 56 býla út frá samveitum, er býsna mikill í sumum tilvikum, og það hlýtur að vera matsatriði hversu hratt er gengið fram til þess að leysa þetta mál með þeim hætti til fullnustu. Því bendi ég á það, að jafnhliða því sem áfram þarf að halda í sambandi við tengingu býla út frá samveitum, þá er eðlilegt að leitað sé annarra leiða, einkum fyrir afskekktustu bæina. Í þessu sambandi vil ég nefna átak sem gert var og Alþ. stóð að eftir till. frá ríkisstj. 1978–1979, að bæta aðstöðu eins byggðarlands á Norðausturlandi, Hólsfjallabyggðar, í sambandi við kostnað varðandi raforkuöflun. Ég beitti mér fyrir því, að áform þar að lútandi, sem höfðu verið á dagskrá um alllangt skeið, urðu að veruleika. Ég taldi að það væri eðlilegt, að þarna yrði tekið á með sérstökum hætti fyrir þessa einangruðu byggð og byggð sem liggur hæst yfir sjó á landinu, og það tókst að leysa. Þannig þarf að meta það, hvort ekki er réttmætt í þeim tilvikum, þar sem menn búa við erfiðust skilyrði, en eðlilegt er að hlúa að byggð, að samfélagið hlaupi undir bagga til þess að bæta aðstöðu manna. Sá kostnaður getur í reynd orðið minni en við það að teygja raflínur til viðkomandi byggðarlaga, — raflínur sem eru því miður ekki alltaf öruggar, síst ef yfir fjöll og firnindi er að fara.

Mér þykir ánægjulegt að heyra það hjá þm. og skil það vel, að þm. viðkomandi kjördæma, umbjóðendur þeirra sem í hlut eiga, eru reiðubúnir að leggja sig fram um að þoka þessum málum áfram, og ég gleðst yfir því, að hv. þm. Halldór Blöndal tekur undir við tekjuöflun til þess að tryggja að þetta mál nái sem fyrst í höfn. Það kostar fjármagn og það fjármagn verður einhvers staðar að taka. Ég mun vinna að því, að bæði verði gerð athugun á þessu máli í heild, einnig vegna þeirra jarða sem eru utan við 6 km mörkin, svo og að unnið verði sem greiðast að því verkefni sem hér er um að ræða. Þetta mál verður í höndum fjvn. á næstu vikum, og hún getur þá metið það, hvort hægt er að leggja meira fjármagn af mörkum í þessu skyni heldur en er í fjárlagafrv.