04.11.1980
Neðri deild: 11. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í B-deild Alþingistíðinda. (321)

17. mál, olíugjald til fiskiskipa

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Mér hefur ekki gefist tími til að bera yfirlýsingu og ummæli hæstv. sjútvrh. í nótt um Ingólf Ingólfsson undir hann í dag þótt ég hafi reynt það enda var mér satt að segja ókunnugt um þennan fund fyrr en ég kom í þinghúsið og ég hef ekki getað náð í Ingólf Ingólfsson. En hæstv. sjútvrh. hefur ekki hrakið það, þótt þeir hafi kannske einu sinni hist, að á öllum þeim langa tíma, sem Ingólfur Ingólfsson hefur verið fulltrúi sjómanna í Verðlagsnefnd, hefur samráðið aldrei verið jafnlítið og nú. Þetta er kjarni málsins. Þetta eru hans óbreyttu orð og hæstv. sjútvrh. hefur ekki sýnt fram á annað. — Hins vegar er ég reiðubúinn til þess að óska eftir því við forseta deildarinnar að fundi verði frestað þannig að þetta mál geti upplýsts betur og við getum farið ofan í það og rætt það þegar okkur hefur gefist svigrúm til að kanna það nánar, ef hæstv. sjútvrh. óskar eftir því.

Ég stend annars upp af því tilefni líka að þessu sinni, af því að ég sé að hæstv. forsrh. er kominn í stól sinn, að ég vil vekja athygli á því í fyrsta tagi, að samkv. lögum frá 10. apríl 1979, svokölluðum Ólafslögum, er ráð fyrir því gert að mjög víðtækt samráð sé haft við samtök launafólks, sjómanna, bænda og atvinnurekenda. Þar segir í 5. gr., með leyfi hæstv. forseta: „Verkefni samráðs þessa skal m.a. vera:

1. Að ræða meginþætti í efnahagsmálum og helstu efnahagsmarkmið ríkisstj. frá ári til árs og til lengri tíma, í því skyni að leggja grundvöll að samræmdum ákvörðunum á sviði opinberra fjármála, peninga- og lánamála, lífeyrismála og verðlagseftirlits af opinberri hálfu, og á sviði kjaramála af hálfu aðila vinnumarkaðarins.

2. Að fjalla um þjóðhags-, fjárfestingar- og lánsfjáráætlanir, tekjustefnu og forsendur þeirra.

3. Að fjalla um önnur þau atriði, sem horfa til framfara á sviði atvinnu-, verðlags-, kjara- og launamála og efnahagsmála almennt.“

Þessi lagasetning er afskaplega skýr og afdráttarlaus. Nú liggur það fyrir, að hæstv. forsrh. hefur lýst yfir að til mjög róttækra efnahagsráðstafana muni koma eigi síðar en fyrir n.k. áramót. Það má því ætla að frv. um þessar efnahagsráðstafanir verði lögð fyrir Alþ. í þessum mánuði til þess að Alþ. fái tíma til að kynna sér þau mál og skoða þau frv. og annað sem ríkisstj. hefur fram að færa til að klippa á víxlverkanir kaupgjalds og verðlags, eins og einstaka ráðh. hafa lýst yfir að sé opinbert stefnumark ríkisstj. og raunar ákveðið að gert skuli verða og hafa vísað til stjórnarsáttmálans í því sambandi.

Nú vildi svo til í deildinni í nótt, að hæstv. sjútvrh. var hér einn staddur og af meðfæddri hógværð og vegna þess að hann er orðvar maður vildi hann ekki ræða þessi mál hér. Hins vegar vísa ég fsp. til hæstv. forsrh.:

Í fyrsta lagi: Hefur ríkisstj. í hyggju eða hefur hún gert ráðstafanir til þess, að það samráð við samtök launafólks, sjómanna, bænda og atvinnurekenda, sem um er rætt í II. kafla laganna sem ég vísaði til áðan, verði haft lögum samkvæmt, og hvernig hugsar hæstv. ríkisstj. sér að það samráð verði?

Í öðru lagi langar mig til að spyrja hæstv. forsrh. hvort hann geti gefið Alþ. einhverjar skýringar á ýmsum ummælum sem hann og einstakir ráðh. í ríkisstj. hafa gefið úti í bæ, ýmist í viðtölum við blaðamenn eða á öðrum fundum, þannig að þm. hafa frétt á skotspónum eitt og annað í sambandi við fyrirhugaðar efnahagsráðstafanir. Mig langar líka til að spyrja hann um hvort hann hafi í hyggju eða ríkisstj. hans að skerða verðbótaákvæði nýgerðra kjarasamninga.

Ég vil vekja athygli á því í þessu sambandi og ítreka það frá í gærkvöld, að málin eru nú, að því leyti öðruvísi en þau voru eftir „sólstöðusamningana,“ að þá var fyrst samið á hinum frjálsa vinnumarkaði milli verkalýðsfélaganna og Vinnuveitendasambands Íslands, en samningarnir við ríkisvaldið voru gerðir á eftir og febrúarlögin margumræddu komu í kjölfar þeirra. Á þeim tíma var það skilningur m.a. hv. 7. þm. Reykv., Guðmundar J. Guðmundssonar, og hv. 8. landsk. þm., Guðrúnar Helgadóttur, — ég sé að þau hafa nú bæði farið úr þingsölum þegar farið er að ræða kjaramálin, það er kannske ekki undarlegt, — að það hefðu verið svik af þáv. ríkisstj. að grípa til kjaraskerðingarráðstafana ofan í samninga sem þá var nýbúið að gera við opinbera starfsmenn. Nú horfa málin að því leyti öðruvísi við að ríkisstj. braut ísinn, ríkisstj. samdi við opinbera starfsmenn um mánaðamótin ágúst-september og hinir frjálsu kjarasamningar, sem nú er verið að ganga frá, eru samhljóða þeim samningum.

Það er þess vegna alveg ljóst, að ef ríkisstj., sem nú situr beitir sér fyrir einhverjum þeim aðgerðum, sem kynnu að verka til að skerða þann kaupmátt sem samið hefur verið um, þá er ríkisstj. með því að ógilda kjarasamninga sem hún átti sjálf allt frumkvæði að því að gerðir voru. Hún getur ekki skotið sér á neinn hátt undan ábyrgðinni. Það er deginum ljósara. Öll skrif Þjóðviljans og einstakra Alþb.-manna til að reyna að gefa annað í skyn eru út í hött.

Á hinn bóginn er það algjörlega óþolandi, þegar fjárlög eru í vinnslu í þinginu og verið er að ræða hér um þetta frv. og ýmis frv. önnur sem koma inn á gang efnahagsmála, að Alþ. eigi áfram að vera síðasti aðilinn í þessu landi sem fær nokkrar hugmyndir um þær fyrirætlanir sem ríkisstj. hafi í hyggju í þessu sambandi. Þess vegna held ég að það sé alveg nauðsynlegt að einhver svör verði gefin um þetta mál og þingheimur fái vitneskju um það frá fyrstu hendi, hvaða hugmyndir ríkisstj. hefur í þessum efnum, hvað hún ætlar sér að gera. Satt að segja var afskaplega lítið að græða á stefnuræðu hæstv. forsrh., þó honum hafi komið það á óvart.

Ég heyrði það í frammíkalli hjá hæstv. fjmrh. í gær, að honum fannst að það ætti ekki að tala um neitt nema olíugjaldið hér í dag og í gær. Það liggur fyrir, að sjómenn hafa fengið minni kjarabætur en aðrir launþegar í landinu á þessu ári miðað við sama aflamagn. Það hefur m.ö.o. verið níðst á sjómönnum og það á að halda áfram að gera það nú með því frv. sem hér liggur fyrir. Það er óhjákvæmilegt í samhengi við það að ræða þessi mál almennt og líka vegna þess að upplýsingar Ingólfs Ingólfssonar benda til að það samráð, sem lögum samkvæmt er skylt að hafa við verkalýðshreyfinguna, hefur ekki verið haft við sjómannasamtökin, eins og ætlast er til, miðað við þá löggjöf sem ég vísaði til og ég held að óhjákvæmilegt sé að ríkisstj. reyni að framkvæma, a.m.k. þeir hæstv. ráðh. sem beittu sér sérstaklega fyrir því að löggjöfin var sett.

Hitt skil ég auðvitað afskaplega vel, að hæstv. forsrh. reyni að skjóta sér þarna undan. Hann var ekki í álögum þegar Ólafslög voru sett og greiddi atkvæði á móti þeim. Hann var þá með sínum gömlu félögum hér í þinginu og hafði ekki hlaupið burt frá þeim. Ég skil því ofurvel að hann vilji að þessi löggjöf verði numin úr gildi. En ég hélt að hann væri farinn að kunna svo vel við sig þarna núna að hann væri orðinn samdauna og mundi vilja standa við þetta. Víst er um það, að ekki hefur hann lagt sig neitt í framkróka um að halda uppi góðri samvinnu við félaga sína í Sjálfstfl. og hefur ekki gefið þeim nemar sérstaklegar upplýsingar um hvernig gangur mála hefur verið þannig að það sé neitt sérstaklega hrósvert. Þess vegna er það, þótt skrýtið sé og þótt hæstv. forsrh. gegni nú um stundir formannsembætti Sjálfstfl. meðan Geir Hallgrímsson er erlendis, að þm. Sjálfstfl. verða helst að reyna að fá upplýsingar hjá þessum manni í þingsölunum eða með einhverjum þvílíkum hætti, því að við eigum ekki kost á því að fá þessar upplýsingar í stofnunum Sjálfstfl., svo sem þingflokki hans. Svo skrýtin er nú þessi uppákoma eða happening. En eins og hv. 1. þm. Vestf. benti á í ræðu í gær af frekar ósmekklegu tilefni getum við ekki reitt okkur, því miður, á þann mann sem nú gegnir formannsembætti í Sjálfstfl. eða að hann taki það embætti alvarlega.