11.03.1981
Neðri deild: 62. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2856 í B-deild Alþingistíðinda. (2974)

174. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að halda langa ræðu um þetta efni.

Ég undrast að enn skuli vera til menn sem eru á móti því að reyna að nýta kolann, svona góðan og dýran fisk. Á sama tíma er alltaf veríð að reyna að vísa fiskiflotanum okkar á svokallaðar vannýttar tegundir, sem sumar hverjar eru líklega miklu verr á vegi staddar en þorskurinn sem allir eru að passa. Ég ætla ekki að fara út í það.

Kolinn er bókstaflega ekkert veiddur hér við land, hvorki skarkolinn né þykkvalúran, sem fær að vera alveg í friði. Við þurfum að finna einhver ráð til að breyta lögum og reglum okkar þannig að við getum líka nýtt þann stofn, — það mikla og dýra sælgæti sem er á ferðinni í mynd þykkvalúrunnar.

Hæstv. ráðh. nefndi í sinni ræðu að hann flytti þetta mál einn sem sjútvrh., en það væri ekki flutt sem stjfrv. Þá vil ég segja það, þó að ég þurfi auðvitað ekki að tala lengi hér vegna þess að ég er í þeirri nefnd sem fær þetta mál til meðferðar, að þó að ég sé ekki valdamaður í Alþb. af skiljanlegum ástæðum hef ég þó ráð á einu atkvæði enn þá og lýsi yfir stuðningi mínum við þetta frv. og hefði stutt það þó gengið hefði verið lengra.

Það er ólíku saman að jafna, hvernig var með dragnótaveiði hér fyrr meir og þá dragnótaveiði sem nú er stunduð. Þá var dragnótin öðruvísi notuð og allt annað veiðafæri en nú er. Og þó að menn tali um að þeir, sem muna ástandið fyrir 1970, hvernig þá hafi verið komið fyrir flóanum, — að þeir óttist að flóinn verið opnaður á ný, eins og hæstv. dómsmrh. orðaði það, er þarna ólíku saman að jafna.

Í fyrsta lagi er ósannað að veiði hafi dregist svona mikið saman í Faxaflóanum vegna dragnótarinnar. Hún hafði dregist saman býsna mikið víða um land þó að dragnót hefði þar hvergi verið hreyfð. En friðun landhelginnar og stækkun hennar og útilokun útlendinga á þessu tímabili hefur orðið til þess, að fiskigengd á grunnmiðum af smáfiski hefur vaxíð. Fiskigengd hefur aukist þrátt fyrir allt of mikla veiði að því er talið er.

Það er allt annað veiðarfæri sem er með 100 millimetra möskva eða 150 millimetra möskva eða þar yfir, enda sýndi það sig að þegar möskvinn í poka var stækkaður í 170 millimetra gátu menn hreint ekki stundað þessar veiðar vegna þess að þá sleppur bókstaflega allt út. Það er svo með troll með 155 millimetra möskva. Það heldur ekki t. d. þykkvalúrunni, lemmanum eins og kallaður er. Hann skríður út, leggur sig saman og kveður. Það er áreiðanlegt að það er mikill fiskimaður sem getur veitt mikið að smáfiski á snurvoð, sem er með 155 millimetra möskva. Hann er klókur sá. (PS: Þeir eru seigir undir Jöklinum.) Já, þeir eru seigir, en varla nógu seigir til þess.

Ég vil benda á það, sem stendur hér í grg., að Hafrannsóknastofnunin hefur ítrekað lagt til að dragnótaveiðar yrðu leyfðar. Á einum vígstöðvunum erum við sífellt að ragast út í þessa stofnun fyrir að vilja leyfa allt of litlar veiðar og mikið um það talað og hátt barist í þeim efnum í þjóðfélaginu, en svo leggur þessi sama stofnun til ár eftir ár að veiðar verði auknar á kolanum og þá eru menn tregir til að taka undir. Það undrast ég. Ég er alveg viss um að þessi tala, sem stofnunin nefnir þarna, 1500 tonn, er ekki of há. Þeir fara varlega í þessar sakir. Það er ekki nokkur vafi á því.

Ég er hissa á því að Reykvíkingar skuli ekki sérstaklega berjast fyrir því, að menn skuli fá að veiða sér í flóanum svo ágætan matfisk sem kolinn er. Það eru aðeins sumir af þm. Reykv. sem hafa gert það, en aðrir ekki.

Ég vil sem sagt strax í upphafi lýsa yfir því, að ég er fylgjandi þessu frv. og ég vildi gjarnan láta gera meira að því að auðvelda duglegum fiskimönnum að ná í kolann víðar, ekki bara í dragnót, heldur í einhver önnur veiðarfæri, því að sannleikurinn er sá, að það skiptir ekki máli hvort við fiskum stóran og góðan fisk innan eða utan við einhverjar ákveðnar línur og ekki heldur hvort við fáum hann í þetta eða hitt veiðarfærið. Dauður fiskur er jafndauður hvort hann er drepinn á línu eða í troll. Það þarf bara að haga þessu skynsamlega og reyna að koma ákveðnum skikk á allar veiðar. En það er rangt að mínum dómi, á meðan við sækjum heldur grimmt í suma fiskstofna, að skilja þá aðra alveg eftir sem við vitum að eru orðnir of stórir sumir hverjir.