26.03.1981
Sameinað þing: 66. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3109 í B-deild Alþingistíðinda. (3250)

239. mál, vínveitingar á vegum ríkisins

Flm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Fyrr á þessu þingi var lögð fram till. á þskj. 59 um að skora á ríkisstj. að láta nú þegar undirbúa tillögur að stefnu hins opinbera í áfengismálum. Við umr. um þá till. hér á Alþingi taldi ég og fleiri, sem þá tóku til máls, að æskilegt væri að Alþingi léti nú þegar í ljós skýrar en fram kemur í þeirri till. vilja sinn á því að dregið verði úr áfengisneyslu í landinu. Var það raunar í samræmi við þau sjónarmið sem komu fram í framsöguræðu 1. flm. þeirrar till. Í samræmi við þessa skoðun höfum við tíu hv. alþm. flutt till. um að skora á ríkisstj. að hætta vínveitingum í opinberum veislum.

Það þarf ekki að skýra þessa till. í mörgum orðum, þar sem efni hennar er augljóst. Ég held að ekki þurfi heldur að fara mörgum orðum um þá vá sem vaxandi áfengisneysla er, svo nærri hafa afleiðingarnar höggvið mörgum. Sérfræðingar telja að 10–20% þeirra, sem áfengis neyta, verði áfengissjúklingar. Hér á landi hafa verið stofnuð öflug samtök til að bjarga þeim sem fyrir slíku verða. Alþingi veitir fé í þessu skyni, en allir, sem til þekkja, vita að miklu meira fjármagn þyrfti til þess ef hægt ætti að vera að veita öllum þá hjálp sem þess þyrftu, og þá er eftir að geta um öll slysin og annað tjón sem í engu mannlegu valdi stendur að bæta. Þegar þessi staðreynd blasir við er varla hægt að segja annað en það sé fáránlegt að ríkisvaldið skuli beita — það má segja; þrýstingi á neyslu áfengis, eins og það gerir með vínveitingum í opinberum veislum.

Fyrr í þessari viku voru hér á ferðinni norrænir þm. Sænsku fulltrúarnir, sem voru í þeim hópi, staðfestu að í Svíþjóð er nú vínveitingum hætt algerlega í síðdegisboðum opinberra aðila. Þær vínveitingar, sem þar eru eftir á vegum opinberra aðila, eru borðvín sem veitt eru með mat. Þannig hafa Svíar farið eftir þeirri áskorun sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur sent til allra þjóða um að hefjast handa um raunhæfar aðgerðir til að draga úr áfengisneyslu. Mörg fleiri dæmi um jákvæð viðbrögð við þessari áskorun Alþjóðaheilbrigðimálastofnunarinnar væri hægt að rekja hér, en til þess er ekki tími.

En þar sem Pólland er mjög til umræðu um þessar mundir og forustumenn þess eiga við margvísleg vandamál að glíma vil ég aðeins geta um frétt þaðan sem ég er hér með í höndunum. Þar segir að þrátt fyrir þær aðstæður, sem þar ríkja nú, hafi verið hafin krossferð þar í landi gegn áfengisneyslu. Í fararbroddi þeirrar krossferðar eru þeir sem nú er mest talað um, aðstoðarforsrh. Jagielski og leiðtogi verkalýðshreyfingarinnar, Leeh Walesa. Svo mjög telja þeir þetta mál þýðingarmikið.

Fyrir fáum dögum heyrði ég í útvarpi viðtal við unga stúlku og var rætt við hana um vaxandi áfengisneyslu unglinga hér á landi með þeim afleiðingum sem hún hefur. Ummæli stúlkunnar voru á þá leið, að forráðamenn virtust loka augunum fyrir þessu ástandi og virtust hugsa sem svo, að þeirra börn muni sleppa.

Sem betur fer eru það margir sem sjá að við svo búið má ekki lengur standa og eitthvað þarf að gera. Ég hef hér fengið áskorun til alþm. um samþykkt þáltill. þessarar um afnám vínveitinga á vegum ríkisins. Hún er stuttorð:

„Undirritaðir fulltrúar samstarfsaðila um átak gegn áfengisvá skora hér með persónulega á hæstv. Alþingi að samþ. fram komna þáltill. um afnám vínveitinga á vegum ríkisins.“

Þeir, sem undir þessa áskorun skrifa, eru fulltrúar Íslenskra ungtemplara, áfengismálanefndar Bandalags kvenna, framkvæmdastjóri SÁÁ, fulltrúi Æskulýðsráðs þjóðkirkjunnar, Æskulýðsráðs Reykjavíkur, Áfengisvarnadeildar Reykjavíkur, Unglingareglunnar, menntamálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis, Landssambandsins gegn áfengisbölinu, Bindindiseftirlits íslenskra kennara, Afengisvarnaráðs, Slysavarnafélags Íslands og Stórstúku Íslands.

Þannig munu áreiðanlega margir hugsa og telja að hér sé verið að stíga skref í rétta átt sem geti haft töluverð áhrif enda þótt vitanlega þurfi margt fleira að gera.

Mér er í minni viðtal, sem birt var í sjónvarpi fyrir nokkrum árum, við ungan mann sem lent hafði í bílslysi, lá á bæklunardeild og mátti sig litt hreyfa. Hann var spurður hvað hann vildi ráðleggja öðrum til þess að komast hjá að hljóta svipuð örlög. Svar hins unga manns var stutt og skýrt: Að drekka aldrei áfengi.

Ég held að þegar um er að ræða jafnútlátalitla ákvörðun og samþykkt þessarar þáltill. hljóti alþm. að vilja gera það til að draga úr þeim örlögum sem áfengisneyslan skapar mörgum. Ég vænti því þess, að till. fái greiða afgreiðslu. Þegar þessari umr. lýkur í dag legg ég til að henni verði vísað til hv. allshn.