26.03.1981
Sameinað þing: 66. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3107 í B-deild Alþingistíðinda. (3243)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég vildi láta það koma fram, að það er alveg rétt skilið hjá hv. þm. Geir Hallgrímssyni, að honum tekst ekki nú frekar en áður að fá okkur Alþb.-menn til að ræða við sig um sérstaka starfshætti þessarar ríkisstjórnar. (GeirH: Þú ert nú kominn upp í ræðustólinn í þetta sinn.) Já, það verður kannske að teljast helsta afrek þm. á undanförnum vikum í íslenskum stjórnmálum að hafa tekist að fá mig hér í um það bil mínútu upp í ræðustólinn. Vonandi verður það tíundað í afrekaskránni á haustfundinum þegar verður farið að gera upp hverjir sýni mestan dugnað og forustuhæfileika innan Sjálfstfl. — Ég ætlaði bara að undirstrika það, eins og fram hefur komið áður, að við látum ekki hv. þm. Geir Hallgrímsson né neina aðra skikka okkur til þess, hvenær og hvernig við ræðum samstarf okkar við aðra aðila í þessari ríkisstjórn, enda kannske ekki von til þess, að hv. þm. sé í stakk búinn að skilja þessa ríkisstj. eins og hún er til komin.