19.03.1981
Efri deild: 65. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2996 í B-deild Alþingistíðinda. (3139)

249. mál, ólíuleitarmál og hagnýtar hafsbotnsrannsóknir

Flm. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég vil þakka hæstv. ráðherrum, sem hér hafa tekið til máls, fyrir góðar undirtektir við þetta mál og hv. þm. Guðmundi Bjarnasyni. Það er uppörvun að heyra slíkar undirtektir.

Ég tek mjög undir það með hæstv. viðskrh., að það eru á margan hátt mjög ískyggilegar horfur í olíumálum í heiminum. Eins og kom raunar fram þegar ég mælti fyrir þessu frv. er það svo, að þó við séum ríkir að orkulindum verður þörf okkar fyrir olíu og bensín og annað slíkt eldsneyti áfram mjög mikil og breytist sáralítið þó að við hagnýtum alla möguleika til þess að nýta aðrar orkulindir. Þörfin breytist sáralítið nema það verði, eins og hæstv. ráðh. kom hér inn á, gerbylting í okkar málum, t. d. að því er varðar eldsneytisnotkun. Við eyddum á s. l. ári um 12–13% af okkar útflutningstekjum til þess að flytja inn olíuvörur og ef verðþróunin yrði eins og hann talaði um að spár væru nú um, þá gæti þetta orðið þungur baggi, kannske einhvers staðar á milli 20 og 30%, sem við þyrftum að eyða af okkar útflutningstekjum eingöngu í að flytja inn eldsneyti. Ég held því að við þurfum að hugsa um þessi mál mjög rækilega og ræða þau.

Ég tek mjög undir það, að við þurfum að hugleiða það á jákvæðan hátt að gerast aðilar að Alþjóðaorkumálastofnuninni. Ein af meginreglum hennar er sú, að það séu jafnan til a. m. k. þriggja mánaða birgðir af eldsneyti í viðkomandi löndum. Þetta er mjög mikið öryggisatriði, eins og hæstv. ráðh. kom inn á, og ég tel, að það sé alveg einsýnt að við eigum að taka af skarið í þeim efnum, og er eindregið fylgjandi því að við göngum í þessa stofnun.

Ég vildi að þetta kæmi fram hér og þakka enn undirtektir.