18.03.1981
Sameinað þing: 63. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2958 í B-deild Alþingistíðinda. (3097)

256. mál, vegarstæði milli Vopnafjarðar og Fljótsdalshéraðs

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Það er dálítill vandi að svara þessari spurningu. Það eru því miður ákaflega margar samþykktir sem þessar sem leggjast niður í skúffu og eru svo teknar upp, eins og hv. þm. sagði, og fluttar að nýju. Það er ekki til eftirbreytni, undir það vil ég taka.

Til samgrh. berast mjög mörg tilmæli um rannsóknir á einu vegarstæði eða öðru. Hins vegar hygg ég að það sé svo, ekki bara í minni tíð, heldur fyrri samgrh., að þessar tillögur hafi yfirleitt allar verið sendar til Vegagerðar til meðferðar. Ég vek athygli á því að í raun og veru er það verkefni samgrh. að leggja fyrir Alþingi vegáætlun, eins og gert hefur verið nú, þar sem gert er ráð fyrir ákveðnu fjármagni, t. d. tæplega 40 milljörðum gkr. nú í ár, og skiptingu þess fjármagns í meginflokka. Það, sem þetta gæti hugsanlega fallið undir, er það sem heitir „Tæknilegur undirbúningur“, sem í ár nemur 845 millj. gkr. Þessi flokkur er að sjálfsögðu til undirbúnings vegaframkvæmdum um allt land. Þetta bætist ofan á framkvæmdakostnaðinn. Síðan er annar liður sem heitir „Til tilrauna“ og nemur 113 millj. gkr. í ár, sem er ekki talinn beint tengdur verkefnum, sem eru á vegáætlun. Ég get nú ekki svarað því hér í smáatriðum til hvers því hefur verið varið. Ég held að það hafi verið notað vítt og breitt þar sem skoðaðar hafi verið framkvæmdir til lengri tíma.

En meginhluti fjármagns til nýrra vega fer í gegnum hendur þingmanna viðkomandi kjördæmis. Því er skipt af fjvn. í ákveðnum hundraðshlutum á stofnbrautir, þjóðbrautir og sérstök verkefni, sem ég þarf ekki að ræða hér, þm. þekkja. Síðan eru það þm. viðkomandi kjördæmis sem skipta þessu, og ég man t. d. ekki eftir að við í Vestfjarðakjördæmi höfum fengið sérstaka fjárveitingu til rannsókna á mikilvægum vegarspottum þar.

Ég verð að segja eins og er, að ég lít svo á að svona verkefni sé fyrst og fremst á valdi þm. kjördæmisins að ákveða. Þeir veita einhverju af því fjármagni, sem þeir hafa út úr þessum skiptum, til að undirbúa verkefni.

Nú þekki ég ekki nægilega vel til, en mér skilst að þetta sé þjóðvegur. Er það ekki rétt? (StJ: Bíll hæstv. sjútvrh. hefur farið þessa leið.) Það er ekki víst að hann sé fær öllum samt. En sem sagt, þetta er þjóðvegur og þá er hann tvímælalaust í þeim flokki undirbúningsverkefna sem þm. verða sjálfir að ráðstafa til. Ég kannast ekki við að sérstök fjárveiting hafi verið veitt til undirbúnings slíkra framkvæmda.

Ég lofa því, að þetta skal ekki rykfalla. Það færi þá frá mér til vegamálastjóra, og ég er næstum viss um að hann tæki þetta þá aftur upp við þm. kjördæmisins, og vel má vera að hv. flm. sitja á þeim fundi þannig að þá sé þetta komið hringinn. Ef Alþingi hefur lýst vilja sínum til þess að rannsaka þennan veg hljóta hinir þm. kjördæmisins — sem kannske eru eitthvað tregari, ég veit það ekki — að taka fullt tillit til þess.